Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 91. máls.

Þingskjal 91.  —  91. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um skaðsemisábyrgð, nr. 25 27. mars 1991,
með síðari breytingum (ábyrgð dreifingaraðila).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
1. gr.

    2. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Einnig skal greiða bætur fyrir tjón á hlut ef tjónið er að lágmarki 500 evrur eða samsvarandi fjárhæð í íslenskum krónum, að því tilskildu að hlutur sá sé samkvæmt gerð sinni venjulega ætlaður til einkanota eða einkaneyslu og sá sem fyrir tjóni varð hafði hlutinn aðallega til einkanota eða einkaneyslu. Lögin taka ekki til skemmda á hinni gölluðu vöru sem tjón hlaust af.

2. gr.

    Í stað orðanna „Evrópureikningseininga (ECU)“ í 8. gr. laganna kemur: evra.

3. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Dreifingaraðili ber ábyrgð beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum á tjóni að svo miklu leyti sem tjónið verður rakið til sakar eða vanrækslu af hálfu framleiðanda eða fyrri dreifingaraðila í aðfangakeðjunni.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Var það lagt fram á 141. löggjafarþingi. Að lokinni 1. umræðu var frumvarpinu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar en nefndin lauk ekki umfjöllun sinni um það. Er það því lagt fram að nýju en með breytingum sem byggjast á athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (hér eftir „ESA“) við frumvarpið.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum nr. 25 27. mars 1991, um skaðsemisábyrgð. Í fyrsta lagi er lagt til að dreifingaraðili beri ekki ábyrgð beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum, heldur beri hann ábyrgð á tjóni sem rakið er til sakar eða vanrækslu af hálfu framleiðanda eða fyrri dreifingaraðila í aðfangakeðjunni. Í öðru lagi er lagt til að lögum um skaðsemisábyrgð verði aðeins beitt ef tjón, sem hlýst af ágalla á vöru, er að lágmarki 500 evrur eða samsvarandi fjárhæð í íslenskum krónum. Í þriðja lagi er lagt til að viðmið fjárhæða í Evrópureikningseiningum eða ECU verði felld niður en í staðinn verði vísað í fjárhæðir í evrum. Um þessi atriði er nánar fjallað í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.
    Með bréfi ESA til íslenskra stjórnvalda var vakin athygli á ósamræmi íslenskra laga um skaðsemisábyrgð og tilskipunar Evrópubandalagsins, nú Evrópusambandsins, um sama efni. Í bréfinu vísaði ESA til dóms Evrópudómstólsins, nú dómstóls Evrópusambandsins, í máli C-402/03, Skov og Bilka, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ákvæði danskra laga um skaðsemisábyrgð (d. „lov om produktansvar“) hefðu verið andstæð ákvæðum tilskipunarinnar. Sagði dómstóllinn að ekki væri hægt að leggja hlutlæga ábyrgð á dreifingaraðila umfram það sem fram kæmi í 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Þar segir að sé ekki hægt að komast að því hver hafi búið til vöru teljist hver dreifingaraðili hennar framleiðandi, nema hann skýri þeim sem fyrir tjóni varð, án óþarfs dráttar, frá nafni og heimilisfangi framleiðanda eða þess sem afhenti honum vöruna.
    Það ákvæði dönsku laganna, sem um var deilt í málinu, er sambærilegt að efni til við ákvæði 10. gr. íslensku laganna um skaðsemisábyrgð. Það er því mat ESA að tilskipunin hafi verið ranglega innleidd hér á landi og því beri að breyta ákvæði 10. gr. laga nr. 25/1991.
    Þá komst Evrópudómstóllinn að þeirri niðurstöðu, í máli C-154/00, Framkvæmdastjórnin gegn Grikklandi, og C-52/00, Framkvæmdastjórnin gegn Frakklandi, að til að tryggja rétta innleiðingu á tilskipuninni beri aðildarríkjum að innleiða í löggjöf sína þá lágmarksfjárhæð sem getið er um í b-lið 9. gr. tilskipunarinnar, en þar segir að bæta skuli „tjón eða eyðileggingu á hlut öðrum en vörunni sjálfri sem haldin var ágalla, þó að lágmarki 500 evrópskar mynteiningar (ECU)“.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við ESA og Neytendastofu. Þá var frumvarpið birt á ytri vef ráðuneytisins til almennrar kynningar en engar athugasemdir bárust. Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs en það mun létta á ábyrgð dreifingaraðila þar sem hann mun ekki bera ábyrgð án sakar á tjóni sem hlýst vegna ágalla á vöru.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með þessari grein er lagt til að innleitt verði ákvæði b-liðar 9. gr. tilskipunarinnar. Þar segir að þegar tjón hefur orðið á hlut, og það verður rakið til ágalla á vöru, fellur slíkt tjón því aðeins undir ákvæði tilskipunarinnar að það sé að lágmarki 500 evrur, eða samsvarandi fjárhæð í íslenskum krónum. Ef fjárhæð tjóns er lægri verður ákvæðum laganna ekki beitt um tjónið.
    Í gildandi lögum er ekki gerð krafa um að tjón á hlut, öðrum en hinni gölluðu vöru, nái ákveðnu lágmarki svo að hægt sé að beita ákvæðum laganna. Í framangreindum málum framkvæmdastjórnarinnar gegn Grikklandi og Frakklandi var deilt um hvort ríkin hefðu innleitt ákvæði tilskipunarinnar með réttum hætti en í löggjöf þeirra var ekki gert ráð fyrir 500 evra lágmarki. Var það niðurstaða Evrópudómstólsins að ríkin hefðu ekki innleitt tilskipunina réttilega. Ástæðan fyrir því að slíkt lágmark væri sett væri að koma í veg fyrir óhóflegan fjölda málsókna vegna minni háttar tjóns á vörum. Í þeim tilvikum sem tjónið næði ekki lágmarkinu yrði tjónþoli því að beita almennum reglum um skaðabætur innan eða utan samninga (sbr. áðurnefnd mál nr. C-154/00, 30. mgr., og C-52/00, 30. mgr.).

Um 2. gr.

    Þegar lög nr. 25/1991 voru samþykkt var notað hugtakið „Evrópureikningseiningar“ og skammstöfunin „ECU“ um það sem nú er hin samevrópska mynt sem ber heitið „evra“. Lagt er til að orðalagi ákvæðisins verði breytt til samræmis við þá þróun sem orðið hefur að þessu leyti.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er lagt til að dreifingaraðili geti borið ábyrgð á tjóni sem rakið er til sakar eða vanrækslu af hálfu framleiðanda eða fyrri dreifingaraðila í aðfangakeðjunni og er það í samræmi við niðurstöðu Evrópudómstólsins í áðurnefndu máli Skov og Bilka.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skaðsemisábyrgð,
nr. 25 27. mars 1991, með síðari breytingum (ábyrgð dreifingaraðila).

    Með frumvarpinu þessu eru lagðar til þrenns konar breytingar á gildandi lögum um skaðsemisábyrgð. Í fyrsta lagi er lagt til að viðmið fjárhæða í Evrópureikningseiningu eða ECU verði felld niður en í staðinn verði vísað í fjárhæðir í evrum. Hér er eingöngu um leiðréttingu að ræða þar sem á þeim tíma er lögin voru samþykkt var notuð skammstöfunin ECU eða orðið Evrópureikningseining sem nú er hin samevrópska mynt sem ber heitið evra. Í öðru lagi er lagt til að tjón á hlut sem rakið verður til ágalla á vöru sem framleiðandi hefur framleitt eða dreift verði einungis bætt á grundvelli laga um skaðsemisábyrgð ef það nær lágmarksfjárhæð, þ.e. 500 evrum. Í þriðja lagi er lagt til að dreifingaraðili beri ekki hlutlæga ábyrgð á því tjóni sem orðið hefur heldur beri hann einungis ábyrgð á tjóni sem rakið er til sakar eða vanrækslu af hálfu framleiðanda eða fyrri dreifingaraðila í aðfangakeðjunni.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.