Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 21. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 21  —  21. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um laun forseta Íslands, nr. 10/1990, með síðari breytingum.

Flm.: Árni Þór Sigurðsson.


1. gr.

    1. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014.

Greinargerð.

    Mál þetta var áður flutt á 140. löggjafarþingi (388. mál) en fékkst þá ekki rætt og er nú endurflutt óbreytt.
    Í 7. gr. laga um laun forseta Íslands er fjallað um kjör handhafa forsetavalds þegar þeir gegna störfum forseta. Greinin hljóðar svo:
    „Handhafar forsetavalds skv. 8. gr. stjórnarskrárinnar skulu samanlagt njóta jafnra launa og laun forseta eru þann tíma sem þeir hverju sinni fara með forsetavald um stundarsakir. Skulu launin skiptast að jöfnu milli þeirra.
    Handhafar forsetavalds skulu fá greiddan útlagðan kostnað vegna starfans.“
    Með þessu frumvarpi er lagt til að handhafar valds forseta Íslands, forseti Alþingis, forsætisráðherra og forseti Hæstaréttar, fái ekki sérstakar greiðslur, aðrar en fyrir útlögðum kostnaði, vegna afleysingastarfa sinna. Stjórnarskráin kveður á um að þessir þrír einstaklingar skuli fara með vald forseta í fjarveru hans og því er eðlilegt að líta svo á að þau aukaviðvik sem þeir sem slíkir inna af hendi séu innifalin í starfskjörum sem þeim eru ákveðin af kjaradómi fyrir meginstarf þeirra. Því sé ekki sérstök ástæða til að greiða þeim aukaþóknun fyrir handhafahlutverkið. Kostnaður ríkissjóðs vegna handhafa nemur um 10 millj. kr. á ári og mun sú fjárhæð sparast verði frumvarpið að lögum. Lagt er til að þessi breyting taki gildi 1. janúar 2014.