Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 144. máls.

Þingskjal 162  —  144. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007,
lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lögum um málefni aldraðra,
nr. 125/1999, með síðari breytingum (leiðbeiningar- og
upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Í stað „52. gr.“ í 3. og 4. málsl. 5. mgr. kemur: 39. og 40. gr.
     b.      Í stað „52. gr.“ í 6. mgr. kemur: 40. gr.
     c.      Í stað „52. gr.“ í 9. mgr. kemur: 39., 40. og 46. gr.

2. gr.

    V. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Leiðbeiningar- og upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir, orðast svo ásamt fyrisögnum og millifyrirsögnum:

    a. (37. gr.)

A. Leiðbeiningar- og rannsóknarskylda.
Leiðbeiningarskylda.

    Tryggingastofnun ríkisins skal kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfar eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skulu staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skal leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfa að fylgja umsókn og um framhald málsins.
    Nú varðar erindi ekki starfssvið stofnunarinnar og skal það þá framsent á réttan stað svo fljótt sem auðið er og viðkomandi leiðbeint eftir því sem unnt er.

    b. (38. gr.)

Rannsóknarskylda.

    Tryggingastofnun skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir.

    c. (39. gr.)

B. Upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir.
Upplýsingaskylda umsækjenda og greiðsluþega.

    Umsækjanda eða greiðsluþega er rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá er skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.
    Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um maka umsækjanda eða greiðsluþega eftir því sem við getur átt.

    d. (40. gr.)

Upplýsingar um tekjur.

    Tryggingastofnun ríkisins er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda og greiðsluþega, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og greiðslur hjá lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun og sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við með rafrænum hætti eða á annan hátt.
    Þegar um hjón er að ræða er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu skriflegu samþykki beggja, að afla upplýsinga um tekjur maka og greiðslur til hans hjá framangreindum aðilum ef þær gætu haft áhrif á fjárhæð bóta. Sama gildir um tekjur sambúðarfólks sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun skv. 3. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt.
    Telji umsækjandi, greiðsluþegi eða maki upplýsingar frá þessum aðilum ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar.

    e. (41. gr.)

Skortur á upplýsingum.

    Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur, skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar og gera honum grein fyrir afleiðingum þess ef áskorun um að veita upplýsingar er ekki sinnt.

    f. (42. gr.)

Upplýsingaskylda heilbrigðisstarfsmanna.

    Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem bera ábyrgð á vörslu sjúkraskráa, sbr. lög um sjúkraskrár, er skylt að veita læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar þær upplýsingar og gögn sem stofnuninni eru nauðsynleg vegna ákvörðunar um greiðslu bóta og vegna eftirlitshlutverks hennar. Þá er læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem nauðsynlegt er vegna eftirlits og reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt.

    g. (43. gr.)

Upplýsingaskylda annarra aðila.

    Skattyfirvöld, Vinnumálastofnun, Þjóðskrá Íslands, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Fangelsismálastofnun, Útlendingastofnun, lífeyrissjóðir, sjúkrastofnanir, dvalar- og hjúkrunarheimili, sveitarfélög, Lánasjóður íslenskra námsmanna, viðurkenndar menntastofnanir innan hins almenna menntakerfis og skólar á háskólastigi skulu láta Tryggingastofnun í té upplýsingar með rafrænum hætti eða á annan hátt að því marki sem slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar til að unnt sé að framfylgja lögum þessum.
    Þá skulu Tryggingastofnun og sjúkratryggingastofnunin á sama hátt skiptast á upplýsingum um mat á örorku og öðrum upplýsingum að því marki sem þær eru nauðsynlegar við framkvæmd laganna.

    h. (44. gr.)

Upplýsingaskylda án endurgjalds.

    Upplýsingar og gögn sem Tryggingastofnun óskar eftir og unnt er að láta í té skulu veittar án endurgjalds, sbr. þó 20. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu, og í því formi sem óskað er, enda liggi fyrir heimild um öflun þessara upplýsinga samkvæmt ákvæðum þessa kafla.

    i. (45. gr.)

Eftirlit og viðurlög.

    Tryggingastofnun skal reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Stofnuninni er heimilt í þágu eftirlits að óska eftir upplýsingum og gögnum frá þeim aðilum sem taldir eru upp í 43. gr. og nauðsynleg eru til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna.
    Grundvöll bótaréttar má endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa á aðstæðum greiðsluþega.
    Leiki rökstuddur grunur á að bótaréttur sé ekki fyrir hendi er heimilt að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi. Um ofgreiðslur og vangreiðslur fer skv. 55. gr.
    Leiki rökstuddur grunur á að bætur séu greiddar á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga frá greiðsluþega er heimilt að afla upplýsinga frá þriðja aðila sem ætla má að geti veitt upplýsingar er máli skipta í því skyni að leiðrétta bótagreiðslur.
    Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skal greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.

    j. (46. gr.)

C. Vernd persónuupplýsinga.

Þagnarskylda og meðferð persónuupplýsinga.

    Starfsfólki Tryggingastofnunar og umboðsskrifstofa hennar er óheimilt að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra frá upplýsingum sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Þagnarskyldan gildir einnig um stjórn Tryggingastofnunar og þá sem sinna verkefnum fyrir stofnunina en eru ekki starfsmenn hennar.
    Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skal Tryggingastofnun gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Stofnunin skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt við sendingu og meðferð upplýsinga og setja skal öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Þá skal stofnunin jafnframt gæta ákvæða laga um sjúkraskrár eftir því sem við á.

    k. (47. gr.)
    Ákvæði þessa kafla eiga við um sjúkratryggingastofnunina vegna framkvæmdar á IV. kafla laga þessara, eftir því sem við á.

3. gr.

    52. gr. laganna orðast svo:
    Sækja skal um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögum þessum. Þó þurfa þeir sem fá greiddan örorkulífeyri ekki að sækja sérstaklega um ellilífeyri skv. 17. gr. þegar þeir ná 67 ára aldri.
    Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar með rafrænum hætti sem stofnunin telur fullnægjandi. Við afgreiðslu umsóknar skal þess gætt að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir, sbr. 38. gr., svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Sérstaklega skal þess gætt að umsækjandi, sem áunnið hefur sér rétt hjá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, hafi lagt fram umsókn um áunnin réttindi hjá viðkomandi lífeyrissjóðum og er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til upplýsingar um það liggja fyrir, sbr. 41. gr.
    Við meðferð máls og afgreiðslu umsóknar er Tryggingastofnun heimilt að afla upplýsinga frá þeim aðilum sem tilgreindir eru í 43. gr. sem og skv. 4. mgr. 45. gr. sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Sama á við um nauðsynlegar upplýsingar hjá stofnunum erlendis þegar það á við.
    Tryggingastofnun getur aflað upplýsinga skv. 3. mgr. með rafrænum hætti eða á annan hátt. Tryggja skal að upplýsingaöflun og úrvinnsla gangi ekki lengra en þörf krefur til að unnt sé að framkvæma lögin.
    Ákvæði þessarar greinar eiga við um sjúkratryggingastofnunina eftir því sem við á.

4. gr.

    3. mgr. 53. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
     a.      Í stað „52. gr.“ í 2. mgr. kemur: 39. gr.
     b.      Í stað „3. mgr. 52. gr.“ í 4. mgr. kemur: 41. gr.
     c.      5. mgr. fellur brott.

II. KAFLI
6. gr.

Breyting á lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

    Í stað „52. og 55. gr.“ í 2. málsl. 13. gr. laganna kemur: 39., 40., 46. og 55. gr.

III. KAFLI

Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
     a.      Í stað „52. gr.“ í 5. mgr. kemur: 39. og 40. gr.
     b.      Í stað „52. gr.“ í 6. mgr. kemur: 40. gr.
     c.      Í stað „52. gr.“ í 9. mgr. kemur: 39. og 40. gr.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Á 142. löggjafarþingi voru samþykkt lög nr. 86/2013, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum (frítekjumörk og tekjutengingar). Í 2. gr. þess frumvarps er varð að lögum nr. 86/2013 var m.a. kveðið á um eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar ríkisins og ýmis önnur atriði sem gert er ráð fyrir í 2. gr. þess frumvarps sem nú er lagt fram, en með nokkrum breytingum. Í álitum velferðarnefndar um frumvarp það sem varð að lögum nr. 86/2013 kom fram að ljóst væri að Tryggingastofnun þyrfti á auknum eftirlitsheimildum að halda en að í ljósi athugasemda sem fram komu við meðferð málsins, einkum frá Persónuvernd, væri talið að vinna við ný ákvæði um eftirlitsheimildir krefðist aukins tíma. Um vandmeðfarnar heimildir væri að ræða sem krefðust þess að lagaákvæðin væru vel útfærð og tryggja þyrfti réttaröryggi viðskiptavina stofnunarinnar. Var þeim tilmælum beint til velferðarráðuneytisins að endurskoða þessi ákvæði með hliðsjón af athugasemdunum og var 2. gr. því felld brott úr frumvarpinu. Í frumvarpi þessu er því fjallað um sömu atriði og gert var í áðurnefndu frumvarpi en ákvæðin hafa verið endurskoðuð með hliðsjón af athugasemdunum auk þess sem skýrar er kveðið á um réttindi og skyldur borgaranna í samskiptum við Tryggingastofnun.

II. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á gildandi ákvæðum almannatryggingalaga um réttindi borgaranna og skyldur þeirra í samskiptum við Tryggingastofnun og kveðið skýrar á um eftirlitshlutverk stofnunarinnar. Kveðið er heildstætt á um leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu, rannsóknarskyldu, þagnarskyldu, meðferð persónuupplýsinga og eftirlit og viðurlög í sérstökum kafla. Tekið hefur verið mið af athugasemdum velferðarnefndar er fram komu í nefndarálitum við umfjöllun um frumvarp það er varð að lögum nr. 86/2013, sbr. aðallega ákvæði g- og i-liða 2. gr. frumvarpsins. Þá hefur sérstaklega verið horft til umsagnar Persónuverndar og litið til skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum frá febrúar 2013. 1 Eru m.a. þeir aðilar sem upplýsingaskylda hvílir á nú tæmandi taldir auk þess sem tilgreindar eru sérstaklega þær upplýsingar sem afhenda skal Tryggingastofnun í tengslum við afgreiðslu umsókna og í þágu eftirlits. Einnig eru lagðar til breytingar er lúta að nauðsynlegri upplýsingaöflun Tryggingastofnunar til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og hnykkt á mikilvægi þess að samhliða umsókn um greiðslur frá almannatryggingakerfinu sé sótt um áunnin réttindi hjá skyldubundnum lífeyrissjóðum.
    Í II. og III. kafla frumvarpsins er tilvísunum í lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, til ákvæða í lögum um almannatryggingar breytt til samræmis við 2. gr. frumvarpsins.

III. Samráð.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við Tryggingastofnun sem annast framkvæmd lífeyristrygginga og Sjúkratryggingar Íslands sem annast framkvæmd slysatrygginga samkvæmt lögunum. Þá var litið til nefndarálita velferðarnefndar um frumvarp það er varð að lögum nr. 86/2013 og umsagnar Persónuverndar. Einnig hefur verið tekið mið af þeim athugasemdum og ábendingum er komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum og höfð var hliðsjón af sambærilegum ákvæðum í almannatryggingalögum norrænu ríkjanna, einkum Noregs.

IV. Mat á áhrifum.
    Ákvæði stjórnsýslulaga og laga um persónuvernd gilda um samskipti borgaranna við Tryggingastofnun og um meðferð stofnunarinnar á persónuupplýsingum. Í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, er kveðið á um mikilvæg réttindi borgaranna og annast Tryggingastofnun framkvæmd laganna. Því er talið nauðsynlegt að kveða skýrt á um réttindi borgaranna og skyldur þeirra í samskiptum við stofnunina í lögunum, sérstaklega hvað varðar leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu, meðferð persónuupplýsinga og þagnarskyldu. Áhrifin felast fyrst og fremst í auknu réttaröryggi borgaranna og auknu gagnsæi vegna skýrari ákvæða um réttindi og skyldur. Þá eru ítarlegri ákvæði um eftirlitsskyldur Tryggingastofnunar og um samspil við áunnin réttindi hjá lífeyrissjóðum talin stuðla að því að koma í veg fyrir rangar ákvarðanir, draga úr of- og vangreiðslum og sviksamlegu athæfi auk þess að vera í samræmi við réttarvitund almennings. Aðrar þjóðir, t.d. Norðurlandaþjóðir, hafa ítarlegri ákvæði og heimildir hvað varðar aðhald og eftirlit sem talin eru til þess fallin að auka tiltrú almennings á almannatryggingakerfinu og fela í sér betri nýtingu á almannafé. Krafa er um að farið sé með fjármagn hins opinbera í samræmi við lög og reglur og til að svo megi vera er talið mikilvægt að opinberar stofnanir, þar á meðal Tryggingastofnun, hafi nægjanlegar heimildir til upplýsingaöflunar. Hefur Ríkisendurskoðun m.a. bent á þetta í fyrrnefndri skýrslu sinni um eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins með bótagreiðslum. Þá er talið að frumvarpið sé til þess fallið að styrkja betur þá skipan sem komið hefur verið á fót hér á landi, þ.e. að hlutverk almannatryggingakerfisins sé að tryggja öllum tryggðum ákveðið lágmark og viðunandi afkomu og hafi þannig félagslegt markmið sem endurspeglist í tekjutengdum lífeyrisgreiðslum almannatrygginga úr ríkissjóði.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi bein áhrif á jafnrétti kynjanna, en karlar og konur hafa sömu réttindi og bera sömu skyldur samkvæmt ákvæðum almannatryggingalaga. Ekki er talið að frumvarpið sé til þess fallið að hafa áhrif á möguleika einstaklinga eða fyrirtækja til að hafa samskipti þvert á norræn landamæri. Þá er ekki búist við því að frumvarpið hafi neikvæð fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög. Í kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins er fjallað um kostnaðaráhrif þess fyrir fjárhag ríkisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Nýr kafli, V. kafli, bætist við lögin þar sem fjallað er skýrar og ítarlegar en í gildandi lögum um leiðbeiningar og rannsóknarskyldu, upplýsingaskyldu, eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar, þagnarskyldu og meðferð persónuupplýsinga. Lagðar eru til nýjar greinar í liðum a–k sem gert er ráð fyrir að komi í stað 2.–5. mgr. 52. gr. og 5. mgr. 55. gr. gildandi laga.
    Um a-lið (37. gr.).
    Í ákvæðinu er kveðið á um leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar. 1. málsl. ákvæðisins er efnislega samhljóða 1. málsl. 4. mgr. 52. gr. núgildandi laga en hér er þó lagt til að orðin,,til hlítar“ falli brott enda er stofnuninni eftir sem áður skylt að kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega eins og kostur er. Þá er lagt til að leiðbeiningarskylda stofnunarinnar verði rýmkuð á þann hátt að nú sé stofnuninni ekki eingöngu skylt að gera umsækjanda og bótaþega grein fyrir rétti sínum samkvæmt lögum um almannatryggingar heldur einnig öllum öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir, t.d. barnalögum.
    2. og 3. málsl. 1. mgr. ákvæðisins eru nýmæli. Í 2. málsl. er kveðið á um að stofnuninni sé skylt að skoða stöðu og réttindi umsækjanda eða bótaþega í heild. Er þetta m.a. gert til að koma í veg fyrir að umsækjandi eða bótaþegi fari á mis við réttindi sem hann gæti átt tilkall til. Þá er kveðið á um að stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfa að fylgja umsókn sem og framhald málsins.
    2. mgr. er einnig nýmæli en þar er kveðið á um að berist erindi sem ekki varðar starfssvið Tryggingastofnunar, skuli það framsent á réttan stað svo fljótt sem auðið er og viðkomandi leiðbeint eftir því sem unnt er. Slík leiðbeining getur m.a. falið í sér ráðgjöf um hvert umsækjandi eða annar aðili geti leitað með erindi sitt, en getur að sjálfsögðu ekki falið í sér ráðgjöf varðandi réttindi sem heyra undir önnur stjórnvöld eða aðrar stofnanir. Er það talið vera í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga um að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess.
    Um b-lið (38. gr.).
    Ákvæðið er nýmæli en í því er kveðið á um rannsóknarskyldu Tryggingastofnunar áður en ákvörðun er tekin um bótarétt. Ákvæðið er í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.
    Um c-lið (39. gr.).
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga en hefur verið umorðað til þess að gera það skýrara. Þá er einnig lagt til að tekið verði upp í lögin að umsækjanda og bótaþega sé skylt að taka þátt í meðferð máls til þess leggja áherslu á mikilvægi þess að þeim beri að taka virkan þátt í meðferð mála sinna hjá stofnuninni, einkum með því að veita þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka ákvarðanir um bótarétt, fjárhæð bóta, greiðslur og endurskoðun þeirra. Sama á við ef breytingar verða sem geta haft áhrif á bótarétt eða fjárhæð greiðslna. Þá er gert ráð fyrir því að Tryggingastofnun geti boðað umsækjanda eða bótaþega í viðtal í því skyni að afla nánari upplýsinga eða skýringa á atriðum sem kunna að vera óljós eða óupplýst og eftir atvikum til að sannreyna bótarétt viðkomandi.
    Í 2. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga er kveðið á um að maka umsækjanda og bótaþega sé skylt að veita upplýsingar um sig ef þær kunna að hafa áhrif á fjárhæð bóta. Hér er lagt til í 2. mgr. ákvæðisins að ákvæði um upplýsingaskyldu skuli gilda um maka bótaþega og umsækjanda eftir því sem við getur átt.
     Um d-lið (40. gr.).
    1. mgr. er byggð á 3. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga en með breyttu orðalagi.
    Fyrri málsliður 2. mgr. er efnislega samhljóða 5. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga. Í síðari málslið ákvæðisins er gert ráð fyrir að upplýsingaskyldan gildi einnig um tekjur sambúðarfólks ef skilyrði í 3. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, fyrir samsköttun eru uppfyllt. Að öðrum kosti á upplýsingaskylda um tekjur sambúðaraðila ekki við enda ekki gert ráð fyrir að tekjur sambúðaraðila hafi nein áhrif á útreikning bóta þegar svo háttar til.
    3. mgr. er samhljóða 7. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga. Ákvæðið er í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar, en eðli málsins samkvæmt er stofnuninni nauðsynlegt að hafa tiltækar upplýsingar um tekjur umsækjenda og bótaþega þegar um tekjutengdar bætur er að ræða. Í upphafi þarf að afla samþykkis umsækjanda og er það gert á umsóknareyðublaði þar sem umsækjandi heimilar stofnuninni að afla upplýsinga um tekjur sínar. Hjá þeim sem þegar þiggja tekjutengdar bætur frá stofnuninni liggur samþykkið fyrir þannig að ekki þarf að leita þess nema einu sinni. Stofnunin fær upplýsingar yfirleitt sendar með rafrænum hætti þótt upplýsingar berist einnig skriflega frá umsækjendum.
    Um e-lið (41. gr.).
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 3. mgr. 52. gr. gildandi laga en hér er einnig lagt til að Tryggingastofnun skuli gera umsækjanda eða bótaþega grein fyrir afleiðingum þess ef áskorun um að veita upplýsingarnar er virt að vettugi. Er talið mikilvægt að stofnunin geri viðkomandi skýra grein fyrir afleiðingum þessa, þ.e. að viðkomandi firri sig tímabundið rétti til bóta.
    Um f-lið (42. gr.).
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 5. mgr. 52. gr. gildandi laga en hér er lagt til að vísað verði til laga um sjúkraskrár. Hvað meðferð persónuupplýsinga varðar þá vísast til þess sem segir um j-lið.
     Um g-lið (43. gr.).
    1. mgr. er nýmæli en þar er gert ráð fyrir að þeir aðilar, stofnanir og stjórnvöld, sem þar eru taldir upp og búa yfir upplýsingum, sem geta haft áhrif á rétt til greiðslna eða fjárhæðir þeirra samkvæmt lögunum, skuli láta Tryggingastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna. Heimildir þykja of takmarkaðar í gildandi lögum og er því lagt til að þær verði rýmkaðar. Stofnuninni er nauðsynlegt að geta aflað upplýsinga frá þeim aðilum sem taldir eru upp í greininni til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu, en eðli máls samkvæmt eru margir aðilar sem búa yfir slíkum upplýsingum. Í d-lið (40. gr.) er sérstaklega kveðið á um öflun upplýsinga um tekjur en ýmsar aðrar upplýsingar geta verið nauðsynlegar, t.d. vegna mats á framkvæmd við innheimtu ofgreiddra bóta þar sem m.a. er tekið mið af eignum viðkomandi. Þá er stofnuninni nauðsynlegt að hafa aðrar upplýsingar, t.d. um búsetu eða löglega dvöl einstaklinga, virkni á vinnumarkaði og laun, nám og námslán eða greiðslur frá öðrum aðilum, svo sem atvinnuleysisbætur, sjúkradagpeninga, greiðslur úr lífeyrissjóðum eða fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum. Einnig eru upplýsingar um dvöl lífeyrisþega á sambýli, sjúkrastofnun, dvalar- eða hjúkrunarheimili eða í fangelsi nauðsynlegar vegna framkvæmdar laganna. Er hér um að ræða tæmandi talningu á þeim aðilum sem ber að veita upplýsingarnar. Í fyrrnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum kemur m.a. fram að Tryggingastofnun hafi takmarkaðri lagaheimildir til að annast eftirlit og samnýta persónuupplýsingar frá öðrum ríkisstofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum en systurstofnanir hennar í þeim löndum sem Íslendingar bera sig helst saman við. Þá segir í skýrslunni að bæta þurfi tengingar Tryggingastofnunar við upplýsingakerfi aðila sem stofnunin þarfnast upplýsinga frá til að efla skilvirka samkeyrslu upplýsinga. Bendir Ríkisendurskoðun á að t.d. í Bretlandi hafi verið vilji til að rýmka heimildir í lögum til að breskar ríkisstofnanir geti samnýtt persónuupplýsingar í auknum mæli. Þannig megi auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri ríkisins, stuðla að því að bætur rati til þeirra sem eiga rétt á þeim og koma í veg fyrir misnotkun. Í skýrslunni segir enn fremur að lög sem ekki þróist í takt við breyttar aðstæður torveldi greið upplýsingaskipti og samnýtingu mikilvægra upplýsinga fyrir bótakerfið.
    Þess ber að geta að sambærilegt ákvæði er að finna í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, þar sem ýmsum aðilum, m.a. Tryggingastofnun, er gert skylt að láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna. Þá má benda á 55. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga, þar sem heimilað er að samkeyra upplýsingar Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar, lögreglu, skattyfirvalda og þjóðskrár við vinnslu persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að tryggja að útlendingar dvelji og starfi löglega hér á landi.
    Tekið skal fram að gert er ráð fyrir því í ákvæðinu að upplýsingarnar séu ekki umfram það sem nauðsynlegt er til að unnt sé að framfylgja ákvæðum laganna. Einnig er mikilvægt að hafa í huga þagnarskyldu starfsmanna stofnunarinnar og áréttað að við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skuli stofnunin gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    2. mgr. er efnislega samhljóða 4. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga en þó er gert ráð fyrir þeirri breytingu að stofnanirnar skuli með sama hætti og um getur í 1. mgr. skiptast á þeim upplýsingum sem taldar eru nauðsynlegar við framkvæmd laganna.
     Um h-lið (44. gr.).
    Ákvæðið er nýmæli og á sér fyrirmynd í ákvæði 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en nauðsynlegt þykir vegna eftirlitshlutverks Tryggingastofnunar að stofnunin fái sem greiðastan aðgang að þeim gögnum og upplýsingum er varða bætur og greiðslur og þá ókeypis og í því formi sem hún óskar eftir. Er ákvæðinu fyrst og fremst ætlað að taka til bótaþega og umsækjanda en einnig til opinberra aðila og heilbrigðisstarfsmanna sem veitt geta upplýsingarnar. Þetta breytir þó ekki 20. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, sbr. 21. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að Tryggingastofnun standi straum af árlegum kostnaði við rekstur Þjóðskrár Íslands að 1/10 hluta. Er framlagið endurgjald stofnunarinnar fyrir not hennar á gögnum Þjóðskrár til skrárgerðar, svo og fyrir almenna þjónustu og aðstoð sem Þjóðskrá lætur Tryggingastofnun í té. Ekki er heldur gert ráð fyrir að breyting verði á núverandi framkvæmd að því er varðar læknisvottorð, t.d. í tengslum við mat á örorku.
     Um i-lið (45. gr.).
    Í greininni er kveðið á um eftirlitshlutverk Tryggingastofnunar. Stofnunin hefur eflt eftirlit til muna og fengið aukna fjármuni til þess en rétt þykir að skerpa á því í lögum að stofnunin hafi eftirlitshlutverki að gegna. Ekki er um nýtt hlutverk að ræða heldur lögfestingu á því sem eðlilegt getur talist, þ.e. að stofnunin skuli á hverjum tíma sannreyna réttmæti bóta og greiðslna, en stofnunin ráðstafar árlega stórum hluta fjárlaga. Eðli málsins samkvæmt verður stofnunin að geta sannreynt áreiðanleika gagna í þágu eftirlits og talið er mikilvægt að hún hafi til þess rýmri heimildir en samkvæmt gildandi lögum.
    1. mgr. er nýmæli þar sem fjallað er um reglubundið eftirlit af hálfu Tryggingastofnunar og lagt til að kveðið verði á um skyldu stofnunarinnar til að sannreyna reglubundið réttmæti bóta og greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggjast á. Þar segir jafnframt að Tryggingastofnun sé heimilt í þágu eftirlits að óska eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna. Er vísað til g-liðar 2. gr. frumvarpsins um það hvaða aðilum beri að afhenda stofnuninni umbeðin gögn og er um tæmandi talningu að ræða. Sem dæmi um upplýsingar sem ákvörðun um réttindi byggist á má nefna búsetu bótaþega, en tryggingarvernd og ávinnsla réttinda samkvæmt almannatryggingalögunum byggist á búsetu hér á landi í skilningi lögheimilislaga nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. einnig 12. gr. laganna. Mikilvægt er að stofnunin geti sannreynt að upplýsingar, m.a. um búsetu bótaþega/umsækjanda eða þeirra sem safna réttindum til töku lífeyris á grundvelli búsetu, séu réttar. Er þá bæði átt við búsetu á Íslandi og í öðrum ríkjum. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. gildandi laga, sbr. einnig reglugerð nr. 463/1999, um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá, með síðari breytingu, ákvarðar Tryggingastofnun hvort einstaklingur teljist tryggður hér á landi samkvæmt lögunum og heldur sérstaka tryggingaskrá um tryggingaréttindi einstaklinga sem er til viðbótar við þjóðskrá. Gögn Þjóðskrár Íslands mynda stofn tryggingaskrár Tryggingastofnunar og greiðir stofnunin bætur á grundvelli lögheimilisskráningar Þjóðskrár. Tryggingastofnun berast einnig oft gögn sem stangast á við lögheimilisskráningu Þjóðskrár. Er nauðsynlegt að stofnunin geti kannað réttmæti slíkra upplýsinga til þess að geta greitt réttar bætur enda er það hlutverk hennar að ákvarða endanlega hvort einstaklingur teljist tryggður hér á landi á grundvelli 12. gr. almannatryggingalaga.
    Þá vísast til athugasemda við g-lið 2. gr. frumvarpsins hvað varðar þörf Tryggingastofnunar fyrir annars konar upplýsingar til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu og eftirlitsskyldu, en líkt og Ríkisendurskoðun bendir á í fyrrgreindri skýrslu sinnir Tryggingastofnun eftirliti m.a. með samanburði gagna. Þykja gildandi lagaákvæði takmarka mjög möguleika stofnunarinnar til að samkeyra upplýsingar frá öðrum stofnunum.
    2. mgr. er efnislega samhljóða 3. mgr. 53. gr. gildandi laga en þar er fjallað um endurskoðun á grundvelli bótaréttar og samræmingu bóta við áorðnar breytingar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að heimilt sé, þegar rökstuddur grunur leikur á því að bótaréttur sé ekki fyrir hendi, að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar. Í þessum tilvikum ber að flýta málsmeðferð svo sem kostur er og gæta meginreglna stjórnsýslulaga, svo sem um meðalhóf. Þá er bætt við ákvæði um að komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi skuli stöðva greiðslur og að um ofgreiðslur og vangreiðslur fari skv. 55. gr.
    Ákvæði 4. mgr. er nýmæli. Þar er fjallað um þau tilvik þegar rökstuddur grunur leikur á að bætur séu greiddar á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga. Er átt við allar þær aðstæður sem haft geta áhrif á rétt til bóta eða fjárhæðir bóta, t.d. hjúskaparstöðu, búsetu eða búsetutíma, tekjur o.fl. Kveðið er á um heimild Tryggingastofnunar til að afla upplýsinga ef grunur leikur á að verið sé að greiða út bætur á grundvelli rangra upplýsinga. Í því skyni getur reynst nauðsynlegt að afla upplýsinga frá þriðja aðila um aðstæður bótaþega, en hér er sérstaklega átt við aðra aðila en þá sem skyldugir eru til að veita upplýsingar, t.d. leikskóla, leigusala húsnæðis, stjórnir húsfélaga eða vinnuveitendur.
    Í 5. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar greiðslur hafa átt sér stað vegna vísvitandi rangrar eða ófullnægjandi upplýsingagjafar eða upplýsingaskorts. Í þeim tilvikum er lagt til að hin ofgreidda fjárhæð skuli endurgreidd að viðbættu 15% álagi. Kemur það í stað 5. mgr. 55. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um greiðslu dráttarvaxta ef um sviksamlegt atferli er að ræða og er sú breyting í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og 17. gr. laga nr. 138/1997, um húsaleigubætur. Hér er þó aðeins gert ráð fyrir álagi á hina ofgreiddu fjárhæð ef um sviksamlegt atferli móttakanda greiðslnanna er að ræða. Tryggingastofnun er eftir sem áður heimilt að kæra mál til lögreglu.
    Um j-lið (46. gr.).
    Í 1. mgr. er kveðið á um þagnarskyldu starfsfólks Tryggingastofnunar og umboða hennar. Greinin er efnislega samhljóða 4. mgr. 52. gr. gildandi laga en kveðið er ítarlegar á um þau atriði. Tryggingastofnun fer með mjög viðkvæmar upplýsingar og því mikilvægt að starfsfólk sé vel upplýst um þagnarskyldu sína og þá ábyrgð sem því fylgir að skýra frá upplýsingum sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara.
    2. mgr. er nýmæli þar sem fram kemur að þagnarskyldan eigi einnig við um stjórn stofnunarinnar og þá sem sinna verkefnum fyrir stofnunina. Hér geta t.d. átt í hlut verktakar sem vinna að upplýsingatækniverkefnum fyrir stofnunina.
    3. mgr. er efnislega samhljóða lokamálslið 5. mgr. 52. gr. gildandi laga, auk þess sem bætt hefur verið við ákvæði um öryggi, öryggisstefnu og áhættumat, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 104/2013, um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, með síðari breytingum.
    Um k-lið (47. gr.).
    Þar sem lög um almannatryggingar taka bæði til lífeyristrygginga og slysatrygginga er þess sérstaklega getið að ákvæði IV. kafla eigi, eftir því sem við á, um sjúkratryggingastofnunina vegna framkvæmdar á slysatryggingakafla almannatryggingalaga.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til fjórar nýjar málsgreinar sem lagt er til að komi í stað 1. mgr. 52. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um þá meginreglu að bætur og greiðslur samkvæmt lögunum séu ekki greiddar sjálfkrafa heldur þurfi að sækja um þær og veita nánar tilgreindar upplýsingar. Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. mgr. 52. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að umsóknir skuli vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar stofnuninni með rafrænum hætti sem hún telur fullnægjandi, t.d. um þjónustuvef hennar. Ákvæðið er því efnislega samhljóða 1. mgr. 52. gr. núgildandi laga en síðari málsliður ákvæðisins, þar sem mælt er fyrir um að umsókn skuli fylgja öll nauðsynleg gögn, er nýmæli til frekari áréttingar þess að aðeins er hægt að afgreiða umsóknir ef öll nauðsynleg gögn liggja fyrir. Þá er bætt við nýjum málslið þess efnis, að þess skuli gætt sérstaklega að umsækjandi, sem áunnið hefur sér rétt hjá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, hafi lagt fram eða leggi fram samhliða umsókn um áunnin réttindi hjá viðkomandi lífeyrissjóðum þegar sótt er um greiðslur frá almannatryggingum. Er lagt til að Tryggingastofnun verði heimilað að fresta afgreiðslu umsóknar þar til þær upplýsingar liggja fyrir, sbr. e-lið 2. gr. frumvarpsins. Er það mikilvægur liður í því að draga úr of- eða vangreiðslum bóta vegna ófullnægjandi gagna við afgreiðslu umsókna. Þá er talið mikilvægt að styrkja þá skipan sem hér hefur verið komið á fót með lögum að lífeyriskerfið hér á landi hvíli á tveimur meginstoðum. Annars vegar er um að ræða lögbundið almannatryggingakerfi með grunnréttindum er tryggir ákveðinn lágmarkslífeyri, sérstaklega þeim sem ekkert eða stopult hafa verið á vinnumarkaði, og hins vegar lögbundið lífeyrissjóðakerfi er tryggir öllum á vinnumarkaði ákveðið hlutfall af tekjum viðkomandi á starfsævinni með greiðslu iðgjalds í lífeyrissjóð. Lífeyrir almannatrygginga hefur félagslegt markmið og er ætlað að tryggja einstaklingum lágmarksgreiðslur til framfærslu hafi þeir litlar aðrar tekjur og vinna þannig gegn fátækt. Því eru greiðslur almannatrygginga tekjutengdar og hafa lífeyrissjóðstekjur áhrif á heildargreiðsluna. Þegar einstaklingur sækir um lífeyri almannatrygginga úr ríkissjóði vegna aldurs eða skertrar starfsgetu er því talið mikilvægt að sótt sé samtímis um lífeyri frá lögbundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum sem viðkomandi hefur greitt skyldubundið iðgjald til lögum samkvæmt og á þann hátt áunnið sér rétt til atvinnutengds lífeyris. Vegna félagslegs eðlis almannatryggingalífeyrisins er ekki talið réttmætt að einstaklingur geti fengið hærri greiðslur frá almannatryggingum eingöngu með því að fresta því að sækja um áunnin lífeyrisréttindi hjá skyldubundna atvinnutengda lífeyrissjóðakerfinu. Kjósi einstaklingur aftur á móti að seinka töku lífeyris þyrfti það að vera gagnvart báðum meginstoðum lífeyriskerfisins á sama tíma.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að Tryggingastofnun geti aflað þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Er það einnig í samræmi við c-lið 2. gr. frumvarpsins sem kveður á um skyldu umsækjanda eða greiðsluþega til að taka þátt í meðferð máls. Bótaréttur samkvæmt almannatryggingalögum byggist fyrst og fremst á búsetutíma, tekjum, hjúskaparstöðu og heimilisaðstæðum viðkomandi. Beinn aðgangur stofnunarinnar að þessum upplýsingum hjá öðrum stofnunum og stjórnvöldum er forsenda þess að Tryggingastofnun geti framfylgt lögunum og þar með sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Í gildandi lögum er ekki að finna heimildir til handa stofnuninni til að afla beint annarra upplýsinga en tekjuupplýsinga án milligöngu umsækjenda eða bótaþega og þykir nauðsynlegt að bæta úr því og taka fram að stofnunin geti eftir atvikum nálgast þær upplýsingar með rafrænum hætti. Samkvæmt a–d- liðum 2. gr. frumvarpsins er skýrt að réttur til greiðslna byggist á framangreindum atriðum sem verða að vera til staðar og unnt að staðreyna áður en ákvörðun um greiðslu bóta er tekin. Þeim sem kjósa að óska eftir lífeyri eða öðrum greiðslum almannatrygginga er samkvæmt framansögðu skylt að taka þátt í meðferð máls og er því gengið út frá því að með umsókn um bætur sé umsækjanda ljóst að Tryggingastofnun muni afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til þess að geta afgreitt umsóknina. Má gera ráð fyrir að rafræn öflun upplýsinga geti auðveldað umsækjendum umsóknarferlið og sparað þeim fjármuni þar sem Tryggingastofnun mun geta aflað allra nauðsynlegra upplýsinga vegna ákvarðanatöku um bótarétt. Í þessu sambandi ber einnig að hafa í huga að umsýsla Tryggingastofnunar vegna lífeyrisgreiðslna er mjög umfangsmikil. Ekki er einungis um að ræða afgreiðslu nýrra umsókna heldur einnig ýmiss konar samskipti við lífeyrisþega vegna breytinga á forsendum, svo sem tekjum eða heimilisaðstæðum, auk endurreiknings og uppgjörs bóta á hverju ári. Stofnuninni er ómögulegt að framkvæma lögin og greiða lífeyri tímanlega ef hún á að taka á móti pappírsgögnum frá lífeyrisþegum um öll framangreind atriði og slá þau inn handvirkt.
    Í 4. mgr. er tekið sérstaklega fram að upplýsinga skv. 3. mgr. megi afla með rafrænum hætti eða á annan hátt, líkt og gildir um upplýsingar um tekjur, sbr. 1. mgr. d-liðar 2. gr. Rafræn upplýsingamiðlun stuðlar því að réttari bótagreiðslum, hraðari afgreiðslu og betri þjónustu stofnunarinnar við viðskiptavini sína. Það skal áréttað sérstaklega að slík öflun persónuupplýsinga er einungis heimil að því marki sem nauðsynlegt er með hliðsjón af lögbundnu hlutverki Tryggingastofnunar. Um meðferð á persónuupplýsingum fer eftir lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og á það einnig við um eftirlit Persónuverndar með vinnslu persónuupplýsinga hjá stofnuninni, sbr. einnig j-lið 2. gr. frumvarpsins og athugasemdir við það ákvæði. Tekið er sérstaklega fram að tryggja skuli að upplýsingaöflun og úrvinnsla gangi ekki lengra en þörf krefur til að unnt sé að framfylgja lögunum.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að ákvæði greinarinnar eigi við um sjúkratryggingastofnunina eftir því sem við á.

Um 4.–8. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum (leiðbeiningar- og upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir).

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum er varða starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins (TR) og ákvæðum um réttindi borgaranna og skyldur þeirra í samskiptum við stofnunina. Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu stofnunarinnar auk þess sem skerpt er á eftirlitshlutverki hennar og það lögfest. Þá eru lagðar til breytingar varðandi aðila sem upplýsingaskylda hvílir á og nauðsynlega upplýsingaöflun stofnunarinnar, auk þess sem tilgreindar eru þær upplýsingar sem afhenda skal stofnuninni í tengslum við afgreiðslu umsókna og í þágu eftirlits. Svipuð ákvæði voru lögð til í frumvarpi sem varð að lögum nr. 86/2013, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum. Þau ákvæði voru á hinn bóginn ekki lögfest vegna athugasemda sem bárust um málið en í þessu frumvarpi eru ákvæðin lögð fram endurskoðuð með hliðsjón af fyrrgreindum athugasemdum.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið um eftirlit TR er hér ekki um að ræða nýtt hlutverk stofnunarinnar heldur lögfestingu á eðlilegri eftirlitsstarfsemi hennar með útgreiðslum úr ríkissjóði og réttri ákvörðun bóta. Af þeim sökum er ekki gert ráð fyrir að lögleiðing þessara ákvæða hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs heldur ráðist það fremur af stefnu og áherslum velferðarráðuneytisins hvað varðar eftirlit með hugsanlegum bótasvikum og þeim fjármunum sem varið verður til þess í fjárlögum. Í þessu sambandi er rétt að nefna að í tilefni af þessum áformum, auk ábendinga Ríkisendurskoðunar um að efla þurfi þetta eftirlit stofnunarinnar, er í frumvarpi til fjárlaga 2014 lögð til 74,2 m.kr. hækkun framlaga til TR á næsta ári. Á móti þeirri útgjaldaaukningu er gert ráð fyrir að útgjöld tiltekinna bótaflokka almannatrygginga lækki um a.m.k. jafnháa fjárhæð vegna leiðréttinga á ofgreiðslum þannig að nettóútgjöld ríkissjóðs muni ekki aukast. Þessi útgjaldalækkun einstakra bótaflokka telst vera fremur varfærin áætlun stofnunarinnar á þeim ávinningi sem kann að nást með auknu eftirliti.
    Gangi framangreindar áætlanir eftir um lækkun útgjalda bótaflokka almannatrygginga í kjölfar betra eftirlits mun lögfesting frumvarpsins ekki leiða til breytinga á afkomu ríkissjóðs frá því sem nú er gert ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014.

Neðanmálsgrein: 1
    1 www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/Eftirlitsheimildir_14_02_2013.pdf