Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 9. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 9  —  9. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu
(gjaldtaka vegna notkunar greiðslumiðla).

Flm.: Frosti Sigurjónsson, Elsa Lára Arnardóttir, Haraldur Einarsson,
Jóhanna María Sigmundsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson,
Sigrún Magnúsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Willum Þór Þórsson,
Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir, Jón Þór Ólafsson,
Helgi Hrafn Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Óttarr Proppé.


1. gr.

    Í stað 3. mgr. 47. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þau gjöld sem greiðsluþjónustuveitandi krefur notanda greiðsluþjónustu um vegna greiðsluþjónustu skulu vera í eðlilegu samræmi við þann kostnað sem greiðsluþjónustuveitandi hefur af veitingu þjónustunnar.
    Greiðsluþjónustuveitanda er óheimilt að krefjast þess af viðtakanda greiðslu að:
     a.      hann veiti greiðanda sem greiðir með tilteknum greiðslumiðli sömu eða betri viðskiptakjör og öðrum greiðendum, og/eða
     b.      hann veiti ekki afslátt af eða hækki verð vöru eða þjónustu vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils umfram aðra.
    Viðtakanda greiðslu er óheimilt að krefja greiðanda um hærra gjald vegna notkunar greiðslumiðils en nemur því gjaldi sem viðtakandi greiðslu greiðir til greiðsluþjónustuveitanda vegna veittrar greiðsluþjónustu.
    Viðtakanda greiðslu er aðeins heimilt að krefja greiðanda um gjald vegna notkunar greiðslumiðils þegar greiðandi hefur verið upplýstur um gjaldtökuna áður en tekin er ákvörðun um greiðslu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014.

Greinargerð.

    Lög um greiðsluþjónustu voru samþykkt á Alþingi 17. september 2011. Frumvarp það sem síðar varð að framangreindum lögum var lagt fram á Alþingi 7. apríl sama ár og því vísað til viðskiptanefndar að 1. umræðu lokinni 5. maí 2011. Viðskiptanefnd afgreiddi síðan frumvarpið 5. september 2011. Umræður um málið voru afar knappar.
    Frumvarp það sem hér er lagt fram varðar fyrst og fremst 47. gr. laganna, nánar tiltekið 3. mgr. hennar. Greinin hefur fyrirsögnina Gjaldtaka. 3. mgr. hljóðar svo: „Viðtakanda greiðslu er óheimilt að krefjast gjalds af greiðanda vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils umfram aðra.“
    Frumvarpið er lagt fram í tvennum tilgangi, annars vegar til þess að leiðrétta ákveðin mistök sem virðast hafa verið gerð við samningu frumvarps til laga um greiðsluþjónustu, hins vegar til þess að gera breytingar á grundvelli ákvæða viðskiptaskilmála greiðslukortafyrirtækja þar sem kveðið kann að vera á um að söluaðilum sé óheimilt að veita þeim sem greiða með greiðslukortum önnur viðskiptakjör en þeim sem greiða með öðrum greiðslumiðlum eða óheimilt að hækka verð á vöru eða þjónustu þegar kaupandi framvísar greiðslukorti við kaup.
    Í samskiptum við greiðslukortafyrirtæki hefur komið fram að sum þeirra leggja þann skilning í ákvæði 3. mgr. 47. gr. laganna að það banni viðtakendum greiðslu, þ.e. kaupmönnum o.fl., að krefja greiðendur, þ.e. viðskiptavini sína, um gjald vegna greiðslu með greiðslumiðli, t.d. kreditkorti, en innheimta ekkert gjald fari greiðslan fram með afhendingu reiðufjár. Til stuðnings framangreindum skilningi hefur verið vísað til sérstakra athugasemda við 3. mgr. 47. gr. frumvarps þess sem síðar varð að lögum um greiðsluþjónustu. Þar kemur eftirfarandi m.a. fram: „Í 3. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að viðtakanda greiðslu sé óheimilt að krefjast gjalds af greiðanda vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils, umfram aðra. Hér yrði því nýtt valkvætt ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 52. gr. tilskipunarinnar […]. Með því að nýta ekki hið valkvæða ákvæði tilskipunarinnar yrðu skilyrði sköpuð til samkeppni milli ólíkra tegunda greiðslumiðla. Líklegast er að samkeppni greiðslumiðla yrði á milli reiðufjár og greiðslukorta. Aukning reiðufjár í umferð hefur í för með sér kostnað við prentun seðla og myntsláttu og kann þar að auki að leiða til frekari skattundandráttar en ella. Vegna þess hve notkun greiðslukorta á Íslandi er víðtæk hafa skattyfirvöld einmitt nýtt sér greiðslukortaveltu rekstraraðila sem sterka vísbendingu við áætlun raunverulegrar veltu. Er um að ræða mikilvægar hagrænar upplýsingar fyrir skattyfirvöld. Kjósi neytendur reiðufé í auknum mæli sem greiðslumiðil er líklegt að erfiðara verði fyrir skattyfirvöld að áætla raunverulega veltu sem getur þá bæði verið of- eða vanáætluð eða jafnvel áætlun veltu ekki talin nægjanlega rökstudd með vísan til greiðslukortaveltu. Rafrænar greiðslur eru enn fremur í samræmi við markmið Evrópusambandsins, sbr. SEPA.“
    Þó svo að flutningsmenn telji framangreindan skilning greiðslukortafyrirtækja ekki allskostar réttan er ljóst að framangreind ummæli í athugasemdum frumvarps til laga um greiðsluþjónustu hafa í framkvæmd haft áhrif á skilning manna á inntaki 3. mgr. 47. gr. laganna. Verulega líklegt má telja að aðgerðir greiðslukortafyrirtækja sem grundvallast hafa á þessum skilningi hafi óæskileg áhrif á hag neytenda. Virðist reglan því ekki þess megnug að hvetja til samkeppni og stuðla að notkun hagkvæmra greiðslumiðla eins og áskilið er í ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 52. gr. tilskipunar 2007/64/EB. Er ákvæðum frumvarpsins ætlað að bæta úr þessum annmarka.
    Þá er frumvarpinu ætlað að bæta hag heimila á Íslandi, efla upplýsingagjöf til neytenda og færa þeim aukið val um greiðslumáta.
    Kreditkortavelta heimila á Íslandi nam um 270 milljörðum kr. árið 2012. Debetkortavelta heimila á Íslandi nam 260 milljörðum kr. á sama ári. Íslensk heimili notuðu því kreditkort í meira mæli en debetkort. Í nágrannalöndum okkar, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, eru debetkort hins vegar notuð margfalt meira en kreditkort.
    Skýringin á svo mikilli notkun kreditkorta hérlendis felst að öllum líkindum í því að neytendur greiða sama verð hvort sem þeir staðgreiða með debetkorti, eða nýta sér greiðslufrest hjá söluaðila með því að greiða með kreditkorti.
    Ef gert er ráð fyrir að mánaðarkostnaður kaupmanna vegna kreditkortaskulda sé um 2% nemur sá fjármagnskostnaður sem nú er falinn í almennu verðlagi u.þ.b. 5,7 milljörðum kr. á ári eða um 480 millj. kr. á mánuði að meðaltali. Þennan kostnað greiða öll heimili í landinu nú óafvitandi hvernig sem þau kjósa að greiða fyrir kaup á vörum og þjónustu.
    Verðtryggðar skuldir heimilanna voru ríflega 1.400 milljarðar kr. í mars á þessu ári. Lækkun neysluvísitölu um eitt prósent mundi því lækka verðtryggðar skuldir heimila um 14 milljarða kr. Ef söluaðilar hætta að innifela álag vegna kreditkortaviðskipta í almennu söluverði getur það leitt til lækkunar á neysluvísitölu og þar með skuldum heimila.
    Verði frumvarpið að lögum geta söluaðilar auglýst staðgreiðsluverð sem hið almenna verð. Staðgreiðsluverð mun bjóðast þeim sem staðgreiða með debetkorti eða reiðufé. Aðeins þeir sem greiða með kreditkorti munu greiða álag. Söluaðila ber að upplýsa greiðanda um álagið og það verður að vera í samræmi við ætlaðan kostnað söluaðilans af lánsviðskiptum, líklega 1–3% eftir atvikum. Slíkt álag vegna greiðslu með kreditkorti tíðkast víða erlendis.
    Ljóst er að skuldsetning íslenskra heimila er of mikil. Eðlilegt er því að reyna að draga úr hvötum til skuldsettrar neyslu. Þjónustugjöldum, vegna móttöku kreditkortagreiðslu, hefur, eins og þegar hefur komið fram, verið velt út í almennt verðlag. Þannig er enginn greinarmunur gerður á því hvort greitt er með kreditkorti eða með debetkorti, í báðum tilfellum greiðir kaupandi kostnað söluaðila vegna u.þ.b. 20 daga greiðslufrests. Við slíkar aðstæður er hvati til að staðgreiða fyrir vöru eða þjónustu ekki til staðar eða jafnvel öfugur. Markmið frumvarpsins er m.a. að bregðast við þessum aðstæðum. Því er ætlað að auka möguleika neytenda til að haga viðskiptum sínum á sem hagstæðastan máta. Það er ætlunin að gera með því að búa svo um hnútana að þeim sem greiðir fyrir vöru eða þjónustu með kreditkorti verði ljóst fyrir fram hvaða kostnaður hlýst af því. Þannig ættu neytendur að vera betur upplýstir um hvaða ávinning þeir hafa af því að staðgreiða með debetkorti eða reiðufé.
    Ætla má að verði frumvarpið að lögum muni hlutfall þeirra sem staðgreiða vöru og þjónustu fara vaxandi hér á landi og verða líkara því sem þekkist í nágrannalöndunum. Söluaðilar geta þá boðið neytendum betra verð. Hvert eitt prósent til lækkunar á verðlagi getur skipt heimilin og neytendur máli.
    Mat flutningsmanna er að aukin vitund neytenda um kostnað vegna notkunar greiðslumiðla muni efla og breyta eðli samkeppni á milli greiðsluþjónustuveitenda. Slíkt er í samræmi við áskilnað 2. málsl. 2. mgr. 52. gr. tilskipunar 2007/64/EB.
    Efni frumvarpsins sækir fyrirmynd sína til Danmerkur og Englands, nánar tiltekið til danskra laga um greiðslumiðlun og rafeyri (d. lov om betalingstjenster og elektroniske penge, nr. 365/2011), stjórnvaldsfyrirmæla um gjaldtöku vegna notkunar greiðslumiðla í viðskiptum þar sem nærveru greiðanda og viðtakanda greiðslu er krafist (d. Bekendtgørelse om gebyrer ved brug af betalingsinstrumenter i den fysiske handel, nr. 1411 frá 28. desember 2011 (hér eftir nefnd BEK nr. 1411/2011)) og enskra stjórnvaldsfyrirmæla nr. 209/2009, um greiðsluþjónustu (e. The Payment Services Regulations 2009 (hér eftir nefnd Reg. 209/2009)).
    Við undirbúning frumvarpsins höfðu frumvarpshöfundar m.a. hliðsjón af lestri skýrslu Tipik communication agency frá september 2011, sem ber enska heitið „Conformity Assessment of Directive 2007/64/EC Denmark“.
    Í efnismálsgrein frumvarpsins er nokkrar nýjar reglur að finna.
    Fyrsta reglan, sem kemur fram í 1. mgr., segir fyrir um að þau gjöld sem greiðsluþjónustuveitandi krefur notanda greiðsluþjónustu um vegna greiðsluþjónustu skuli vera í eðlilegu samræmi við þann kostnað sem greiðsluþjónustuveitandi hefur af veitingu þjónustunnar. Reglunni er ætlað að tryggja órofa samhengi á milli kostnaðar við veitingu greiðsluþjónustu og þess kostnaðar sem viðtakandi greiðslu og greiðandi verða fyrir vegna viðskiptanna. Þannig verður tryggt að greiðsluþjónustuveitendur geti ekki aukið afkomu sína vegna annarra reglna frumvarpsins með aukinni álagningu á gjöld sem þeir innheimta nú þegar. Með notkun orðanna í eðlilegu samræmi er vísað til þess sem hingað til hefur þótt eðlileg gjaldálagning, hér á landi sem annars staðar. Reglan stefnir að því að breyta eðli samkeppni milli greiðsluþjónustuveitenda, hún fari hér eftir fram í meira mæli á grundvelli hagkvæmni í rekstri. Reglan sækir fyrirmynd til 1. mgr. 54. gr. Reg. 209/2009.
    Í 2. mgr. er kveðið á um tvennt, að greiðsluþjónustuveitanda sé annars vegar óheimilt að krefjast þess af viðtakanda greiðslu að hann veiti greiðanda sem greiðir með tilteknum greiðslumiðli sömu eða betri viðskiptakjör og öðrum greiðendum og hins vegar að viðtakandi greiðslu megi ekki veita afslátt af eða hækka verð á vöru eða þjónustu vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils umfram aðra. Þessari reglu er stefnt gegn ákvæðum sem finna má í viðskiptaskilmálum íslenskra greiðsluþjónustuveitenda. Með henni er stefnt að því að opna fyrir samkeppni á milli greiðslumiðla, heimila viðtakendum greiðslu að taka tillit til þess hvaða greiðslumiðli greiðandi greiðir með og veita þeim greiðendum sem nota greiðslumiðla sem eru hagkvæmir fyrir viðtakanda greiðslu að láta þess sjá stað í verðlagningu vöru. Reglan sækir fyrirmynd til 3. mgr. 54. gr. Reg. 209/2009.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að viðtakanda greiðslu sé óheimilt að krefja greiðanda um hærra gjald vegna notkunar greiðslumiðils en nemur því gjaldi sem viðtakandi greiðslu greiðir til innlausnaraðila vegna veittrar greiðsluþjónustu. Reglunni er ætlað að girða fyrir að viðtakendur greiðslu hagnist á notkun greiðslumiðils. Reglan sækir fyrirmynd til 4. mgr. 4. gr. BEK nr. 1411/2011.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að viðtakanda greiðslu sé aðeins heimilt að krefja greiðanda um gjald vegna notkunar greiðslumiðils þegar greiðandi hefur verið upplýstur um gjaldtökuna áður en tekin er ákvörðun um greiðslu. Reglunni er ætlað að tryggja gagnsæi í viðskiptum. Þannig er gert ráð fyrir að greiðendur verði ávallt upplýstir um að þeir muni greiða gjald fyrir notkun tiltekins greiðslumiðils. Á grundvelli þeirra upplýsinga geta þeir svo tekið ákvörðun um hvaða greiðslumiðil þeir kjósa að nota. Reglan byggist að ákveðnu leyti á þeirri hugsun sem fram kemur í 3. mgr. 4. gr. BEK nr. 1411/2011.