Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 31. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 97  —  31. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um fangelsismál.

     1.      Hversu mörgum fangarýmum þyrfti að bæta við til að fullnægja núverandi þörf fyrir fangarými í landinu?
    Við forathugun vegna byggingar nýs fangelsis árið 2010 var gerð úttekt á áætlaðri þörf fyrir afplánunarrými miðað við að rafrænt eftirlit yrði tekið upp í núverandi mynd og að svigrúm til þess að afplána með samfélagsþjónustu yrði aukið eins og nú hefur verið gert. Með þeim úrræðum er gert ráð fyrir að 53% óskilorðsbundinna refsinga séu afplánuð í fangelsi en 47% utan fangelsa, með samfélagsþjónustu, rafrænu eftirliti, reynslulausn eða öðrum úrræðum. Miðað við þær forsendur voru niðurstöður forathugunarinnar að þörf væri á 170 fangelsisplássum miðað við 100% nýtingu allra fangelsa. Almennt er talið rétt að nýting fari ekki yfir 90% að meðaltali vegna öryggissjónarmiða og því þyrftu þessi rými að vera 187 alls. Alls eru fangelsispláss hér á landi 163 alls en verða 193 alls þegar nýtt fangelsi er komið í notkun eða sex rými umfram núverandi þörf miðað við 90% nýtingu en 23 umfram núverandi þörf miðað við 100% nýtingu en svo há nýting getur aðeins verið til skamms tíma.

     2.      Hversu mörg rými bætast við með tilkomu nýs fangelsis á Hólmsheiði, hversu mikið er áætlað að biðlisti eftir afplánun styttist við það og í hversu mörg ár er talið að fangelsið muni fullnægja þörf fyrir fangarými?
     3.      Hversu mörg fangarými munu glatast þegar lokað verður þeim fangelsum á höfuðborgarsvæðinu sem ekki uppfylla skilyrði um aðbúnað?
    Gert er ráð fyrir 56 rýmum í nýju fangelsi á Hólmsheiði. Samkvæmt undanþáguheimild Heilbrigðiseftirlits er heimilt að vista 10 fanga í Hegningarhúsinu en 12 fanga í Fangelsinu Kópavogsbraut. Við opnun fangelsis á Hólmsheiði leggst af vistun gæsluvarðhaldsfanga í einangrun í Fangelsinu Litla-Hrauni, sex rými sem verða nýtt til almennrar afplánunar sem ekki hefur verið hægt hingað til. Því bætast í heild við 40 ný fjölnota pláss með opnun fangelsis á Hólmsheiði. Sé miðað við núverandi forsendur er talið að hægt sé að ná niður biðlistum í eðlilegt ástand á nokkrum árum með því að halda áfram uppi hárri nýtingu í öllum fangelsum og nýta áfram til hins ýtrasta möguleika á afplánun utan fangelsa. Miðað við núverandi forsendur ætti fangelsið að fullnægja þörf fyrir afplánunarrými í nánustu framtíð.

     4.      Hefur samþykkt skipulag vegna fangelsis á Hólmsheiði verið birt í Stjórnartíðindum? Ef svo er, hvenær?
    Auglýsing nr. 1279/2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Hólmsheiði vegna fangelsis birtist í Stjórnartíðindum 11. janúar 2013. Auglýsing nr. 497/2013 um breytingu á deiliskipulagi fyrir fangelsislóð á Hólmsheiði birtist í Stjórnartíðindum 29. maí 2013. Í breytingunni felst að afmarkaður er byggingarreitur fyrir dreifistöð á lóð. Breytingin var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 29. maí 2013.


     5.      Er gert ráð fyrir að hægt verði að stækka fangelsið á Hólmsheiði síðar?
    
Nei.

     6.      Verður þörf á að hafa steyptan vegg umhverfis fangelsið og hvað mundi hann kosta?
    Ekki er gert ráð fyrir fangelsisvegg umhverfis hið nýja fangelsi en gert er ráð fyrir að það verði allt afgirt með 5 m hárri fangelsisgirðingu. Efri hluti girðingarinnar verður með þéttum teinum (e. anti-climb). Yst á lóðamörkum verður 3 m há netgirðing sem afmarkar vöktunarsvæði fangelsisins. Samkvæmt upplýsingum frá Danmörku áætla Danir um það bil þrisvar sinnum meiri kostnað við múrvegg umfram netgirðingu í nýbyggðum fangelsum. Girðing umhverfis fangelsið á Hólmsheiði kostar samkvæmt áætlun um 65 millj. kr. en múr mundi kosta um 190 millj. kr. Í aðdraganda verksins var ákveðið að gera ekki kröfur um múrvegg sökum kostnaðar.

     7.      Hve mikill tími er áætlað að sparist við að flytja fanga frá Reykjavík í fangelsi á Hólmsheiði fremur en í fangelsið á Litla-Hrauni?
    Í skýrslu sem unnin var fyrir dómsmálaráðuneytið árið 2010 um kostnaðarauka við staðsetningu nýs fangelsis er að finna tölur um ferðatíma, tíðni ferða og fjölda starfsmanna í hverri ferð þegar um er að ræða fangaflutninga, yfirheyrslur, túlkaþjónustu og ferðir lögfræðinga. Samkvæmt skýrslunni er umframferðatími við akstur á Litla-Hraun umfram akstur á Hólmsheiði alls 3.194 klst. á ársgrundvelli. Í fyrrnefndri skýrslu var áætlað að sparnaðurinn næmi rúmum 26 millj. kr. á ári (á verðlagi þess árs).

     8.      Hversu mörgum gæsluvarðhaldsrýmum þarf að bæta við til að fullnægja núverandi þörf fyrir gæsluvarðhaldsrými í landinu?
    Almennt eru gæsluvarðhaldsfangar vistaðir með sama hætti og aðrir fangar, nema í þeim tilvikum þegar þeir eru jafnframt úrskurðaðir í einangrun og eru þeir þá vistaðir í sérstökum einangrunarklefum. Nú eru sex sérstakir einangrunarklefar fyrir gæsluvarðhald á Litla-Hrauni og tveir í Hegningarhúsi, eða alls átta, og nýtast þeir eingöngu í þeim tilgangi. Almennt eru miklar sveiflur í fjölda fanga sem þurfa að vistast í einangrun hverju sinni. Til eru dæmi um að allt að 20 fangar hafi verið í einangrunargæsluvarðhaldi á sama tíma og eins eru til dæmi um að enginn sé í einangrun. Klefarnir eru því ýmist of fáir eða of margir. Til að leysa þennan vanda er gert ráð fyrir að í nýju fangelsi verði helmingur fangaklefanna útfærður þannig að þeir nýtist bæði fyrir almenna afplánun sem og einangrun og þá er hægt að bregðast við sveiflum í fjölda einangrunarfanga á bilinu 0–28. Á móti verði unnt að nýta þessa sömu klefa fyrir almenna afplánun þegar fáir eru í einangrun og hámarka þannig nýtingu á hverjum klefa. Er þessi fjöldi á mögulegum einangrunarrýmum talinn vel fullnægjandi.

     9.      Hefur verið kannaður sá möguleiki að stækka lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík og útbúa gæsluvarðhaldsfangelsi í húsnæði hennar? Ef svo er, hvað mundi slík framkvæmd kosta og hversu mörg gætu gæsluvarðhaldsrýmin orðið?

    Árið 2008 voru uppi hugmyndir að byggja nýja lögreglustöð samhliða nýju fangelsi. Þær hugmyndir voru eingöngu á hugmyndastigi. Í þessu samhengi er rétt að benda á að gerðar hafa verið úttektir á því hvort hagkvæmara væri að breyta húsnæði í eigu ríkisins yfir í fangelsi í stað þess að byggja nýtt. Gerðar voru úttektir á Vífilsstöðum annars vegar og Víðinesi hins vegar. Ljóst er að miða þarf við ákveðnar byggingar þar sem ástand bygginga er mjög mismunandi. Kostnaður við að breyta Vífilsstöðum á verðlagi ársins 2011 var 1,8 milljarðar kr. en kostnaður við að breyta Víðinesi á sama verðlagi var 1,9 milljarðar kr. Sá fyrirvari var gerður með Vífilsstaði að ekki er víst að leyfi fengist til að byggja við húsið til að koma 56 fangarýmum í húsið. Áætlaður kostnaður við byggingu nýs fangelsis á verðlagi ársins 2011 var 2,1 milljarðar kr. Þrátt fyrir að kostnaðurinn væri annars vegar 350 millj. kr. og hins vegar 200 millj. kr. minni en bygging nýs fangelsis þá eru þessar byggingar þyngri í rekstri og allar rekstrarforsendur brostnar þar sem fleiri fangaverði þarf til að standa vaktir í húsunum. Þannig yrði kostnaður Fangelsismálastofnunar við rekstur Vífilsstaða 90 millj. kr. meiri á ársgrundvelli en Víðiness 60–70 millj. kr. á ársgrundvelli.
    Ef byggja á sérstakt gæsluvarðhaldsfangelsi fyrir einangrunargæsluvarðhald er hætt við því að þar séu stundum margir en oft engir fangar. Til eru dæmi um allt að 20 fanga í einangrunargæsluvarðhaldi á sama tíma og eins eru til dæmi um að enginn sé í einangrun. Því er mikil hagkvæmni fólgin í því að starfrækja fangelsi sem auk þess að sinna gæsluvarðhaldseinangrun geti einnig sinnt hlutverki móttöku- og afplánunarfangelsis. Ekki hefur verið gerð sérstök athugun á því hvað það mundi kosta að útbúa sérstakt gæsluvarðhaldsfangelsi við lögreglustöðina og því óljóst hvað þau rými gætu verið mörg. Þá er óljóst hvort lóð lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu geti borið gæsluvarðhaldsrými þar sem gera þarf m.a. ráð fyrir því að gæsluvarðhaldsfangar geti notið útivistar í stuttan tíma á degi hverjum án þess að utanaðkomandi aðilar geti komist að þeim.