Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 27. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 129  —  27. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Björt Ólafsdóttur
um framkvæmdir við Landspítala við Hringbraut.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Er ráðgert að hefja framkvæmdir við nýbyggingar og endurbætur á húsakosti Landspítalans á þessu kjörtímabili? Ef svo er, á hvaða framkvæmdaáætlun verður byggt og hvert er áætlað umfang framkvæmdanna næstu fjögur árin?

    Ráðgert er að hefja framkvæmdir við nýbyggingar og endurbætur á húsakosti Landspítalans á þessu kjörtímabili enda segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að húsakostur Landspítala sé óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst.
    Nú er unnið að endurskoðaðri framkvæmdaáætlun í samstarfi við stjórn Nýs Landspítala ohf. og stjórnendur Landspítala. Ráðherra hefur falið stjórn NLSH ohf. að stilla upp sundurliðuðum möguleikum á framkvæmdatíma aðalbyggingar við Hringbraut, meðferðarkjarna, rannsóknarhúss og sjúkrahótels, sem og kostnaðaráætlun við hönnun og framkvæmdir bygginganna og áætlaðan fjölda ársverka.
    Við þá vinnu verður m.a. að leita svara við þeim athugasemdum sem fram komu í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins með frumvarpi sem varð að lögum nr. 53/2013 en þar segir m.a. að um sé að ræða langstærsta fjárfestingarverkefni sem ríkið hefur ráðist í og að ljóst sé að það geti haft afgerandi áhrif á þróun rekstrarkostnaðar við heilbrigðiskerfið.
    Fjárlagaskrifstofan segir slík áform kalla á vandaða greiningarvinnu af hálfu stjórnvalda en ekki einungis þeirra sem starfa munu í nýjum húsakosti eða annast um byggingu hans. Eins og margoft hefur komið fram rúmast verkefni sem þetta ekki innan núverandi ríkisfjármálaáætlunar, hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma, hvað varðar markmið um að ná afgangi á heildarafkomu ríkissjóðs til þess að lækka skuldabyrði hins opinbera.
    Þegar niðurstaða þessarar vinnu liggur fyrir er hægt að taka ákvörðun um næstu skref.