Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 66. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 160  —  66. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Margréti Gauju Magnúsdóttur
um meðhöndlun úrgangs.


     1.      Telur ráðherra að söfnun úrgangs frá heimilum eigi að vera á forræði sveitarfélaga eða fyrirtækja á almennum markaði?
    Um meðhöndlun úrgangs gilda lög nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Í lögunum er meðhöndlun úrgangs skilgreind með eftirfarandi hætti: söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim hefur verið lokað. Skv. 5. mgr. 4. gr. laganna skal sveitarstjórn ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi. Þá ber sveitarstjórn ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Enn fremur er sveitarstjórn heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og skal gjaldið aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs, sbr. 11. gr. laganna.
    Samkvæmt framansögðu er ljóst að lög um meðhöndlun úrgangs leggja tilteknar skyldur á sveitarfélög er varða söfnun úrgangs. Að mati ráðuneytisins kveða lög um meðhöndlun úrgangs hins vegar ekki á um að söfnun úrgangs skuli einungis vera á forræði sveitarfélaga enda er gert ráð fyrir að lögaðilar geti öðlast starfsleyfi fyrir meðhöndlun úrgangs, sbr. 2. gr. laga nr. 55/2003 og 5. gr. a laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Fyrirtæki á almennum markaði hafa um langa hríð safnað úrgangi á landinu og í sífellt auknum mæli tekið að sér söfnun úrgangs frá heimilum fyrir hönd sveitarfélaga víðs vegar um landið.
    Við meðhöndlun úrgangs er þýðingarmest að hún valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og mengi ekki vatn, jarðveg né andrúmsloft. Sú þróun síðustu ára, að fyrirtæki á almennum markaði safni úrgangi frá heimilum, hefur tekist vel að mati ráðuneytisins og stuðlað að aukinni flokkun úrgangs og vitundarvakningu almennings um gagnsemi þess að flokka úrgang.

     2.      Telur ráðherra að aukin endurvinnsla á heimilisúrgangi skuli ákveðin af sveitarstjórnum samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003?
    Líkt og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar skal sveitarstjórn ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi. Við slíka ákvörðun þarf sveitarstjórn að taka mið af ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs og reglugerða settra samkvæmt þeim. Í 10. gr. laga nr. 55/2003 kemur fram að færa skuli allan úrgang til meðhöndlunar í söfnunar- eða móttökustöð og að hann skuli fá viðeigandi meðferð áður en til förgunar kemur. Skv. 12. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs skal ávallt leita leiða til að endurnota eða endurnýta úrgang. Lausnir í úrgangsmálum skulu taka mið af ákveðinni röðun sem er að í forgangi er að draga úr myndun úrgangs, þá kemur endurnotkun, síðan endurnýting og loks endanleg förgun.
    Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna skal ráðherra gefa út til tólf ára í senn almenna áætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir landið allt. Áætlunin skal taka mið af lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og hafa að markmiði að draga markvisst úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurnýtingu. Í áætluninni skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála í landinu og aðgerðir eða stefnumörkun til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun. Þá skal sveitarstjórn semja og staðfesta áætlun sem gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn og skal sú áætlun fylgja markmiðum landsáætlunar. Í áætluninni skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og gerð grein fyrir því hvernig sveitarstjórn hyggst ná markmiðum landsáætlunar.
    Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laganna geta sveitarstjórnir sett sveitarfélaginu sérstaka samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, svo sem um skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang.
    Lög um meðhöndlun úrgangs og reglugerðir settar samkvæmt þeim hafa auk framangreinds ákvæði um lágmarkshlutfall sem ber að ná í tilteknum úrgangsflokkum, svo sem við söfnun, endurvinnslu og endurnýtingu. Því er ljóst að úrgangslöggjöfin hefur að geyma fjölmörg ákvæði sem stuðla að aukinni endurvinnslu sem sveitarstjórnum jafnt sem fyrirtækjum á markaði ber að líta til.

     3.      Telur ráðherra að 1. og 5. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs samræmist ákvæðum samkeppnislaga?
    Markmið með samkeppnislögum, nr. 44/2005, er að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Samkeppniseftirlitið hefur samkvæmt lögunum m.a. það hlutverk að framfylgja boðum og bönnum samkeppnislaga sem og að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni, benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaði. Að mati ráðuneytisins er það hlutverk Samkeppniseftirlitsins að taka til skoðunar tiltekin álitaefni sem upp kunna að koma varðandi framkvæmd laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með hliðsjón af ákvæðum samkeppnislaga.

     4.      Telur ráðherra að skerpa þurfi á lögum um meðhöndlun úrgangs hvað varðar ábyrgð og framkvæmd í ljósi fjölda kæra til Samkeppniseftirlitsins, t.d. vegna svokallaðrar blátunnu?
    Ráðherra hefur nýlega skipað samráðsvettvang um mótun stefnu í úrgangsstjórnun. Vettvangnum er ætlað að efla samstarf á sviði úrgangsstjórnunar og stuðla að virku samráði við hagsmunaaðila við mótun stefnu í úrgangsstjórnun.
    Með samráðsvettvangnum gefst tækifæri til að ræða úrgangsstjórnun í víðu samhengi og velta upp hugmyndum og tillögum sem nýtast við frekari stefnumótun af hálfu ráðuneytisins á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að m.a. verði rætt um landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir tímabilið 2013–2024 sem gefin var út í apríl sl. og hvernig tillögum sem þar koma fram verði best fylgt eftir. Jafnframt er gert ráð fyrir að fjallað verði um önnur tilfallandi atriði í úrgangsstjórnun.
    Við umræðu um önnur verkefni á sviði úrgangsmála í ráðuneytinu hefur verið rætt um þörf á að skerpa á ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs hvað varðar ábyrgð og framkvæmd laganna með tilliti til hlutverkaskiptingar sveitarfélaga og fyrirtækja á markaði. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að þetta verði rætt á samráðsvettvangnum.

     5.      Hyggst ráðherra leggja til breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs á þessu kjörtímabili?
    Fyrir liggur að ráðherra leggi fram frumvarp til breytingar á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, hvað varðar innleiðingu á tilskipun 2008/98/EB um úrgang og um niðurfellingu tiltekinna tilskipana, svokallaða úrgangstilskipun, auk annarra breytinga. Frekari breytingar á lögunum hafa ekki verið ákveðnar.