Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 58. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 58  —  58. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um upptöku gæðamerkisins „broskarlinn“.


Flm.: Brynhildur Pétursdóttir, Björt Ólafsdóttir, Guðmundur Steingrímsson,
Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall.

    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að undirbúa gerð lagafrumvarps, í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna, svo að unnt verði að taka upp gæðamerkið „broskarlinn“ hjá fyrirtækjum sem selja matvæli.

Greinargerð.

    Markmiðið með broskarlakerfinu sem Danir innleiddu árið 2001 er að gera eftirlitsskýrslur heilbrigðisfulltrúa opinberar, þannig að neytendur séu upplýstir um ástand veitingastaða, ísbúða, bakaría og annarra staða sem selja matvæli. Eftir hverja úttekt eru skýrslurnar hengdar upp á áberandi stað, svo sem í glugga eða við inngang, og einnig eru þær settar á netið. Áhersla er lögð á að kerfið sé skiljanlegt og því eru birt tákn (broskarl), sem gefur til kynna hvernig fyrirtækið stendur sig.
    Innleiðing kerfisins hefur gengið mjög vel í Danmörku þrátt fyrir að fyrirtæki og heilbrigðisfulltrúar hafi haft nokkrar efasemdir í fyrstu. Þekking danskra neytenda á kerfinu er mjög mikil enda hafa þarlend stjórnvöld kynnt það vel. Leiða má líkur að því að opinbert og gagnsætt eftirlit eins og broskarlakerfið auki traust og tiltrú neytenda á eftirlitskerfinu auk þess sem það veitir fyrirtækjunum mikilvægt aðhald. Í Bretlandi hefur sambærilegt kerfi verið tekið upp og er áætlað að það verði að mestu komið í gagnið í árslok 2013 (sjá: www.food.gov.uk/multimedia/hygiene-rating-schemes/ratings-find-out-more-en/#.UkmjP4Zm-QB.)
    Tillaga þessi var áður flutt af Siv Friðleifsdóttur á 140. löggjafarþingi (þskj. 1086, 677. mál) og aftur á 141. löggjafarþingi (þskj. 32, 32. mál) auk þess sem Neytendasamtökin hafa ítrekað hvatt til að broskarlakerfið verði tekið upp að danskri fyrirmynd. Fyrri þingsályktunartillögum fylgdi eftirfarandi greinargerð:
    „Tillaga þessi miðar að því að auðvelda neytendum að átta sig á gæðum þeirrar þjónustu og vöru sem ýmis fyrirtæki veita, svo sem veitingastaðir, matvinnslufyrirtæki, sjoppur og aðrar matvöruverslanir. Er tillagan samin með danska „smiley-merkið“ (broskarlinn) að fyrirmynd. Íslendingar hafa líklega helst séð merkið á ferðum sínum í Danmörku þar sem merkin eru sýnileg við inngang margra veitingastaða og annarra þjónustustaða.
    Danska „smiley-merkið“ var tekið upp árið 2001. Fyrirkomulagið hefur auðveldað neytendum að sjá hvaða fyrirtæki og verslanir hafa hlotið gæðastimpil frá matvælaeftirlitinu. Hið jákvæða er tvímælalaust að upplýsingarnar eru aðgengilegar fyrir neytendur og nýtast því einnig fyrirtækjum sem geta borið sig saman við önnur fyrirtæki í sömu starfsemi. Gagnsæi mikilvægra upplýsinga eykur öryggi neytenda.
    Danska „smiley-merkinu“ er stýrt af ráðuneyti matvæla, landbúnaðar og veiða (Ministeriet for Fødevarer, Landbrug og Fiskeri). Á heimasíðu ráðuneytisins má nálgast 175.000 eftirlitsskýrslur frá dönskum matvælafyrirtækjum (sjá: www.findsmiley.dk/da-DK/index.htm).
    Dönskum matvælafyrirtækjum ber skylda til að vísa á eftirlitsskýrslurnar á heimasíðum sínum svo að neytendur og önnur fyrirtæki geti auðveldlega nálgast niðurstöðurnar. Gerð er krafa um að „smiley-skýrslan“ sé aðgengileg. Samkvæmt reglunum eiga niðurstöður frá síðustu fjórum „smiley-skýrslum“ að vera sýnilegar á heimasíðum fyrirtækja sem auglýsa eigin starfsemi (afrit af skýrslunum, hlekkur til þeirra eða hlekkur til heimasíðu ráðuneytisins).
    Á heimasíðu ráðuneytisins er gerð nánari grein fyrir þeim kröfum sem lúta að gagnsæi upplýsingaflæðisins gagnvart neytendum og fyrirtækjum. Sem dæmi má nefna að kröfur eru gerðar um hvar á heimasíðunni merkið á að vera staðsett: www.findsmiley.dk/da-DK/Om_Smiley_ordningen/Info_til_virksomheder/ktrl_rapporter_paa_hjemmesiderne.htm
    Til eru mismunandi svipbrigði „broskarlsins“ sem hvert um sig samanstendur af niðurstöðum eftirlitsins:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Árið 2008 var gerð könnun um broskarlamerkið. Niðurstöðurnar sýndu að allir aðspurðir voru vel kunnugir merkinu. 97% svöruðu að þeim fyndist merkið góð eða mjög góð hugmynd. 59% sögðu að það hefði áhrif á val þeirra á veitingastöðum. Þannig svöruðu 59% aðspurðra að þau hefðu hætt við að snæða á veitingastað sem hefði fengið „slæmt bros“ hjá matvælaeftirlitinu.
    Einnig er eftirtektarvert að hlutfall þeirra fyrirtækja sem framfylgja reglum matvælaeftirlitsins hefur aukist um 23%, þ.e. frá 70% árið 2002 upp í 86% árið 2010.
    Árið 2008 innleiddi ráðuneytið „elite-smiley“ til þeirra fyrirtækja sem hafa ekki fengið athugasemdir við matvælaeftirlit fjögur ár í röð. „Elite-smiley“ er besta brosmerkið sem fyrirtæki getur öðlast. Smásölufyrirtæki sem selja mat og drykk til neytenda fá gæðastimpilinn „elite-smiley“ ef þau hafa fengið „stóra brosið“ fjögur ár í röð og engar athugasemdir hafa verið gerðar við eftirlit innan 12 mánaða frá athugun.
    Fyrirtæki sem hafa öðlast þennan gæðastimpil fá færri heimsóknir frá matvælaeftirlitinu. Tíminn sem matvælaeftirlitið sparar er nýttur til að auka eftirlitið í þeim fyrirtækjum sem ekki eru nógu dugleg að framfylgja tilsettum reglum. Fyrirtæki sem hafa öðlast „elite-brosið“ missa það samstundis ef þau víkja hið minnsta frá reglunum.
    Lesa má nánar um þau fyrirtæki sem geta öðlast „elite-smiley“ í tilkynningunni frá matvælastjórninni, Bekendtgørelse om fødevarekontrol og offentliggørelse af kontrolresultater (sjá elitevirksomheder): www.retsinformation.dk/Forms/R0710.aspx?id=138784.
    Heildsölur sem selja til annarra fyrirtækja fá ekki smiley líkt og smásölurnar. En niðurstöðurnar koma fram með númerum í eftirlitsskýrslunum, þ.e. 1, 2, 3 og 4 tilsvarandi „brosunum“ fjórum.
    Þær heildsölur sem sækjast eftir „elite-gæðastimplinum“ þurfa að hafa fengið fyrstu einkunn frá eftirlitinu innan 12 mánaða tímabils frá fyrstu skoðun, þ.e. er einkunnina 1.
    Sumar tegundir fyrirtækja (t.d. apótek og vínverslanir) eiga ekki kost á að öðlast gæðastimpilinn „elite-smiley“ þar sem ekki er þörf á að hafa jafn strangt eftirlit með þeim eins og t.d. matvælafyrirtækjum og veitingastöðum. Á heimasíðu ráðuneytisins má finna upplýsingar um þau fyrirtæki sem geta ekki öðlast „elite-smiley“.
    Heildsölur sem hafa öðlast „elite-merkið“ fá færri heimsóknir frá eftirlitinu, þó aldrei sjaldnar en annað hvert ár. Veitingastaðir eru fyrirtæki með mikla áhættu. Eftirlit er haft með þeim tvisvar sinnum á ári. Veitingastaðir með „elite-merkið“ eru könnuð einu sinni á ári. Þetta er svokallað grunneftirlit sem þarf að framfylgja samkvæmt lögum. Að auki eru teknar stikkprufur af og til. Ef fyrirtæki hafa fengið kærur frá neytendum fylgir matvælaeftirlitið því eftir.
    Yfirlit um grunneftirlitið má finna á heimasíðunni www.findsmiley.dk/da-DK/Om_Smiley_ordningen/Info_til_virksomheder/Risikobaseret_kontrol_hvor_tit.htm:

Smásölur (Detail)
Áhætta Iðnaður Tíðni grunnskoðunar Tíðni skoðunar hjá elite-fyrirtækjum
Mikil Veitingastaðir, slátrarar, fisksalar 2 1
Miðlungs Bakarí 1 0,5
Lítil Matvöruverslanir, sjoppur 0,5 0,5
Mjög lítil Apótek, vínverslanir með vörur sem ekki skemmast auðveldlega Eftir atvikum Eftir atvikum
Heildsölur
Mjög mikil T.d. slátrarar, ferskar fiskvörur og mjólkurvörur 5 3
Mikil Brugghús, brauðverksmiðjur og sykurverksmiðjur 3 1
Miðlungs Fiskmarkaðir, heimaslátrun 1 0,5
Lítil Klakar, vínheildsalar 0,5 0,5
Mjög lítil Villt dýr Eftir atvikum Eftir atvikum

    Danska brosið er einnig notað til að tryggja gæði í opinberri þjónustu sem sveitarfélögin veita, t.d. varðandi máltíðir á öldrunarheimilum, vöggustofum (vuggestuer) og öðrum stofnunum. „Brosið“ á að meta gæði matarins, þjónustunnar og allt sem viðkemur neyslu matarins.
    Neytendasamtökin hafa hvatt stjórnvöld til að innleiða gæðamerkið „broskarlinn“ á Íslandi, fyrst í febrúar 2011 í bréfi til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, þar sem þau óskuðu einnig eftir afstöðu stjórnvalda. Samtökin ítrekuðu erindi sitt í janúar sl. til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingríms J. Sigfússonar.
    Þróun seinni ára hefur verið sú að neytendur gera æ ríkari kröfur til gagnsæis eftirlits, svo sem með matvælavinnslu og framreiðslu. Upptaka gæðamerkisins „broskarlinn“ er liður í því að auðvelda slíkt gagnsæi.“
    Eins og bent er á í upphafi eru Bretar nú langt komnir með að innleiða sambærilegt kerfi og auk þess hafa einstök byggðarlög farið að fordæmi Dana, svo sem Þrándheimur í Noregi. Talið er eðlilegt að neytendur hafi aðgang að niðurstöðum úttekta heilbrigðiseftirlitsins. Það eykur gagnsæi og tiltrú á eftirlitskerfinu og það verður að teljast sjálfsögð krafa að neytendur sjái hvernig fyrirtæki standa sig áður en þeir ákveða hvert þeir beina viðskiptum sínum.