Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 137. máls.

Þingskjal 154  —  137. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum
(úthlutun tollkvóta).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 12. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „innflutningsverðs“ í 2. málsl. kemur: að teknu tilliti til heildsöluálagningar.
     b.      Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal tollur ekki vera hærri en 45% af ákveðnum magntolli samkvæmt tollskrá.
     c.      Við 3. málsl. bætist: að viðbættri heildsöluálagningu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að höfðu samráði við ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara, sbr. 87. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Frumvarpið felur í sér breytingu á 3. mgr. 12. gr. tollalaga, nr. 88/2005, með síðari breytingum. Í 12. gr. tollalaga er fjallað um tollkvóta sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthlutar.
    Ákvæði 3. mgr. 12. gr. tollalaga var breytt með lögum nr. 160/2012, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum (úthlutun tollkvóta og fóðursjóður), sem voru samþykkt á Alþingi á 141. löggjafarþingi. Ákvæðinu var breytt vegna álits umboðsmanns Alþingis frá 18. júlí 2011 um heimild ráðherra til að leggja á verð- eða magntoll. Í áliti sínu vék umboðsmaður m.a. að heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra samkvæmt áðurnefndri 3. mgr. 12. gr. tollalaga og 65. gr. A laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, til ákvörðunar tollprósentu. Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að þær heimildir sem ráðherra eru veittar til álagningar tolla væru ekki í samræmi við þær kröfur til skattlagningarheimilda sem leiðir af ákvæðum 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar.
    Þegar lög nr. 160/2012 tóku gildi og farið var að vinna eftir ákvæði 3. mgr. 12. gr. tollalaga komu í ljós ákveðnir vankantar við ákvörðun á tolli. Samkvæmt framangreindri málsgrein skal tollur vera reiknaður sem mismunur á ríkjandi heildsöluverði, samkvæmt upplýsingum frá a.m.k. tveimur leiðandi ótengdum dreifingaraðilum, og innflutningsverði, samkvæmt meðaltali tollverðs síðastliðinna sex mánaða. Vankantarnir fólust í því að sú aðferð sem tilgreind er í ákvæðinu leiðir a.m.k. í sumum tilfellum til þess að tollur á dýrari vörur verður umtalsvert hærri en á ódýrari vörum. Kom þetta meðal annars fram þegar ákveða þurfti opinn tollkvóta á nautakjöti til að mæta skorti á markaði sl. vor. Þá kom t.d. í ljós að magntollur á dýrari vöðva hefði orðið hærri en þeir tollar sem um getur í tvíhliða samningum Íslands við ESB og/eða WTO-tollkvótareglugerðum.
    Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði úr þessu með nákvæmari viðmiðum og um leið sett ákveðið hámark sem magntollur innan tollkvóta skal bera úr viðauka IVA og B við tollalög. Tilgangurinn er að draga úr hættu á að þeir skili sér í hærra verðlagi til neytenda.     
    Í 3. mgr. 12. gr. laganna segir hvernig ákvarða skuli magntoll á þær vörur sem eru fluttar inn samkvæmt tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B við tollalög. Málsgreinin stendur að mestu óbreytt fyrir utan þær breytingar sem taldar eru nauðsynlegar svo að unnt sé að beita henni við ákvörðun tolla. Við 2. málsl. 3. mgr. bætist að tillit skuli taka til heildsöluálagningar þegar miðað er við innflutningsverð en álagning á heildsöluverð og innflutningsverð er ekki nákvæmur samanburður og getur verið mismunandi. Gerð er tillaga um nýjan málslið þar sem segir að magntollur skuli ekki vera hærri en 45% af almennum magntolli samkvæmt tollskrá. Með þessari breytingu er leitast við að hafa nákvæmari viðmið við samanburð á verðum og sett ákveðið hámark um magntoll innan tollkvóta úr viðauka IVA og B í þeim tilgangi að beita ívilnandi tolli þegar tollkvóta er úthlutað. Þá er einnig leitast við með greininni að skýra betur þær forsendur sem liggja að baki ákvörðun magntolls.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum,
nr. 88/2005, með síðari breytingum (úthlutun tollkvóta).

    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á 3. mgr. 12. gr. tollalaga en ákvæði 12. gr. var breytt með lögum nr. 160/2012, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum, sem tóku gildi 21. desember 2012. Með þeim lögum er skilgreint nánar hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi á innanlandsmarkaði til þess að tollkvótum verði úthlutað samkvæmt viðaukum IVA og B við tollalög og nánar skýrt hvernig tollur skuli ákveðinn við úthlutun tollkvóta og lögfest hlutlæg skilyrði fyrir þeirri ákvörðun. Þegar farið var að vinna með framangreind hlutlæg skilyrði skv. 3. mgr. 12. gr. tollalaga komu í ljós ákveðnir vankantar við ákvörðun á tolli. Samkvæmt framangreindri málsgrein skal tollur vera reiknaður sem mismunur á ríkjandi heildsöluverði, samkvæmt upplýsingum frá a.m.k. tveimur leiðandi ótengdum dreifingaraðilum, og innflutningsverði, samkvæmt meðaltali tollverðs síðastliðinna sex mánaða. Vankantarnir fólust í því að sú aðferð sem tilgreind er í ákvæðinu leiðir a.m.k. í sumum tilfellum til þess að tollur á dýrari vörum verður umtalsvert hærri en á ódýrari vörum. Kom þetta m.a. fram þegar ákveða þurfti opinn tollkvóta á nautakjöt til að mæta skorti á markaði síðast liðið vor. Þá kom t.d. í ljós að magntollur á dýrari vöðva hefði orðið hærri en þeir tollar sem um getur í tvíhliða samningum Íslands við ESB eða WTO-tollkvótareglugerðum. Með frumvarpinu er því lagt til að bætt verði úr fyrrgreindum atriðum með nákvæmari viðmiðum hinna hlutlægu skilyrða og um leið sett ákveðið hámark sem magntollur innan tollkvóta skal bera úr viðauka IVA og B við tollalög. Tilgangurinn er að draga úr hættu á að tollar skili sér í hærra verðlagi til neytenda.
    Samkvæmt núgildandi lögum er meginreglan sú að þegar tollur er ákveðinn er tekinn mismunur á ríkjandi heildsöluverði innan lands og innflutningsverði eins og að framan greinir. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að heildsöluálagning muni bætast við innflutningsverðið í útreikningsaðferðinni sem ætti að leiða til þess að reiknaður tollur verði minni. Ef það dugi hins vegar ekki til er í frumvarpinu jafnframt gert ráð fyrir að við útreikninginn verði hægt að miða við 45% af ákveðnum magntolli samkvæmt tollskrá. Gera má ráð fyrir að með samþykkt frumvarpsins muni magntollur skv. 12. gr. laganna lækka eitthvað en hins vegar er líklegt að vörumagn innflutnings muni aukast á móti. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir að það muni hafa í för með sér teljandi áhrif á heildartolltekjur ríkissjóðs og afkomu hans þótt erfitt sé að meta slíkt með nákvæmum hætti.