Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 85. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 136 — 85. mál.
Fyrirspurnin hljóðar svo:
Hver er staðan á friðlýsingu svæða og virkjunarkosta í verndarflokki í samþykktri áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða? Óskað er eftir sundurgreindu yfirliti yfir stöðu friðlýsingar út frá hverjum möguleika fyrir sig. Einnig er óskað eftir tímaáætlun um friðlýsingu hvers svæðis fyrir sig.
Í tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem samþykkt var á Alþingi í janúar síðastliðnum er samantekt yfir svæði í verndarflokki. Í samræmi við lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, skulu stjórnvöld hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða í samræmi við lög um náttúruvernd, nr. 44/1999, og eftir atvikum lög um menningarminjar, nr. 80/2012.
Í samræmi við 58. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, hefur Umhverfisstofnun það hlutverk að annast og undirbúa friðlýsingar samkvæmt lögunum. Ráðuneytið leitaði því eftir upplýsingum frá stofnuninni vegna þessarar fyrirspurnar. Umhverfisstofnun hefur þegar hafið undirbúning að friðlýsingu svæðanna og hafið formlega vinnu við flest þeirra svæða sem falla í verndarflokk rammaáætlunar. Stofnunin hefur m.a. fundað með fulltrúum nokkurra sveitarstjórna og einnig óskað eftir tilnefningu hlutaðeigandi sveitarfélaga í vinnuhóp um friðlýsingu, þ.m.t. afmörkun og friðlýsingarskilmála viðkomandi svæðis. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun hafa ekki verið gerðar verk- og tímaáætlanir fyrir vinnu við friðlýsingu svæðanna.
Eftirfarandi er samantekt yfir stöðu vinnu við friðlýsingu einstakra svæða í verndarflokki rammaáætlunar í október 2013:
Norðausturland: Jökulsá á Fjöllum, 12 Arnardalsvirkjun og 13 Helmingsvirkjun.
Landsvæðið er innan marka Fljótsdalshéraðs og er norðan við Vatnajökulsþjóðgarð. Hugmyndir eru um stækkun þjóðgarðsins á þessu svæði. Gert er ráð fyrir að vinna við stækkun þjóðgarðsins á svæðinu hefjist í október en ekki hefur verið boðað til fundar með hlutaðeigandi aðilum.
Suðurland: Djúpá, Fljótshverfi, 14 Djúpárvirkjun.
Djúpá er sunnan og austan við Síðujökul og því á grannsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Tillaga er um að svæðið verði innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Vinna við stækkun þjóðgarðsins á svæðinu er ekki hafin.
Suðurland: Hólmsá, 20 Hólmsárvirkjun við Einhyrning.
Umhverfisstofnun hefur haldið kynningarfund með sveitarstjórn og óskað eftir tilnefningu fulltrúa sveitarfélagsins í vinnuhóp sem hefur það hlutverk að vinna að friðlýsingu svæðisins, semja friðlýsingarskilmála og ákveða mörk fyrirhugaðs verndarsvæðis.
Suðurland: Markarfljót, 22 Markarfljótsvirkjun A og 23 Markarfljótsvirkjun B.
Umhverfisstofnun hefur haldið kynningarfund með sveitarstjórn Rangárþings eystra og Rangárþings ytra. Stofnunin og sveitarfélögin hafa komið sér saman um að vinna sameiginlega að friðlýsingu á svæði sem nær yfir báða virkjunarkostina. Settur hefur verið á laggirnar vinnuhópur og á fundi hinn 16. október sl. var farið yfir verkefnið og hvað felst í friðlýsingu en ekki tókst að setja upp verk- og tímaáætlun eins og til stóð. Fulltrúar sveitarfélaganna í vinnuhópnum munu fara yfir verkefnið með viðkomandi sveitarstjórn og þá m.a. um framhald verkefnisins.
Suðurland: Tungnaá, 24 Tungnaárlón og 25 Bjallavirkjun.
Landsvæði virkjunarkosts sem kenndur er við Tungnaárlón liggur að vesturmörkum Vatnajökulsþjóðgarðs og er því rétt að skoða hvort ekki sé eðlilegt að svæðið verði innan marka þjóðgarðsins. Hvað varðar landsvæði sem kennt er við Bjallavirkjun hefur Umhverfisstofnun sent kynningarbréf til Rangárþings ytra og óskað eftir tilnefningu fulltrúa í vinnuhóp um friðlýsingu svæðisins. Á fyrsta fundi vinnuhópsins 16. október sl. var friðlýsingarferlið og verkefnið í heild kynnt. Málefni fundarins verður kynnt fyrir sveitarstjórn og væntanlega verður ákvörðun tekin um framhald verkefnisins.
Suðurland: Þjórsá, 27 Norðlingaölduveita, 566–567,5 m yfir sjávarmáli.
Umhverfisstofnun hefur unnið friðlýsingarskilmála fyrir stækkun á friðlandinu í Þjórsárverum í samræmi við náttúruverndaráætlun og taka þau áform til lögsögu átta sveitarfélaga þar sem fram kom tillaga um að friðlýsingin tæki m.a. yfir allan Hofsjökul. Gert er ráð fyrir að friðlýsing þessa virkjunarkosts verði hluti af þessu stóra friðlýsta svæði á miðhálendinu. Unnið er að endanlegri skilgreiningu svæðisins til samræmis við niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunar og vonir bundnar við að niðurstaða fáist í það sem fyrst.
Suðurland: Jökulfall í Árnessýslu, 32 Gýgjarfossvirkjun. Hvítá í Árnessýslu, 33 Bláfellsvirkjun.
Umhverfisstofnun hefur sent sveitarfélögunum Bláskógabyggð og Hrunamannahreppi kynningarbréf um friðlýsingu og bent m.a. á að faghópar rammaáætlunar hafi fjallað um virkjunarkostina Gýgjarfossvirkjun og Bláfellsvirkjun saman. Bláskógabyggð og Hrunamannahreppur hafa samþykkt að fjalla sameiginlega um bæði svæðin. Bláskógabyggð hefur fjallað um erindi Umhverfisstofnunar og lýst yfir vilja til viðræðna um friðlýsingu vegna svæðis sem kennt er við Bláfellsvirkjun.
Reykjanesskagi: Brennisteinsfjallasvæðið, 68 Brennisteinsfjöll.
Landsvæði sem nær yfir Brennisteinsfjöll er innan Reykjanesfólkvangs og Herdísarvíkurfriðlands. Umhverfisstofnun hefur sent sveitarfélögum og stjórn Reykjanesfólkvangs kynningarbréf og einnig til Sveitarfélagsins Ölfuss hvað varðar Herdísarvíkurfriðland. Stofnunin bíður viðbragða vegna lands innan Reykjanesfólkvangs en hefur fengið jákvæð viðbrögð frá Sveitarfélaginu Ölfusi vegna þess lands sem er innan Herdísarvíkurfriðlands.
Reykjanesskagi: Hengilssvæðið, 74 Bitra og 77 Grændalur.
Umhverfisstofnun hefur sent kynningarbréf til Sveitarfélagsins Ölfuss og til Grímsnes- og Grafningshrepps. Grændalur og að hluta landsvæðið sem kennt er við Bitru er innan lands Reykja sem er í Sveitarfélaginu Ölfusi og er ríkisjörð í umsjón Landbúnaðarháskóla Íslands. Skólinn hefur lýst yfir áhuga og vilja til að friðlýsa stóran hluta af landsvæði skólans. Landbúnaðarháskólinn og Sveitarfélagið Ölfus hafa unnið að uppbyggingu innviða á svæðinu sem er afar vinsælt til útivistar. Fram hefur komið að Grímsnes- og Grafningshreppur er jákvæður fyrir verkefninu. Umhverfisstofnun hefur óskað eftir tilnefningu í vinnuhóp sem vinna á að friðlýsingunni.
Suðurland: Geysissvæðið, 78 Geysir.
Ekki er hafin formleg vinna við friðlýsingu samkvæmt þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Geysissvæðið er hins vegar einnig á náttúruverndaráætlun en í tengslum við þá vinnu hefur ekki náðst samkomulag um friðlýsingu, en Bláskógabyggð hefur óskað eftir því að heildarlausn verði fundin fyrir allt svæðið. Ríkið hefur verið í samskiptum við aðra landeigendur um framtíðarfyrirkomulag á svæðinu og koma að því bæði fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Ekki liggur fyrir tímasett áætlun fyrir þá vinnu.
Suðurland: Kerlingarfjallasvæðið, 79 Hverabotn, 80 Neðri-Hveradalir, 81 Kisubotnar og 82 Þverfell.
Umhverfisstofnun hefur haldið kynningarfundi með sveitarfélögunum, þ.e. Hrunamannahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Sveitarfélögin hafa tilnefnt fulltrúa í vinnuhóp sem vinnur að gerð friðlýsingarskilmála og afmörkun svæðisins. Vinnuhópurinn hefur fundað og er næsti fundur áætlaður í byrjun nóvember en þá verður farið yfir drög að friðlýsingarskilmálum. Við þetta er að bæta að 12. mars 2013 voru stofnuð samtökin Kerlingarfjallavinir og er markmið samtakanna að tryggja verndun svæðisins og möguleika almennings til útivistar.
Norðausturland: Gjástykkissvæðið, 100 Gjástykki.
Gjástykki er innan þriggja sveitarfélaga og hefur eitt þeirra, Þingeyjarsveit, samþykkt að funda með Umhverfisstofnun vegna friðlýsingar á þeim hluta sem er innan sveitarfélagsins. Norðurþing og landeigendur Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi hafa hafnað viðræðum um friðlýsingu.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 136 — 85. mál.
Svar
umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um stöðu friðlýsingar á svæðum og virkjunarkostum í verndarflokki.
Fyrirspurnin hljóðar svo:
Hver er staðan á friðlýsingu svæða og virkjunarkosta í verndarflokki í samþykktri áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða? Óskað er eftir sundurgreindu yfirliti yfir stöðu friðlýsingar út frá hverjum möguleika fyrir sig. Einnig er óskað eftir tímaáætlun um friðlýsingu hvers svæðis fyrir sig.
Í tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem samþykkt var á Alþingi í janúar síðastliðnum er samantekt yfir svæði í verndarflokki. Í samræmi við lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, skulu stjórnvöld hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða í samræmi við lög um náttúruvernd, nr. 44/1999, og eftir atvikum lög um menningarminjar, nr. 80/2012.
Í samræmi við 58. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, hefur Umhverfisstofnun það hlutverk að annast og undirbúa friðlýsingar samkvæmt lögunum. Ráðuneytið leitaði því eftir upplýsingum frá stofnuninni vegna þessarar fyrirspurnar. Umhverfisstofnun hefur þegar hafið undirbúning að friðlýsingu svæðanna og hafið formlega vinnu við flest þeirra svæða sem falla í verndarflokk rammaáætlunar. Stofnunin hefur m.a. fundað með fulltrúum nokkurra sveitarstjórna og einnig óskað eftir tilnefningu hlutaðeigandi sveitarfélaga í vinnuhóp um friðlýsingu, þ.m.t. afmörkun og friðlýsingarskilmála viðkomandi svæðis. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun hafa ekki verið gerðar verk- og tímaáætlanir fyrir vinnu við friðlýsingu svæðanna.
Eftirfarandi er samantekt yfir stöðu vinnu við friðlýsingu einstakra svæða í verndarflokki rammaáætlunar í október 2013:
Norðausturland: Jökulsá á Fjöllum, 12 Arnardalsvirkjun og 13 Helmingsvirkjun.
Landsvæðið er innan marka Fljótsdalshéraðs og er norðan við Vatnajökulsþjóðgarð. Hugmyndir eru um stækkun þjóðgarðsins á þessu svæði. Gert er ráð fyrir að vinna við stækkun þjóðgarðsins á svæðinu hefjist í október en ekki hefur verið boðað til fundar með hlutaðeigandi aðilum.
Suðurland: Djúpá, Fljótshverfi, 14 Djúpárvirkjun.
Djúpá er sunnan og austan við Síðujökul og því á grannsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Tillaga er um að svæðið verði innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Vinna við stækkun þjóðgarðsins á svæðinu er ekki hafin.
Suðurland: Hólmsá, 20 Hólmsárvirkjun við Einhyrning.
Umhverfisstofnun hefur haldið kynningarfund með sveitarstjórn og óskað eftir tilnefningu fulltrúa sveitarfélagsins í vinnuhóp sem hefur það hlutverk að vinna að friðlýsingu svæðisins, semja friðlýsingarskilmála og ákveða mörk fyrirhugaðs verndarsvæðis.
Suðurland: Markarfljót, 22 Markarfljótsvirkjun A og 23 Markarfljótsvirkjun B.
Umhverfisstofnun hefur haldið kynningarfund með sveitarstjórn Rangárþings eystra og Rangárþings ytra. Stofnunin og sveitarfélögin hafa komið sér saman um að vinna sameiginlega að friðlýsingu á svæði sem nær yfir báða virkjunarkostina. Settur hefur verið á laggirnar vinnuhópur og á fundi hinn 16. október sl. var farið yfir verkefnið og hvað felst í friðlýsingu en ekki tókst að setja upp verk- og tímaáætlun eins og til stóð. Fulltrúar sveitarfélaganna í vinnuhópnum munu fara yfir verkefnið með viðkomandi sveitarstjórn og þá m.a. um framhald verkefnisins.
Suðurland: Tungnaá, 24 Tungnaárlón og 25 Bjallavirkjun.
Landsvæði virkjunarkosts sem kenndur er við Tungnaárlón liggur að vesturmörkum Vatnajökulsþjóðgarðs og er því rétt að skoða hvort ekki sé eðlilegt að svæðið verði innan marka þjóðgarðsins. Hvað varðar landsvæði sem kennt er við Bjallavirkjun hefur Umhverfisstofnun sent kynningarbréf til Rangárþings ytra og óskað eftir tilnefningu fulltrúa í vinnuhóp um friðlýsingu svæðisins. Á fyrsta fundi vinnuhópsins 16. október sl. var friðlýsingarferlið og verkefnið í heild kynnt. Málefni fundarins verður kynnt fyrir sveitarstjórn og væntanlega verður ákvörðun tekin um framhald verkefnisins.
Suðurland: Þjórsá, 27 Norðlingaölduveita, 566–567,5 m yfir sjávarmáli.
Umhverfisstofnun hefur unnið friðlýsingarskilmála fyrir stækkun á friðlandinu í Þjórsárverum í samræmi við náttúruverndaráætlun og taka þau áform til lögsögu átta sveitarfélaga þar sem fram kom tillaga um að friðlýsingin tæki m.a. yfir allan Hofsjökul. Gert er ráð fyrir að friðlýsing þessa virkjunarkosts verði hluti af þessu stóra friðlýsta svæði á miðhálendinu. Unnið er að endanlegri skilgreiningu svæðisins til samræmis við niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunar og vonir bundnar við að niðurstaða fáist í það sem fyrst.
Suðurland: Jökulfall í Árnessýslu, 32 Gýgjarfossvirkjun. Hvítá í Árnessýslu, 33 Bláfellsvirkjun.
Umhverfisstofnun hefur sent sveitarfélögunum Bláskógabyggð og Hrunamannahreppi kynningarbréf um friðlýsingu og bent m.a. á að faghópar rammaáætlunar hafi fjallað um virkjunarkostina Gýgjarfossvirkjun og Bláfellsvirkjun saman. Bláskógabyggð og Hrunamannahreppur hafa samþykkt að fjalla sameiginlega um bæði svæðin. Bláskógabyggð hefur fjallað um erindi Umhverfisstofnunar og lýst yfir vilja til viðræðna um friðlýsingu vegna svæðis sem kennt er við Bláfellsvirkjun.
Reykjanesskagi: Brennisteinsfjallasvæðið, 68 Brennisteinsfjöll.
Landsvæði sem nær yfir Brennisteinsfjöll er innan Reykjanesfólkvangs og Herdísarvíkurfriðlands. Umhverfisstofnun hefur sent sveitarfélögum og stjórn Reykjanesfólkvangs kynningarbréf og einnig til Sveitarfélagsins Ölfuss hvað varðar Herdísarvíkurfriðland. Stofnunin bíður viðbragða vegna lands innan Reykjanesfólkvangs en hefur fengið jákvæð viðbrögð frá Sveitarfélaginu Ölfusi vegna þess lands sem er innan Herdísarvíkurfriðlands.
Reykjanesskagi: Hengilssvæðið, 74 Bitra og 77 Grændalur.
Umhverfisstofnun hefur sent kynningarbréf til Sveitarfélagsins Ölfuss og til Grímsnes- og Grafningshrepps. Grændalur og að hluta landsvæðið sem kennt er við Bitru er innan lands Reykja sem er í Sveitarfélaginu Ölfusi og er ríkisjörð í umsjón Landbúnaðarháskóla Íslands. Skólinn hefur lýst yfir áhuga og vilja til að friðlýsa stóran hluta af landsvæði skólans. Landbúnaðarháskólinn og Sveitarfélagið Ölfus hafa unnið að uppbyggingu innviða á svæðinu sem er afar vinsælt til útivistar. Fram hefur komið að Grímsnes- og Grafningshreppur er jákvæður fyrir verkefninu. Umhverfisstofnun hefur óskað eftir tilnefningu í vinnuhóp sem vinna á að friðlýsingunni.
Suðurland: Geysissvæðið, 78 Geysir.
Ekki er hafin formleg vinna við friðlýsingu samkvæmt þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Geysissvæðið er hins vegar einnig á náttúruverndaráætlun en í tengslum við þá vinnu hefur ekki náðst samkomulag um friðlýsingu, en Bláskógabyggð hefur óskað eftir því að heildarlausn verði fundin fyrir allt svæðið. Ríkið hefur verið í samskiptum við aðra landeigendur um framtíðarfyrirkomulag á svæðinu og koma að því bæði fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Ekki liggur fyrir tímasett áætlun fyrir þá vinnu.
Suðurland: Kerlingarfjallasvæðið, 79 Hverabotn, 80 Neðri-Hveradalir, 81 Kisubotnar og 82 Þverfell.
Umhverfisstofnun hefur haldið kynningarfundi með sveitarfélögunum, þ.e. Hrunamannahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Sveitarfélögin hafa tilnefnt fulltrúa í vinnuhóp sem vinnur að gerð friðlýsingarskilmála og afmörkun svæðisins. Vinnuhópurinn hefur fundað og er næsti fundur áætlaður í byrjun nóvember en þá verður farið yfir drög að friðlýsingarskilmálum. Við þetta er að bæta að 12. mars 2013 voru stofnuð samtökin Kerlingarfjallavinir og er markmið samtakanna að tryggja verndun svæðisins og möguleika almennings til útivistar.
Norðausturland: Gjástykkissvæðið, 100 Gjástykki.
Gjástykki er innan þriggja sveitarfélaga og hefur eitt þeirra, Þingeyjarsveit, samþykkt að funda með Umhverfisstofnun vegna friðlýsingar á þeim hluta sem er innan sveitarfélagsins. Norðurþing og landeigendur Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi hafa hafnað viðræðum um friðlýsingu.