Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 147. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 168  —  147. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997,
með síðari breytingum (námsmenn).

Flm.: Bjarkey Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Líneik Anna Sævarsdóttir, Haraldur Benediktsson, Valgerður Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Við 2. mgr. 4. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Námsmenn í reglulegu námi á framhalds- og háskólastigi sem vegna náms síns leigja íbúðarhúsnæði í sama sveitarfélagi og þeir eiga lögheimili í, en vegalengd frá lögheimili að skóla er meiri en 30 km, geta þrátt fyrir 1. mgr. átt rétt á húsaleigubótum. Heimilt er einnig að greiða húsaleigubætur til námsmanns þótt vegalengd milli lögheimilis og skóla sé skemmri en 30 km ef samgöngur til og frá skóla eru honum sérstaklega erfiðar, m.a. með tilliti til veðráttu og ástands vega eða vegna skorts á almenningssamgöngum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Samkvæmt lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, á nemi sem þarf að leigja íbúðarhúsnæði vegna náms síns því aðeins rétt á húsaleigubótum að hið leigða húsnæði sé í öðru sveitarfélagi en lögheimili nemans. Meðan sveitarfélög voru mörg og eftir því lítil að flatarmáli, flest hver, kom þetta ekki að sök en á þeim landsvæðum þar sem sveitarfélög hafa sameinast og orðið víðáttumikil blasir við að námsmenn í slíkum sveitarfélögum geta staðið frammi fyrir því að hljóta engar húsaleigubætur þótt svo það langt sé frá lögheimili þeirra á skólastað að þeir eru nauðbeygðir til að flytja þaðan og búa nær skóla á meðan á námi þeirra stendur. Þetta á við ef skólinn er í sama sveitarfélagi og lögheimili nemans og gildir einu þótt vegalengdin þar á milli sé langtum meiri en svo að raunhæft sé að ekið sé á milli þessara staða á degi hverjum, jafnvel um torfarinn veg, og ekki síst að vetrarlagi. Er þess og að minnast í þessu samhengi að yngstu nemarnir í framhaldsskólunum hafa ekki ökuréttindi aldurs síns vegna og ekki hafa allir skólanemar eða aðstandendur þeirra ráð á bifreiðum eða fjárhagslegt bolmagn til daglegra langferða til og frá skóla.
    Núverandi skipulag húsaleigubóta veldur því að umsókn framhaldsskólanema, sem búa langt frá skóla, jafnvel í margra tuga kílómetra fjarlægð, um húsaleigubætur er hafnað sökum þess að skóli og lögheimili eru innan sama sveitarfélags en umsókn nema úr nágrannasveitarfélagi við skóla, sem býr tiltölulega skammt frá skólastað, er samþykkt. Lagabreytingunni, sem hér er lögð til, er stefnt gegn þessu ólánlega og óréttláta fyrirkomulagi. Viðmið fyrir greiðsluheimild sveitarfélags til nema eru sótt í 4. gr. reglugerðar nr. 692/2003 um námsstyrki enda er líku saman að jafna þar sem eru námsstyrkirnir og áformaðar húsaleigubætur til skólanema sem hvort tveggja er ætlað að styðja námsmenn í dreifbýli sem þurfa að sækja skóla um langan veg.
    Tölur um fjölda þeirra nema sem gætu öðlast rétt til húsaleigubóta eftir þá lagabreytingu sem þetta frumvarp boðar liggja ekki fyrir en ljóst er að þar sem um er að ræða nema í víðlendustu og strjálbýlustu sveitarfélögunum er um óverulegan fjölda að ræða. Breytingin er hins vegar augljóslega mikilvæg fyrir jafnrétti til náms og búsetu í hinum dreifðu byggðum landsins.