Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 138. máls.

Þingskjal 155  —  138. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 103/1994, um jöfnun á flutningskostnaði
olíuvara, með síðari breytingum (umsýslustofnun).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Í stað orðsins „Neytendastofa“ í 2. mgr. 2. gr. og 7. gr. og orðsins „Neytendastofu“ í 3. málsl. 6. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Byggðastofnun.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpinu eru lögð til ein breyting á lögum nr. 103/1994. Lagt er til að Byggðastofnun taki við hlutverki Neytendastofu samkvæmt lögunum. Vegna þessa er þörf á að breyta 2., 6., og 7. gr. laganna þannig að Byggðastofnun komi í stað Neytendastofu og sinni daglegum rekstri flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara og annist greiðslur vegna flutningsjöfnunar í samræmi við lög.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Ástæða þess að þetta frumvarp er lagt fram er að starfsemi Neytendastofu var færð frá viðskiptaráðherra undir forræði dómsmála- og mannréttindaráðherra, nú innanríkisráðherra, með lögum nr. 98/2009, um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Lögin tóku gildi 1. október 2009 en með þeim var ekki gerð breyting á lögum nr. 103/1994 og Neytendastofa hélt því áfram umsýsluhlutverki sínu samkvæmt þeim lögum. Lög nr. 103/1994 heyra undir málefnasvið atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins en Neytendastofa heyrir eins og áður segir ekki með stjórnsýslulegum hætti undir það ráðuneyti. Því er lagt til í þessu frumvarpi að Byggðastofnun taki við hlutverki Neytendastofu við framkvæmd laganna. Eðlilegt er að framkvæmd þeirra sé falin einni af undirstofnunum ráðuneytisins í samræmi við lög nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, og forsetaúrskurð nr. 71/2013 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
    Jafnframt er talið eðlilegt og hagkvæmt að umsýsla með flutningsjöfnunarsjóði olíuvara sé á sama stað og umsýsla með svæðisbundinni flutningsjöfnun og fleiri byggðatengdum jöfnunaraðgerðum.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Markmið laga nr. 103/1994 er að jafna flutningskostnað á olíuvörum milli landshluta. Þessu markmiði er náð með innheimtu sérstaks gjalds af innfluttum olíuvörum sem síðan er deilt á olíufélögin í samræmi við umfang flutnings þeirra til mismunandi svæða á landinu. Skv. 7. gr. núgildandi laga sér Neytendastofa, ásamt stjórn flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara, um daglegan rekstur og greiðslur á kostnaði við flutningsjöfnun í samræmi við lögin, reglur og ákvarðanir stjórnar sjóðsins.
    Þegar lög nr. 103/1994 tóku gildi var framkvæmd laganna falin Samkeppnisstofnun en síðar tók Neytendastofa við hlutverki Samkeppnisstofnunar. Neytendastofa hefur útvistað meginhluta lagaframkvæmdarinnar til sjálfstæðrar endurskoðunarskrifstofu. Með frumvarpi þessu er lagt til að Byggðastofnun taki við hlutverki Neytendastofu samkvæmt lögunum en rökin fyrir þeirri tilhögun eru tilgreind í II. kafla þessara athugasemda. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að orðið „Byggðastofnun“ komi í stað orðsins „Neytendastofa“ í 2., 6., og 7., gr. laganna. Með því er Byggðastofnun falið hlutverk Neytendastofu með starfsemi flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara og forstjóri Byggðastofnunar eða staðgengill hans verður stjórnarformaður sjóðsins. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2014 enda eðlilegt að breytingarnar samkvæmt frumvarpinu miðist við áramót. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2014 enda eðlilegt að breytingarnar samkvæmt frumvarpinu miðist við áramót.

IV. Samráð.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við Byggðastofnun, Neytendastofu og stjórn flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara.

V. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpi þessu er Byggðastofnun falið hlutverk Neytendastofu með starfsemi flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara og forstjóri Byggðastofnunar eða staðgengill hans verður stjórnarformaður sjóðsins. Þessar lagabreytingar, ef frumvarpið verður að lögum, munu ekki fela í sér kostnað fyrir ríkissjóð. Hins vegar má búast við því að nokkur samlegðaráhrif verði við önnur sambærileg verkefni sem Byggðastofnun sinnir nú þegar, svo sem stuðning við svæðisbundna flutningsjöfnun. Þannig má búast við að lagaframkvæmd verði skilvirkari ef frumvarpið verður að lögum.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 103/1994,
um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, með síðari breytingum (umsýslustofnun).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að Byggðastofnun taki við hlutverki Neytendastofu samkvæmt gildandi lögum og sinni eftirleiðis daglegum rekstri flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara og annist greiðslur vegna flutningsjöfnunar. Neytendastofa heyrir stjórnsýslulega undir innanríkisráðuneytið en lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara heyra undir málefnasvið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Er því talið heppilegra að framkvæmd þessara laga verði falin einni af undirstofnunum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, auk þess sem talið er hagkvæmt að slík umsýsla verði framvegis í höndum sama aðila og sams konar umsýsla með öðrum byggðatengdum jöfnunaraðgerðum. Gert er ráð fyrir að lagabreytingin taki gildi 1. janúar 2014.
    Samkvæmt gildandi lögum er innheimt sérstakt gjald af innfluttum olíuvörum sem síðan er deilt út til olíufélaganna í samræmi við umfang flutnings þeirra til mismunandi svæða á landinu með það að markmiði að jafna flutningskostnað olíuvara á milli landshluta. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir 407 m.kr. fjárheimild vegna þessa á fjárlagalið 04-861 Flutningsjóður olíuvara og jafnháum tekjum af flutningsjöfnunargjaldinu á móti á tekjuhlið frumvarpsins. Eins og fyrr segir sér Neytendastofa, ásamt stjórn flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara, um daglegan rekstur og greiðslur á kostnaði við flutningsjöfnun í samræmi við lögin, reglur og ákvarðanir stjórnar sjóðsins. Rekstrarkostnaður sjóðsins, svo sem stjórnarlaun o.fl., var um 10 m.kr. á árinu 2012, en skv. 9. gr. laganna skal hann greiðast af tekjum sjóðsins og skal tekið tillit til þess við ákvörðun flutningsjöfnunargjalds. Ekki er gert ráð fyrir að sá kostnaður muni aukast við það að umsýsla sjóðsins færist til Byggðastofnunar sem tilheyrir eins og aðrir lánasjóðir C-hluta fjárlaga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.