Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 103. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 106  —  103. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um umbótasjóð opinberra bygginga.


Flm.: Margrét Gauja Magnúsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að stofna umbótasjóð sem styðji við uppbyggingu nýrrar þjónustu eða nýtt hlutverk opinberra bygginga sem misst hafa fyrra hlutverk sitt.


Greinargerð.

    Verndun bygginga ætti að gera að föstum þætti í skipulagi borga og byggða í stað þess að vera handahófskennt aukaatriði eins og oft hefur verið. Það er þjóðhagslega mikilvægt verkefni að finna sögufrægum byggingum verðugt hlutverk þegar þær hafa misst upprunalegt hlutverk sitt. Þess eru dæmi að byggingar hafi verið látnar standa auðar í langan tíma og látnar drabbast niður, sbr. St. Jósefsspítala. Það er áríðandi, m.a. með tilliti til sögu, menningararfs og sparnaðar, að finna lausn á því hvernig best megi tryggja að byggingar séu nýttar á sem hagkvæmastan hátt.
    Sem dæmi má nefna að Evrópusambandið hefur sett á laggirnar sjóð undir yfirskriftinni Svæðisbundnir innviðir fyrir félagslega og fjárhagslega samhæfingu (e. Local infrastructure for Social and Economic Cohesion) sem hefur m.a. haft að markmiði að styrkja endurreisn bygginga sem hafa drabbast niður eða orðið fyrir tjóni til þess að þær gagnist nærsamfélaginu á sem hagkvæmastan hátt og öðlist hlutverk á ný.
    Flutningsmenn telja að verndun bygginga, nýtt hlutverk þeirra og uppbygging nýrrar þjónustu ætti að vera hluti af framtíðarstefnu sjóðs á vegum ríkisins. Stefnu sjóðsins yrði framfylgt með tilliti til gildismats og með réttlátri niðurröðun á verkefnum út frá því hvernig best megi nýta byggingar sem misst hafa upprunalegt hlutverk sitt.