Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 132. máls.

Þingskjal 147  —  132. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð,
nr. 42/1903, lögum um sameignarfélög, nr. 50/2007,
og lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003 (flutningur
firmaskrár frá sýslumönnum til fyrirtækjaskrár).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




I. KAFLI

Breyting á lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903.
1. gr.

    Í stað orðanna „Í öllum lögsagnarumdæmum á Íslandi skulu sýslumenn“ í 1. gr. laganna kemur: Fyrirtækjaskrá skal.

II. KAFLI
Breyting á lögum um sameignarfélög, nr. 50/2007.
2. gr.

    Í stað orðsins „sýslumaður“ í 2. mgr. 37. gr. laganna kemur: fyrirtækjaskrá.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna.
     a.      Í stað orðanna „Sýslumenn skrá“ í 1. mgr. kemur: Fyrirtækjaskrá skráir.
     b.      Orðin „í umdæmi sýslumanns þar sem heimilisfang félagsins er“ í 2. og 4. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðsins „Sýslumaður“ í 6. mgr. kemur: Fyrirtækjaskrá.

III. KAFLI
Breyting á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003.
4. gr.

    Á eftir orðinu „samvinnufélög“ í 3. gr. laganna kemur: sameignarfélög, samlagsfélög, firmu eins manns.

IV. KAFLI
Gildistaka.
5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta er samið í samstarfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, innanríkisráðuneytis, fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra og sýslumannsins í Reykjavík fyrir hönd Sýslumannafélags Íslands. Tilefni lagasetningarinnar var að flytja firmaskrá frá sýslumönnum til fyrirtækjaskrár. Sýslumenn, hver í sínu umdæmi, hafa með höndum skráningu firmu eins manns, sameignarfélaga og samlagsfélaga. Í frumvarpinu sem hér um ræðir eru lagðar til breytingar á lögum nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, lögum nr. 50/2007, um sameignarfélög, og lögum nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá. Lög þessi falla undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Fjallað er um firmaskrár í lögum nr. 42/1903 og um sameignarfélög í lögum nr. 50/2007. Fyrirtækjaskrá skráir einkahlutafélög, hlutafélög, samlagshlutafélög og samvinnufélög. Telja verður að umræddar breytingar séu til þess fallnar að einfalda framkvæmd og samræma reglur um skráningu tiltekinna félaga, sem og að bæta þjónustu opinberra aðila við atvinnulífið.

II. Meginefni frumvarpsins.
    Aðaltilgangur frumvarpsins er að firmaskrá færist til fyrirtækjaskrár frá sýslumönnum. Það þýðir að firma eins manns, sameignarfélög og samlagsfélög verði héðan í frá skráð hjá fyrirtækjaskrá. Ástæðan fyrir þeim flutningi er að nýta þá þekkingu og tölvukerfi sem til eru í fyrirtækjaskrá til að halda utan um skráningu félaga og breytingar á þeim ásamt því að einfalda almennt skráningu mismunandi félagaforma. Fyrirtækjaskrá er í dag með mun fullkomnara tölvukerfi en sýslumannsembættin þar sem á einfaldan og öruggan hátt er hægt að kalla fram allar upplýsingar um félög á skrá, útbúa vottorð og veita aðgang að skráðum gögnum. Verði breytingin að veruleika er hægt nýta betur tölvukerfi fyrirtækjaskrár og þá þekkingu og reynslu sem þar er fyrir hendi. Breytingin mundi fela í sér samræmingu á landsvísu og betri þjónustu við atvinnulífið. Þessi breyting mun hafa í för með sér mikil þægindi og einföldun fyrir þá sem skrá félög í firmaskrá þar sem fram að þessu hefur fyrst þurft að óska eftir skráningu í firmaskrá hjá sýslumönnum og í framhaldinu sækja um kennitölu til fyrirtækjaskrár. Einnig er mikið hagræði fólgið í því að öll félög, óháð félagaformi, séu skráð á einum stað. Það er sameiginlegt mat aðila að hagkvæmt sé að skráning alls atvinnurekstrar sé á einni hendi.
    Við vinnslu þessa frumvarps var farið yfir 45. kafla lagasafnsins um félög, firmu og stofnanir ásamt öðrum lögum tengdum firmaskrá, starfsemi sýslumanna og starfsemi fyrirtækjaskrár.
    Með frumvarpinu eru ekki lagðar til að gerðar verði neinar breytingar á skráningu sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá í samræmi við lög nr. 19/1988, en sýslumaðurinn á Sauðárkróki sér um slíkar skráningar.

III. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þótti ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá eða á alþjóðlegum skuldbindingum þar sem það snýst eingöngu um breytingu á skráningaraðila.

IV. Samráð.
    Samráð var haft við fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og Sýslumannafélag Íslands en frumvarpið var samið að miklu leyti að frumkvæði þeirra.

V. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum verður umgjörð um skráningu félagaforma fyrir viðskiptalífið einfaldari auk hagræðis við að halda aðeins úti einu skráningarkerfi fyrir öll félagaform. Flutningur firmaskrár frá sýslumönnum ætti ekki að þýða lakari þjónustu fyrir landsbyggðina þar sem ríkisskattstjóri, sem starfrækir fyrirtækjaskrá, er með starfsstöðvar víðs vegar um landið ásamt því að mikið er lagt upp úr því að hægt sé að skila gögnum til fyrirtækjaskrár rafrænt. Einnig verður betra aðgengi að upplýsingum um firmu eins manns, sameignarfélög og samlagsfélög úr tölvukerfi fyrirtækjaskrár.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að gerðar verði breytingar á lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903, þannig að firmaskrá verði starfrækt af fyrirtækjaskrá í stað sýslumanna.

Um 2. og 3. gr.

    Í 2. og 3. gr. er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum nr. 50/2007, um sameignarfélög, þannig að fyrirtækjaskrá sjái um skráningu sameignarfélaga í stað sýslumanna.

Um 4. gr.

    Hér er lögð til breyting á lögum nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá, þannig að fyrirtækjaskrá verði falið að halda aðgreinanlegar skrár yfir sameignarfélög og samlagsfélög.

Um 5. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslanaskrár,
firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903, lögum um sameignarfélög, nr. 50/2007,
og lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003 (flutningur firmaskrár
frá sýslumönnum til fyrirtækjaskrár).

    Megin markmið þessa frumvarps er að flytja firmaskrá frá sýslumönnum til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra og að skráning alls atvinnurekstrar verði þannig á einni hendi. Það þýðir að firma eins manns, sameignarfélög og samlagsfélög verði héðan í frá skráð hjá fyrirtækjaskrá í stað þess að sýslumenn haldi utan um þessa skráningu hver í sínu umdæmi. Ástæðan fyrir þessum breytingum er fyrst og fremst sú að með þeim verður hægt að nýta þá þekkingu og tölvukerfi sem eru fyrir hendi hjá fyrirtækjaskrá til að halda utan um skráningu félaga ásamt því að einfalda almennt skráningu mismunandi félagaforma. Þannig er áformað að breytt fyrirkomulag muni fela í sér samræmingu á landsvísu, betri þjónustu við atvinnulífið og aukna skilvirkni og hagræði í tengslum við þessa vinnu. Gert er ráð fyrir að gildistaka frumvarpsins verði 1. janúar 2014.
    Áætlað er að fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra þurfi að bæta við hjá sér einum starfsmanni til að sinna þeim verkefnum sem flytjast til stofnunarinnar samkvæmt frumvarpinu og að kostnaður vegna þess verði um 7,5 m.kr. á ári. Byggist það m.a. á þeim fjölda félaga sem skráður er á hverju ári og breytingum á skráningu, stjórnun og eftir atvikum yfirráðum. Kallar þetta á sams konar meðferð og hjá öðrum félagaformum sem er nokkuð ítarlegri en verið hefur hjá sýslumönnum. Gert er ráð fyrir að 3 m.kr. fjárheimild flytjist til stofnunarinnar frá sýslumannsembættum vegna þessa og að viðbótarútgjöld muni því aukast um 3,5 m.kr. þar sem reiknað er með að vinna við verkefnin hjá fyrirtækjaskrá verði nokkuð umfangsmeiri frá því sem nú er. Þessu til viðbótar er reiknað með 9,3 m.kr. einskiptiskostnaði hjá fyrirtækjaskrá vegna skráningar, flokkunar og skönnunar eldri gagna sem færast frá sýslumönnum. Að þessu samanlögðu má því gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs muni aukast um 13,8 m.kr. verði frumvarpið óbreytt að lögum en þar af verði 9,3 m.kr. einskiptiskostnaður. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þessum kostnaði í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014.