Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 19. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 19  —  19. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, með síðari breytingum,
og lögum um almennan frídag 1. maí, nr. 39/1966 (færsla frídaga að helgum).

Flm.: Róbert Marshall, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Veita skal frídaga vegna uppstigningardags og sumardagsins fyrsta næsta föstudag eftir þann dag sem þá ber upp á, nema um annan hátíðisdag sé að ræða og skal þá veita frí miðvikudaginn á undan. Beri jóladag, annan í jólum, nýársdag og 17. júní upp á helgi skal veita frídag næsta virkan dag á eftir. Þá skal halda 1. maí hátíðlegan sem frídag verkamanna fyrsta mánudag í maí, sbr. lög um almennan frídag vegna frídags verkamanna 1. maí.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 39/1966, um almennan frídag 1. maí.
2. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Halda skal 1. maí hátíðlegan sem frídag verkafólks fyrsta mánudag í maí.

3. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um almennan frídag vegna frídags verkafólks 1. maí.

4. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2014.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 141. löggjafarþingi (324. mál) og gekk þá til velferðarnefndar. Nefndinni bárust umsagnir frá ýmsum hagsmunaaðilum sem almennt tóku vel í þær tillögur sem frumvarpið hefur að geyma. Frumvarpið er hér lagt fram óbreytt.
    Með lögum þessum eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi frídaga á Íslandi. Áður hafa verið lagðar fram þingsályktunartillögur þar sem lagt hefur verið til að flytja það frí sem fólk hefur fengið á sumardaginn fyrsta og uppstigningardag frá þeim fimmtudegi sem daginn ber upp á og yfir á föstudag eða mánudag þar á eftir. Þá hefur málið fengið nokkuð almenna umfjöllun og m.a. hefur Rafiðnaðarsambandið beitt sér fyrir sambærilegri breytingu. Vilji þjóðarinnar hefur verið kannaður nokkrum sinnum á liðnum árum og oft verið mikil fylgni við það að breyta fyrirkomulaginu í samræmi við það sem lagt er til í frumvarpi þessu. Með frumvarpinu er ekki verið að leggja til að helgi eða hefð viðkomandi daga sé færð, breytt eða rýrð heldur eingöngu að það frí sem þeim fylgir sé fært til hagræðis fyrir launþega, fjölskyldur þeirra og atvinnurekendur.
    Stakir frídagar eru á margan hátt óheppilegir á vinnustöðum. Þeir skapa óhagræði og draga úr framleiðni. Á sama hátt nýtist stakur frídagur launþegum ekki nema að nokkru leyti, með vinnudag á undan og eftir. Það fyrirkomulag sem hér er lagt til ætti því að auka möguleika launþega á að nýta það frí sem þeir fá með lengri helgi, er fjölskylduvænna fyrirkomulag og er til hagræðis fyrir atvinnurekendur.
    Í frumvarpinu er lagt til að veita skuli almennan frídag vegna uppstigningardags og sumardagsins fyrsta næsta föstudag eftir þann dag sem þá ber upp á. Með því að færa fríið um einn dag skapast meiri tenging við upphaflega frídaginn og vísa mætti til uppstigningarhelgarinnar og fyrstu sumarhelgarinnar. Þar sem sumardaginn fyrsta ber stundum upp á sama dag og skírdag og föstudagurinn á eftir er þá föstudagurinn langi er kveðið á um að þegar svo sé skuli veita almennan frídag vegna hans daginn þar á undan. Með því lengist páskafrí og verður frá miðvikudegi.
    Þá er lagt til að 1. maí verði haldinn hátíðlegur fyrsta mánudag í maí og veitt almennt frí þann dag. Árið 1983 var frídagur verslunarmanna gerður að frídegi og ákveðið að hann yrði fyrsti mánudagur í ágúst. Síðan þá hefur sú helgi sem dagurinn lendir við verið kölluð verslunarmannahelgi og verið ein mesta ferðahelgi landsmanna. Með því að færa það frí sem tengist 1. maí fjölgar möguleikum fólks á að nýta „verkafólkshelgina“ til frítöku eða fjölskyldustunda. Auk þess sem það gefast meiri möguleikar á stærri og lengri viðburðum tengdum þessum alþjóðlega baráttudegi verkalýðsins.
    Frumvarpinu er jafnframt ætlað að tryggja að þegar lögboðnu frídagana jóladag, annan í jólum, nýársdag og 17. júní ber upp á helgi séu veittir almennir frídagar í stað þeirra næsta virkan dag á eftir. Beri bæði jóladag og annan í jólum upp á sömu helgi eru þá mánudagur og þriðjudagur þar á eftir frídagar.
    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2014 og næsta ár verði þá hið fyrsta með þessu nýja fyrirkomulagi.