Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 106. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 109  —  106. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um að hrinda án tafar í framkvæmd tillögum ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu.


Flm.: Björt Ólafsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Brynhildur Pétursdóttir,
Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall.


    Alþingi ályktar að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hrinda án tafar í framkvæmd tillögum ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu, sem settar eru fram í skýrslu hópsins, til að fá niðurstöðu um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja sæstreng milli Íslands og Evrópu. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um málið fyrir 1. maí 2014.


Greinargerð.

    Nýverið lagði iðnaðar- og viðskiptaráðherra fram á Alþingi skýrslu ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu (59. mál). Skýrslan byggist á vinnu ráðgjafarhóps sem þáverandi iðnaðarráðherra skipaði í júní 2012 og var falið að kanna möguleikann á að leggja sæstreng fyrir raforku á milli Íslands og Evrópu. Hópnum var ætlað að greina samfélagsleg og þjóðhagsleg áhrif verkefnisins, tæknileg og umhverfisleg atriði o.fl. Ráðgjafarhópurinn skilaði skýrslu sinni 26. júní sl. Þar kemur fram að hópurinn var sammála í ályktun sinni um að frekari upplýsingar þyrftu að liggja fyrir áður en unnt væri að taka ákvörðun um framhald verkefnisins.
    Tillaga þessi miðar að því að hrinda í framkvæmd, án tafar, þeim tillögum sem settar eru fram í skýrslu ráðgjafarhópsins. Þær þarf að kanna vel sem undanfara ákvörðunar en ekki með ákveðna útkomu í huga. Ráðherra hefur lagt skýrslu ráðgjafarhópsins fram til umræðu á Alþingi. Það er mat flutningsmanna að slík umræða sé ekki tímabær þar sem nauðsynlegt er að svara spurningum sem fram koma í skýrslu ráðgjafarhópsins og kortleggja alla þætti verkefnisins áður en hægt er að ræða næstu skref eða taka ígrundaðar ákvarðanir.
    Í skýrslu ráðgjafarhópsins kemur fram að þýðingarmikil atriði eru enn háð umtalsverðri óvissu eins og áður sagði. Meðal þeirra eru forsendur sem hægt er að afmarka betur með frekari rannsóknum og viðræðum við mögulega samningsaðila, og nýtast munu í reiknilíkani fyrir þjóðhagslega arðsemi verkefnisins, svo sem orkuverð, orkumagn, lengd samninga, eignarhald. Með sama hætti er unnt að vinna frekar með útkomur úr því reiknilíkani, til að mynda um áætluð áhrif á orkuverð innan lands, hugsanleg ruðningsáhrif, aukningu þjóðartekna o.fl.
    Því er hér lagt til að fela ráðherra að hrinda tillögum ráðgjafarhópsins í framkvæmd og ráðast án tafar í þá vinnu sem lögð er til í skýrslu hópsins, sbr. verkefnaáætlun í sjö liðum á bls. 14–15 í skýrslunni:
     1.      Að greiningu á þjóðhagslegri hagkvæmni verði fram haldið, samhliða því sem aflað verður nýrra upplýsinga sbr. tillögur 3 og 4. Jafnframt verði gerð ítarleg kostnaðar- og ábatagreining þar sem metin verða möguleg áhrif á raforkuverð innanlands og áhrif þess á raforkukostnað heimila einkum á köldum svæðum auk áhrifa á fjölda starfa og verðmæti þeirra. Jafnframt verði metin nánar áhrif á rekstrarskilyrði atvinnugreina sem nota mikla raforku, s.s. stóriðju og garðyrkju, sem og á aðrar atvinnugreinar sem þjóna þeim eða tengjast með beinum eða óbeinum hætti.
     2.      Að ráðuneytið eða Orkustofnun greini sviðsmyndir mögulegrar orkuöflunar og virkjanaraðar, í samræmi við aðferðarfræði rammaáætlunar fyrir mismunandi flutningsgetu tengingar.
     3.      Að Landsnet fái heimild til að hefja viðræður, í samstarfi við Landsvirkjun og eftir atvikum aðra raforkuframleiðendur, við viðeigandi rekstraraðila flutningskerfis (e. Transmission System Operator) í Bretlandi og eftir atvikum bresku orkustofnunina Ofgem, um tengingu flutningskerfanna, viðskiptalíkan og eignarhald sæstrengs. Jafnframt er lagt til að Landsnet og Landsvirkjun kanni leiðir til fjármögnunar á undirbúningsrannsóknum og hugi að hugsanlegu samstarfsfyrirkomulagi vegna sæstrengsins.
     4.      Að ráðuneytið leiti leiða til að afla ofangreindra upplýsinga s.s. með könnunarviðræðum við bresk stjórnvöld á grundvelli viljayfirlýsingar sem ráðherrar beggja landa undirrituðu 30. maí 2012. Markmið þeirra viðræðna yrði að kanna með hvaða hætti ala á íslenskri orku gæti fallið undir breska löggjöf um ívilnanir fyrir endurnýjanlega orku með áherslu á langtímasamninga (15–25 ár) til að minnka áhættu við orkuöflun á Íslandi.
     5.      Að skilgreina skilaleið auðlindarentu sem myndast kann af raforkusölu um sæstreng til ríkissjóðs, sveitarfélaga, almennings, atvinnulífs og annarra haghafa óháð eignarhaldi á virkjunum, dreifikerfi og umbreytistöð á Íslandi. Hér komi til athugunar m.a. afnotagjald, auðlindagjald, skattur á auðlindarentu eða hlutdeild í auðlindarentu. Athugað skal sérstaklega hvort leiðir þær sem Norðmenn fóru í þessum efnum henti íslenskum aðstæðum.
     6.      Að meta áhrif eignarhalds á sæstrengnum m.t.t. afhendingaröryggis raforku innanlands. Í því skyni skulu m.a. kannaðar fjármögnunarleiðir með það að markmiði að Landsnet eignist allt að helming hlutafjár strengfyrirtækisins að ákveðnum rekstrartíma liðnum án þess þó að hafa tekið verulega fjárhagslega áhættu á byggingartíma hans (s.k. Build-Operate-Transfer fjármögnunarleið).
     7.      Að ráðuneytið hefji athugun á því hvað lögum og reglugerðum þarf að breyta komi til þess að ráðist verði í lagningu raforkustrengst til Evrópu.