Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 139. máls.

Þingskjal 156  —  139. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma
og varnir gegn þeim, með síðari breytingum
    (viðaukar og reglugerðarheimild).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „smitsjúkdóm, sem tilgreindur er í viðaukum 1A og 1B með lögum þessum“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: tilkynningarskyldan sjúkdóm, sbr. reglugerð skv. 2. mgr. 7. gr.
     b.      Í stað orðanna „sem tilgreindur er í viðauka 2“ í 3. mgr. kemur: sem er skráningarskyldur sjúkdómur, sbr. reglugerð skv. 2. mgr. 7. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sem tilgreindir eru í viðaukum 1A og 1B“ kemur: sem eru tilkynningarskyldir, sbr. reglugerð skv. 2. mgr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra skal setja reglugerð um flokkun smitsjúkdóma. Þar skal tilgreina hvaða sjúkdómar eru tilkynningarskyldir og hvaða sjúkdómar eru skráningarskyldir. Þá skal flokka tilkynningarskylda sjúkdóma í alvarlega sjúkdóma eða aðra sjúkdóma, eftir því sem við á.

3. gr.

    Í stað orðanna „þeirra dýrasjúkdóma sem taldir eru upp í viðaukum 1A, 1B og 2“ í 1. málsl. 8. gr. laganna kemur: tilkynningarskyldra og skráningarskyldra sjúkdóma, sbr. reglugerð skv. 2. mgr. 7. gr.

4. gr.

    Í stað orðanna „sjúkdómum sem taldir eru upp í viðauka 1A með lögum þessum“ í 1. málsl. 17. gr. laganna kemur: alvarlegum tilkynningarskyldum sjúkdómum sem taldir eru upp í reglugerð ráðherra skv. 2. mgr. 7. gr.

5. gr.

    Í stað orðanna „taldir eru upp í viðauka 1A“ í 18. gr. laganna kemur: alvarlegum tilkynningarskyldum sjúkdómum sem taldir eru upp í reglugerð ráðherra skv. 2. mgr. 7. gr.

6. gr.

    Viðaukar 1A, 1B og 2 við lögin falla brott.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í frumvarpinu er gerð tillaga um að sjúkdómalistar sem er að finna í viðaukum með núgildandi lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum, verði felldir brott og ráðherra tilgreini sjúkdómalista í reglugerð. Frumvarpið var sent til umsagnar til Matvælastofnunar. Athugasemdir bárust frá stofnuninni sem ráðuneytið hefur unnið úr.
    Með lögum nr. 31/2001, um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, með síðari breytingum, sem tóku gildi 16. maí 2001, voru þrír viðaukar settir við lög nr. 25/1993, þ.e. viðauki 1A tilkynningarskyldir sjúkdómar, viðauki 1B tilkynningarskyldir sjúkdómar og viðauki 2 skráningarskyldir sjúkdómar (Stjtíð. A 2001, bls. 58–63). Ástæða breytinganna var að aðlaga sjúkdómaskrá laganna að alþjóðlegum stöðlum. Leitast var við að samræma listann í samræmi við reglur Alþjóðadýrasjúkdómastofnunarinnar í París (OIE) vegna skyldna Íslands við skráningu og tilkynningu dýrasjúkdóma sem vart verður hér á landi. Í athugasemdum frumvarpsins kom fram að við breytingu laganna hafi tækifærið verið notað til að leiðrétta ákveðnar villur í eldri sjúkdómaskrá sem áður var að finna í viðauka 1 og 2 við lögin (Stjtíð. A 1993, bls. 112–114).
    Sjúkdómalista OIE var áður skipt upp í A- og B-flokk en með breytingu sem tók gildi 1. janúar 2005 var listanum breytt með þeim hætti að um einn lista er að ræða, svokallaðan OIE- lista. Sjúkdómalistinn er uppfærður í janúar á ári hverju. Frá gildistöku laga nr. 31/2001 hefur sjúkdómalisti OIE tekið miklum breytingum. Viðaukum 1A, 1B og 2 hefur ekki verið breytt né hafa þeir verið uppfærðir frá gildistöku laga nr. 31/2001.
    Með frumvarpi þessu er gerð tillaga um að fella viðauka 1A, viðauka 1B og viðauka 2 við lögin brott. Tillaga er gerð um að ráðherra verði skylt að setja reglugerð sem hafi að geyma lista yfir þá sjúkdóma sem eru tilkynningar- og skráningarskyldir. Þá verður ráðherra skylt að flokka þá sjúkdóma sem eru tilkynningar- og skráningarskyldir eftir alvarleika þeirra. Nauðsynlegt er að unnt sé að uppfæra sjúkdómalista hér á landi þegar nýir sjúkdómar greinast eða þegar breytingar verða. Í frumvarpi þessu er því gerð tillaga um að einfalda framkvæmd þess að uppfæra sjúkdómalista hér á landi. Með skyldu ráðherra að mæla fyrir um framangreindan sjúkdómalista í reglugerð er unnt að bæta við á listann þeim sjúkdómum sem greinast og ekki eru á listanum án þess að til þurfi að koma lagabreyting. Þá verður ráðherra einnig heimilt að breyta og uppfæra flokkun sjúkdóma eftir því sem við á. Tillaga þessi er í samræmi við framkvæmd í Noregi þar sem sjúkdómalista þar í landi er að finna í reglugerð (Forskrift om fortegnelse over sjukdommer som omfattes av matloven) sem á sér stoð í 19. gr. norsku matvælalaganna nr. 124 frá 2003 (Lov om matproduksjon og mattrygghet mv.). Í norsku reglugerðinni er sjúkdómunum skipt upp í A-, B-, C- og D-sjúkdóma. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra mæli fyrir um í reglugerð að tilkynningar- og skráningarskyldir sjúkdómar verði flokkaðir eftir alvarleika þeirra. Áfram verður því skylt að tilkynna um grun eða greiningu á tilkynningarskyldum sjúkdómum til Matvælastofnunar. Ef dýralæknir greinir eða hefur grun um skráningarskyldan sjúkdóm skal hann áfram hlutast til um að rannsaka frekar sjúkdóminn og tilkynna um málið eftir því sem nauðsynlegt er.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin stendur að mestu óbreytt þar sem eingöngu eru gerðar breytingar á tilvísun til sjúkdóma sem er að finna í viðaukum 1A og 1B. Sjúkdómar þeir sem finna má í viðaukunum eru tilkynningarskyldir sjúkdómar. Þeir hafa verið flokkaðir með tilliti til þess hvort um alvarlega smitsjúkdóma (A-sjúkdóma) er að ræða sem krefjast skilyrðislauss niðurskurðar eða aðra smitsjúkdóma (B-sjúkdóma) sem krefjast annars konar viðbragða eftir aðstæðum.
    Í 2. mgr. 5. gr. laganna er bætt við hugtakinu tilkynningarskyldir sjúkdómar sem nær bæði yfir sjúkdóma sem eru alvarlegir smitsjúkdómar og aðra smitsjúkdóma sem eru tilkynningarskyldir.
    Í 3. mgr. 5. gr. laganna er fjallað um sjúkdóma sem tilgreindir eru í viðauka 2. Í viðaukanum er fjallað um sjúkdóma sem ekki krefjast sérstakra viðbragða en er skylt að skrá. Orðalagi málsgreinarinnar er því breytt með þeim hætti að í stað sjúkdóma í viðauka 2 er um að ræða skráningarskylda sjúkdóma.

Um 2. gr.

    Í 7. gr. laganna er fjallað um heimild ráðherra til að setja reglugerð um varúðarráðstafanir sem nauðsynlegar eru ef upp koma smitsjúkdómar sem eru skráningarskyldir. Um nánari skýringar vísast til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.
    Gerð er tillaga um að við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein sem mælir fyrir um skyldu ráðherra til að setja reglugerð um flokkun sjúkdóma og lista yfir þá sjúkdóma sem eru tilkynningar- eða skráningarskyldir. Þá er sérstaklega mælt fyrir um það að ráðherra verði skylt að mæla fyrir um flokkun tilkynningarskyldra sjúkdóma eftir því hversu alvarlegir sjúkdómarnir eru. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að ráðherra flokki í reglugerð hvaða tilkynningarskyldu sjúkdómar eru alvarlegir og krefjast niðurskurðar og bóta úr ríkissjóði og hverjir flokkast sem aðrir tilkynningarskyldir sjúkdómar sem krefjast annarra viðbragða eins og einangrunar, bólusetningar, lyfjameðferðar o.s.frv. Flokkun þessi er í samræmi við núgildandi flokkun sjúkdóma í viðauka 1A, 1B og 2 og tekur mið af norskri fyrirmynd. Ástæða þess að nauðsynlegt er að gera greinarmun á alvarlegum tilkynningarskyldum sjúkdómum og öðrum tilkynningarskyldum sjúkdómum er vegna ákvæða laganna í 17. og 18. gr. sem mæla fyrir um bætur úr ríkissjóði þegar alvarlegir tilkynningarskyldir sjúkdómar eru greindir. Um frekari skýringar við grein þessa er vísað til athugasemda við 4. og 5. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Um skýringar við grein þessa vísast til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Í 17. gr. laganna er fjallað um greiðslu kostnaðar og bóta ef upp koma sjúkdómar sem eru samkvæmt núgildandi lögum tilgreindir í viðauka 1A. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimilt verði að greiða bætur úr ríkissjóði fyrir þá sjúkdóma sem flokkaðir eru í reglugerð sem alvarlegir tilkynningarskyldir sjúkdómar. Í 2. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að ráðherra sé skylt í reglugerð að flokka hvaða sjúkdómar séu alvarlegir tilkynningarskyldir sjúkdómar og hverjir séu eingöngu tilkynningarskyldir sjúkdómar. Ákvæðið stendur að öðru leyti óbreytt í lögunum.

Um 5. gr.

    Í 18. gr. laganna er fjallað um greiðslu bóta vegna annarra sjúkdóma en þeirra sem flokkaðir eru sem alvarlegir tilkynningarskyldir sjúkdómar. Það geta þá verið aðrir tilkynningarskyldir sjúkdómar eða skráningarskyldir sjúkdómar (sem nú er að finna í viðaukum 1B og 2).

Um 6. gr.

    Með vísan til 2. gr. frumvarpsins er lagt til að mælt verði fyrir um sjúkdómalista og flokkun sjúkdóma í reglugerð og því er í greininni lagt til að fella brott viðauka 1A, 1B og 2. Um frekari skýringar við grein þessa er vísað til athugasemda við 2. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993,
um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum
(viðaukar og reglugerðarheimild).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á núgildandi lögum um dýrasjúkdóma í þá veru að felldir verði á brott úr lögunum viðaukar 1A,1B og 2 en í þeim er að finna lista yfir tilkynningarskylda og skráningarskylda dýrasjúkdóma. Í stað þessa er lagt til að ráðherra verði skylt að setja reglugerð sem hafi að geyma lista yfir þá sjúkdóma sem eru tilkynningar- og skráningarskyldir, auk flokkunar á þessum sjúkdómum eftir alvarleika þeirra. Með breytingunum er gert ráð fyrir að öll framkvæmd við að uppfæra sjúkdómalista hér á landi verði gerð einfaldari ásamt því að lágmarka hugsanlegt tjón af völdum búfjársjúkdóma. Með skyldu ráðherra til að mæla fyrir um framangreindan sjúkdómalista í reglugerð verður jafnframt unnt að bæta við á listann þeim sjúkdómum sem greinast og ekki eru á listanum án þess að til þurfi að koma lagabreyting. Þá verður ráðherra einnig heimilt að breyta og uppfæra flokkun sjúkdóma eftir því sem við á. Í 17. gr. laganna er kveðið á um að ríkissjóður greiði kostnað vegna einangrunar búfjár sem ákveðin er til varnar sjúkdómum sem tilgreindir eru í núgildandi viðauka 1A ásamt öðrum kostnaðarþáttum sem kveðið er á um í ákvæðinu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sjúkdómarnir verði framvegis tilgreindir í reglugerð sem alvarlegir tilkynningarskyldir sjúkdómar. Kostnaður ríkissjóðs vegna fyrrnefndra ákvæða mun eftir sem áður verða greiddur af fjárlagalið 04-851 Greiðslur vegna varna gegn dýrasjúkdómum og er fjárheimild liðarins 47,3 m.kr. í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014. Eðli málsins samkvæmt er kostnaður af þessum toga yfirleitt ekki fyrirsjáanlegur en ekki er þó ástæða til að ætla að hann taki breytingum með þeirri tilhögun sem lögð er til í frumvarpinu.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs vegna varna gegn dýrasjúkdómum.