Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 93. máls.

Þingskjal 93.  —  93. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum (fjöldi dómara).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
1. gr.

    Í stað ártalsins „2014“ í 44. gr. laganna kemur: 2015.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 147/2009 var dómurum í héraði fjölgað um fimm, úr 38 í 43. Var það gert í framhaldi af bréfi dómstólaráðs til ráðuneytisins þar sem fram kom að í kjölfar bankahrunsins hefði álag á dómstólana aukist til muna. Var þessi fjöldi dómara tímabundinn að því leyti að ekki skyldi ráðið í þær stöður sem losnuðu eftir 1. janúar 2013 þar til fjöldi dómara yrði aftur 38. Í apríl 2010 var komið á samvinnu milli þáverandi dómsmálaráðuneytis, Hæstaréttar Íslands, dómstólaráðs, Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands þar sem unnið var að því að greina hvernig bregðast mætti, með heildstæðum hætti, við því mikla viðbótarálagi sem dómstólarnir stæðu frammi fyrir. Í þeirri vinnu kom m.a. fram að nauðsynlegt væri að fjölga dómurum við héraðsdómstólana um allt að tíu í áföngum. Í framhaldi af því var með lögum nr. 12/2011 gerð sú breyting að frá 1. mars 2011 yrði fjöldi héraðsdómara 48 og skyldi ekki ráðið í þær stöður sem losnuðu eftir 1. janúar 2013 þar til fjöldi dómara yrði aftur 38. Með lögum nr. 138/2012 var heimildin til að fjöldi dómara væri 43 framlengd til 1. janúar 2014. Byggðist þessi breyting á upplýsingum frá dómstólaráði um að áfram væri mikið álag á dómstólunum sem bregðast yrði við. Jafnframt var felld niður heimildin til að fjölga dómurum upp í 48 þar sem fjölgun mála hafði ekki orðið eins mikil og áætlað hafði verið og hafði ekki verið ráðið í þær fimm stöður dómara sem kveðið var á um í lögum nr. 12/2011.
    Í maí 2013 gerði dómstólaráð ráðuneytinu grein fyrir áhyggjum sínum af áframhaldandi álagi á dómstólunum, sérstaklega Héraðsdómi Reykjavíkur. Var vísað til upplýsinga frá Héraðsdómi Reykjavíkur um að mörg þeirra einkamála sem dómstólar takist nú á við og varði málefni föllnu bankanna eigi sér fá fordæmi. Málin séu flókin og umfangsmikil og kalli á fjölskipaðan dóm. Þá hafi ágreiningsmálum vegna gjaldþrotaskipta fjölgað og séu þau mál mjög þung í vinnslu. Jafnframt sé búist við fjölda mála frá embætti sérstaks saksóknara sem séu flókin og umfangsmikil og bætist þau við mikla aukningu í kynferðisbrotamálum. Var því í bréfi dómstólaráðs lagt til að dómurum yrði fjölgað um tvo til þrjá og að heimildin til að fjöldi dómara væri 43 yrði framlengd a.m.k. til ársloka 2015.
    Ljóst er að enn er mikið álag á héraðsdómstólunum, sérstaklega Héraðsdómi Reykjavíkur, og búast má við að það álag minnki ekki í bráð. Enn er von á mörgum og þungum málum m.a. frá embætti sérstaks saksóknara. Er því full þörf á að bregðast við og halda sama fjölda dómara áfram um sinn, þ.e. að þeir séu 43.
    Í júní 2013 skipaði innanríkisráðherra nefnd til að vinna frumvarp að svonefndu millidómstigi. Er ráðgert að frumvarpsdrög liggi fyrir fyrri hluta árs 2014. Ljóst er að ef sett verður á fót þriðja dómstigið þarf að taka til skoðunar hversu margir dómarar eigi að vera á hverju dómstigi. Er því í frumvarpi þessu lagt til að fjöldi dómara í héraði verði áfram 43 fram til ársloka 2014. Fylgst verður áfram með álagi á héraðsdómstólunum sem og því hvernig vinnu við millidómstigið vindur fram við mat á því hversu margir dómarar þurfa að vera í héraði.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum (fjöldi dómara).

    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði í lögum nr. 147/2009 um að héraðsdómurum fjölgi í héraði úr 38 í 43 verði framlengt um eitt ár eða til 1. janúar 2015.
    Á árinu 2009 var dómurum fjölgað tímabundið úr 38 í 43 fram til 1. janúar 2013 vegna mikils álags á dómstóla í kjölfar bankahrunsins. Árið 2012 var sú heimild framlengd um eitt ár eða til 1. janúar 2014 þar sem mikið álag var enn til staðar á héraðsdómstólum og hafði t.a.m. fjöldi ágreiningsmála vegna gjaldþrotaskipta tæplega tífaldast. Innanríkisráðuneytið telur nú að ekki muni draga úr þessu álagi á héraðsdómstóla í bráð þar sem enn sé von á mörgum og þungum málum m.a., frá embætti sérstaks saksóknara. Í greinargerð frumvarpsins kemur einnig fram að innanríkisráðherra hafi skipað nefnd til að vinna frumvarp að millidómstigi og sé ráðgert að drög að frumvarpi liggi fyrir fyrri hluta árs 2014. Verði það dómstig að veruleika þurfi að taka til skoðunar hve marga dómara þurfi á hverju dómstigi. Að framangreindu sögðu er lagt til að ákvæði laganna um að fjöldi dómara verði 43 verði framlengt áfram um eitt ár og falli niður 1. janúar 2015.
    Verði frumvarpið að lögum er áætlað að útgjöld aukist um 86 m.kr. á árinu 2014 frá því sem ella hefði orðið þar sem héraðsdómurum er fjölgað um fimm. Gert hefur verið ráð fyrir að tímabundin fjárheimild vegna málsins verði framlengd um eitt ár í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014.