Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 30. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 96  —  30. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur
um Landhelgisgæsluna og almennt sjúkraflug.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er afstaða ráðherra til þess að Landhelgisgæslan taki við öllu almennu sjúkraflugi eins og hefur lengi verið til skoðunar innan stjórnsýslunnar?
     2.      Hyggst ráðherra kanna þann möguleika með formlegum hætti?


    Ekkert er því til fyrirstöðu að kanna til hlítar hvaða möguleikar felast í því að Landhelgisgæslan komi að eða annist almennt sjúkraflug og sú skoðun þarf að fara fram í nánu samstarfi við velferðarráðuneytið sem ber ábyrgð á sjúkraflugi og sjúkraflutningum hér á landi. Þar þarf fyrst og fremst að horfa til þess að tryggja öryggi í sjúkraflutningum og að hagkvæmni sé gætt svo sem kostur er. Skoða þarf til hlítar hvort það leiði til hagræðingar að hafa sjúkraflug á einni hendi og samþætta almennt sjúkraflug við starfsemi Landhelgisgæslunnar sem nú þegar sinnir umtalsverðum hluta sjúkraflugs hér á landi, auk leitar og björgunar með þyrlum og flugvél.
    Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjúkraflug á Íslandi kemur fram það mat Ríkisendurskoðunar að ekki liggi fyrir nægar upplýsingar til að meta hvort framkvæmanlegt er og hagkvæmt að Landhelgisgæslan annist almennt sjúkraflug á landinu.
    Stofnunin hvetur innanríkisráðuneyti til að skoða mögulega aðkomu hennar að slíku flugi með formlegri og nákvæmari hætti en gert hefur verið. Jafnframt ætti að gera langtímaáætlun um starfsemi Landhelgisgæslu Íslands um land allt og raunhæfa áætlun um kostnað sem fylgir mögulegum breytingum.
    Ráðherra hyggst skoða ábendingar Ríkisendurskoðunar í góðri sátt við velferðarráðuneyti og Landhelgisgæslu Íslands þannig að skoðun á aðkomu Landhelgisgæslunnar að sjúkraflugi fari fram. Rétt er að taka fram að undirbúningur að gerð langtímaáætlunar um starfsemi Landhelgisgæslu Íslands er þegar hafinn.