Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 47. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 130  —  47. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur
um sjúkrabifreiðar í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.


     1.      Hefur ráðherra kynnt sér nýja kröfulýsingu um rekstur sjúkrabifreiða og þær meginbreytingar sem verða við endurnýjun á samningi við Rauða kross Íslands um reksturinn?
    Kröfulýsing sú sem stuðst er við í tengslum við gerð samnings um endurnýjun sjúkrabifreiða er ráðherra kunnug. Hún var unnin af sérfræðingum ráðuneytisins árið 2012 og miðaði m.a. að því að laga kröfur sem giltu áður að breyttum forsendum, bættum samgöngum á landi, breytingum á íbúafjölda sumra svæða, einnig að fjölga minni og ódýrari bílum, lengja líftíma og akstur eldri bíla og fækka bílum í notkun. Ráðherra hefur kynnt sér þessa kröfulýsingu.

     2.      Hefur ráðherra kynnt sér breytingar sem verða á rekstri sjúkrabifreiða í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, m.a. að samkvæmt nýju kröfulýsingunni fækkar þar sjúkrabifreiðum um þrjár?
    Kröfulýsingin skilgreinir lágmarksfjölda bíla í hverju umdæmi.

     3.      Telur ráðherra forsvaranlegt að fækka sjúkrabifreiðunum, með tilliti til umferðarþunga, tíðra slysa og þess hve víðfeðmt umdæmið er?
    Fækkun bíla verður eingöngu á þeim stöðvum þar sem fyrir voru tveir bílar en ekki nema ein áhöfn á vakt. Eldra fyrirkomulagið var frá þeim tíma þegar samgöngur voru lakari en nú er löngu tímabært að endurskoða það. Sjúkrabílar eru tæki sem þurfa að standast miklar kröfur um öryggi og búnað þannig að þeir eru dýrir í innkaupum og rekstri. Starfsstöðvar sjúkraflutninga í fámennum byggðarlögum með fá verkefni eru mun betur settar með einn öflugan bíl en tvo gamla og slitna eins og nú er víða raunin.

     4.      Hvernig á að tryggja öryggi þeirra sem þurfa á bráðaflutningum að halda ef engin sjúkrabifreið er tiltæk í umdæminu?
    Sjúkraflutningar á Vesturlandi heyra nú allir undir eina og sömu stofnun sem getur samhæft þessa þjónustu innan umdæmisins sem heildar. Það þýðir að starfsstöðvarnar geta stutt hver við aðra í þeim tilfellum þegar flytja þarf fleiri en einn sjúkling á sama tíma. Við venjuleg skilyrði í daglegri þjónustu er ekki hætta á að engin sjúkrabifreið verði tiltæk í öllu umdæminu. Ef stóráföll verða kemur til skipulag almannavarna með utanaðkomandi hjálp og björgunarsveitir í umdæminu eru virkjaðar til aðstoðar við sjúkraflutninga.