Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 50. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 152  —  50. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Árna Þór Sigurðssyni
um úrgangs- og spilliefni á Heiðarfjalli á Langanesi.


     1.      Hvert er mat ráðherra á umfangi úrgangs- og spilliefna á Heiðarfjalli á Langanesi, þ.m.t. í vatnsbólum, og telur ráðherrann óþægindi eða hættu stafa af efnunum?
    Magn þess úrgangs sem urðaður var í haugnum er ekki þekkt en árið 1992 var gerður uppdráttur af svæðinu og samkvæmt honum er flatarmál haugsins á yfirborði u.þ.b. 6400 m². Niðurstöður úr mælingum og könnunum á árunum 1990–1994 benda ekki til að mengun berist frá úrganginum og því er ekki talið að bein hætta eða óþægindi stafi frá honum. Til að mynda leiddu mælingarnar í ljós að styrkur þungmálma var undir hámarksgildum fyrir neysluvatn. Styrkur blýs í einu sýnanna árið 1993 upp á 5,9 .g/l, sem þó var undir hámarksgildi fyrir neysluvatn, varð tilefni til endurtekinna mælinga árið 1994. Við endurteknar mælingar reyndist styrkur blýs undir 0,5 .g/l.

     2.      Telur ráðherra rétt að láta meta á ný meint óafturkræf áhrif á vistkerfi svæðisins eða mengun af völdum efna sem geta skaðað heilsu manna og lífvera, gera nýjar rannsóknir, mengunarmælingar og mat á mengunarhættu – m.a. ofan við vatnsból – í ljósi þess að afmarkaðar athuganir á mengunarhættu voru framkvæmdar á svæðinu árin 1991, 1993 og síðast fyrir 19 árum, árið 1994?
    Ekki er ljóst hvað átt er við með meintum óafturkræfum áhrifum þar sem mengun virðist ekki berast út í umhverfið í því magni eða styrk að hættu skapi. Þó er ljóst að tilvist úrgangsins setur skorður við nýtingu svæðisins en þær skorður er ómögulegt að fullyrða um nema að undangengnum rannsóknum sem mundu taka mið af fyrirhugaðri nýtingu svæðisins. Því er ekki tilefni til að endurmeta hauginn sjálfan nema ef nýting svæðisins er fyrirhuguð.

     3.      Telur ráðherra tilefni til vöktunar umhverfisins á svæðinu, t.d. kerfisbundinnar vöktunar á efnainnihaldi grunnvatns innan áhrifasvæðis úrgangsefnanna, sbr. viðmið og meginreglur umhverfisréttarins?
    Eins og áður segir benda fyrirliggjandi niðurstöður úr mælingum ekki til mengunarhættu. Í ljósi þess hve langur tími er liðinn frá síðustu mælingum er hins vegar full ástæða til að kanna gæði vatns í vatnsbólinu og í lindarvatni undir Heiðarfjalli, ef slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir. Árið 1996 fyrirhugaði Hollustuvernd ríkisins að endurtaka mælingar en fékk ekki leyfi landeigenda til þess. Eðlilegt er að fylgjast með gæðum vatns í vatnsbóli og sé tekið mið af þeim gögnum sem til eru má leggja til að slíkar mælingar fari fram á fimm ára fresti, á meðan gildi eru vel undir viðeigandi viðmiðunarmörkum. Ekki verður séð að ástæða sé til að umhverfis- og auðlindaráðuneytið eða Umhverfisstofnun standi fyrir slíkri vöktun.

     4.      Telur ráðherra að landeigendur á umræddu svæði geti átt rétt á skaðabótum í ljósi meginreglna umhverfisréttar er varða réttarstöðu almennings, upplýsingaskyldu stjórnvalda og fyrirbyggjandi ráðstafanir eins og þær kvaðir birtast í íslenskri löggjöf, sem og í ljósi ákvæða alþjóða- og milliríkjasamninga, svo sem 73. gr. EES-samningsins, 15. meginreglu Ríó-samningsins, 7. meginreglu Stokkhólms-yfirlýsingarinnar og 4. tölul. 7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB?
    Ráðuneytið telur ekki vera hlutverk sitt að leggja mat á hugsanlegan rétt landeigenda á skaðabótum. Telji landeigendur sig eiga rétt á skaðabótum þurfa þeir að leggja fram slíka kröfu og eftir atvikum er það hlutverk dómstóla að taka afstöðu til réttmæti slíkra krafna.

     5.      Telur ráðherra ástæðu til að láta meta:
                  a.      hvort meint umhverfistjón á H-2 svæðinu á Heiðarfjalli á Langanesi (sbr. einnig efni fyrirspurna á þskj. 49 og 51) falli undir skilgreiningar 3. gr. laga um umhverfisábyrgð og ef ekki, hvort endurskoða þurfi skilgreiningarnar,
                  b.      hvort rétt hafi verið að láta undantekningu gilda þannig að ákvæði laga um umhverfisábyrgð nái ekki til starfsemi sem veldur umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á tjóni þegar megintilgangur starfseminnar er landvarnir eða alþjóðlegt öryggi og ef ekki, hvort endurskoða þurfi undantekningarákvæði laganna, og
                  c.      hvort ástæða sé til að endurskoða orðalag 3. mgr. 31. gr. laga um umhverfisábyrgð, sem innleiðir í íslenskan rétt greiðslureglu umhverfisréttarins um að fyrningarfrestur bótakrafna vegna mengunartjóns, sem fellur undir lögin, getur aldrei orðið lengri en 30 ár frá því að atburður sem orsakaði tjónið eða hættuna á tjóni varð, í því ljósi að Heiðarfjallssvæðinu var skilað fyrir 42 árum?

    a. Lög nr. 55/2012, um umhverfisábyrgð, taka til umhverfistjóns eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni sem verður eftir gildistöku laganna, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Á þessu eru tvær undantekningar, sbr. 3. og 4. mgr. 36. gr. laganna en þær eiga ekki við í því máli sem hér er til umfjöllunar. Af framansögðu leiðir að meint umhverfistjón á H-2 svæðinu á Heiðarfjalli á Langanesi fellur ekki undir gildissvið laganna að mati ráðuneytisins. Af þeim sökum telur ráðuneytið ekki þörf á að endurskoða skilgreiningar sem fram koma í lögunum og auk þess taka skilgreiningar laganna mið af tilskipun 2004/35/EB um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess, sem innleidd var með lögum nr. 55/2012. Að lokum er rétt að benda á að Umhverfisstofnun metur hvort orðið eða yfirvofandi tjón sé umhverfistjón eða yfirvofandi hætta á umhverfistjóni í skilningi laga nr. 55/2012, sbr. 12. gr. laganna. Lögin geta ekki náð til tjóns sem er til komið fyrir gildistöku laganna.
    b. Í 4. gr. laga nr. 55/2012, um umhverfisábyrgð, koma fram undantekningar á gildissviði laganna. Starfsemi, sem snýr að landvörnum eða alþjóðlegu öryggi, er ekki undanskilin gildissviði laganna. Í frumvarpi, sem umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram (140. löggjafarþing, þskj. 448, 372. mál) og varð að lögum nr. 55/2012, var lagt til að framangreind starfsemi yrði undanþegin gildissviði laganna í samræmi við tilskipun 2004/35/EB um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess en sú undanþága var tekin út í meðförum þingsins.
    c. Eins og fram hefur komið taka lög nr. 55/2012 ekki til umhverfistjóns sem hefur orðið fyrir gildistöku laganna, sbr. 36. gr.
    Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 55/2012 fyrnist krafa um endurgreiðslu kostnaðar Umhverfisstofnunar við ráðstafanir skv. 24. gr. laganna og krafa um gjald skv. 1. mgr. 30. gr. laganna á fimm árum frá þeim degi þegar ráðstöfunum lauk eða frá því að rekstraraðili, eða þriðji aðili, sem ábyrgð ber hefur verið tilgreindur. Fresturinn skal miðaður við síðara tímamarkið. Í 2. mgr. 31. gr. laganna gildir ákvæði 1. mgr. einnig um kröfu um endurgreiðslu útgjalda vegna ráðstafana sem framkvæmdar eru samkvæmt öðrum lögum þegar unnt hefði verið að gefa fyrirmæli um þær skv. III. kafla laganna. Í 3. mgr. kemur síðan fram lokafyrningarfrestur þeirra krafna sem um er getið í 1. og 2. mgr. 31. gr. laganna. Sá fyrningarfrestur er 30 árum eftir að losun eða annar atburður varð sem leiddi til umhverfistjóns eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni, sbr. 3. mgr. 31. gr. laganna.

     6.      Hvernig telur ráðherra að koma megi til móts við ætluð réttarbrot gagnvart landeigendum á umræddu svæði, svo sem vegna óafturkræfra áhrifa á vistkerfi eða mengun af völdum efna sem geta skaðað heilsu manna og lífvera, svo ljúka megi málinu með viðunandi hætti?
    Niðurstöður úr mælingum og könnunum sem gerðar hafa verið benda ekki til að mengun berist frá úrganginum og því er ekki talið að bein hætta eða óþægindi stafi frá honum. Telji landeigendur sig eiga rétt á skaðabótum þurfa þeir að leggja fram slíka kröfu og er það hlutverk dómstóla að taka afstöðu til réttmætis slíkra krafna.