Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 22. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 167  —  22. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hildi Sverrisdóttur Röed og Steinunni Margréti Lárusdóttur frá velferðarráðuneyti. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Persónuvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Tryggingastofnun ríkisins og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að nýr Norðurlandasamningur um almannatryggingar, sem gerður var í Bergen 12. júní 2012, öðlist lagagildi hér á landi þegar samningurinn hefur tekið gildi. Þingsályktun um fullgildingu samningsins var samþykkt á Alþingi 15. mars 2013. Skv. 2. mgr. 16. gr. samningsins öðlast hann gildi fyrsta dag þriðja mánaðar frá því að ríkisstjórnir á Norðurlöndum hafa tilkynnt dönsku ríkisstjórninni um að öll skilyrði séu uppfyllt fyrir gildistöku hans. Fyrir nefndinni kom fram að á fundi norrænu almannatrygginganefndarinnar í apríl sl. var upplýst að þjóðþing Noregs, Svíþjóðar og Finnlands hefðu þegar samþykkt samninginn og sent eða mundu fljótlega senda tilkynningu til dönsku ríkisstjórnarinnar þar um. Í Danmörku er hins vegar enginn sérstakur fullgildingarferill að þessu leyti og því stendur það fyrst og fremst upp á Alþingi Íslendinga að samþykkja samninginn svo hann geti tekið gildi fyrir öll Norðurlöndin. Nefndin hefur haft þetta í huga og hraðað vinnslu málsins eins og kostur hefur verið.
    Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er löng hefð fyrir samstarfi Norðurlandanna á sviði almannatrygginga og leysir þessi samningur eldri samning af hólmi. Samningurinn byggist að mestu leyti á Norðurlandasamningnum frá 2003, sbr. lög nr. 66/2004, um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar, en helsta ástæða þess að ákveðið var að endurskoða gildandi samning var ný reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa. Samningurinn er í samræmi við reglugerðina en veitir í vissum tilvikum ríkari rétt en Evrópureglugerðin og þá geta Færeyjar og Grænland gerst aðilar að Norðurlandasamningnum en þau eru ekki aðilar að EES-samningnum og því gildir Evrópureglugerðin ekki þar.
    Vikið er að helstu nýmælum samningsins í athugasemdum við frumvarpið. Þau eru helst að fimm ára reglan sem er í núgildandi samningi mun einnig taka til sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. 10. gr. samningsins. Reglan felur í sér undanþágu frá kröfum um trygginga- eða starfstímabil hafi umsækjandi um bætur fallið undir viðkomandi löggjöf um atvinnuleysisbætur eða fengið atvinnuleysisbætur í því norræna landi þar sem sótt er um bætur á síðustu fimm árum. Þá er í samningnum ákvæði um hvernig samræma skuli greiðslur fjölskyldubóta þegar foreldrar eiga rétt til greiðslna frá fleiri en einu norrænu ríki, sbr. 11. gr. samningsins. Auk þess er samningnum ætlað að stuðla að betri samvinnu milli Norðurlandanna á sviði endurhæfingar í þeim tilvikum er einstaklingar sem hafa starfað í öðru landi en búsetulandi þurfa á endurhæfingu að halda, sbr. 12. gr. samningsins.
    Samstarf Norðurlandanna á sviði almannatrygginga er afar mikilvægt fyrir alla íbúa Norðurlandanna enda tekur samningurinn einnig til ríkisborgara utan EES-svæðisins ef þeir falla undir almannatryggingalöggjöf hvers ríkis. Norðurlandasamstarfið á sér langa sögu og er mikilvægt fyrir alla sem flytjast á milli Norðurlandanna. Stærstur hluti Íslendinga sem flytjast erlendis ákveða að flytja til Norðurlandanna og má telja að líklegt sé að víðtækt samstarf Norðurlandanna á hinum ýmsu sviðum, m.a. almannatrygginga, kunni að vega þar nokkuð þungt.
    Í umsögnum sem bárust nefndinni er fjallað nokkuð um stjórnsýsluhindranir sem norrænir borgarar mæta þegar farið er á milli Norðurlandanna. Eru þessi atriði m.a. mismunandi skilyrði fyrir greiðslu örorkubóta og hvernig þær skulu reiknaðar út, sem og hamlandi búsetuskilyrði laga í hverju landi fyrir sig. Er í því sambandi m.a. nefnt þriggja ára búsetuskilyrði laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, fyrir því að einstaklingur geti notið endurhæfingarlífeyris skv. 7. gr. sömu laga. Nefndin bendir á að það er réttur hvers ríkis, og fer eftir aðstæðum á hverjum stað og tíma, að ákveða hvaða skilyrði einstaklingar þurfa að uppfylla til að eiga rétt á greiðslum frá almannatryggingum. Sá samningur sem hér er til umfjöllunar fjallar ekki um þau skilyrði heldur um sameiginlegar reglur sem gilda um alla þá sem falla undir viðkomandi skilyrði almannatrygginga í hverju landi og ferðast milli Norðurlandanna. Engu að síður er mikilvægt að reglur séu samræmdar eins og kostur er og samstaða sé um túlkun á þeim milli svæða og landa til að tryggja réttindi fólks við flutning milli landa.
    Líkt og fram hefur komið vantar nú aðeins staðfestingu Alþingis svo samningurinn geti tekið gildi en nauðsynlegt er að lögfesta hann vegna þeirra efnisreglna sem í honum felast og ganga að vissum tilvikum lengra en íslensk lög sem byggjast á Evrópureglugerðinni. Nefndin telur því mikilvægt að málið hljóti skjóta og örugga afgreiðslu og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Katrín Júlíusdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Helgi Hrafn Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 4. nóvember 2013.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Páll Jóhann Pálsson,


frsm.


Þórunn Egilsdóttir.



Páll Valur Björnsson.


Ásmundur Friðriksson.


Elín Hirst.