Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 92. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 170  —  92. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um skiptileigusamninga fyrir afnot af húsnæði
í orlofi eða frístundum o.fl.


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Björn Frey Björnsson frá innanríkisráðuneytinu og Matthildi Sveinsdóttur og Helgu Sigmundsdóttur frá Neytendastofu. Umsögn barst frá Neytendastofu.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 141. löggjafarþingi (150. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Það er því lagt fram öðru sinni með nokkrum breytingum sem gerðar voru við þinglega meðferð málsins þar sem komið er til móts við þær athugasemdir sem þar voru gerðar.
    Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ný heildarlög um skiptileigusamninga fyrir afnot af húsnæði í orlofi eða frístundum í stað gildandi laga um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis, nr. 23/1997. Frumvarpið er lagt fram til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/122/EB um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, samninga um orlofskosti til lengri tíma og endursölu- og skiptasamninga.
    Helstu nýmæli frumvarpsins eru að lögin munu einnig taka til samninga sem gilda í skemmri tíma en þrjú ár og ná einnig yfir skiptisamninga og endursölusamninga. Reglur um upplýsingaskyldu hafa verið hertar og skýrðar. Auk þess er nú skylt að nota samræmt staðlað form þar sem helstu upplýsingar eru settar fram. Neytendur munu hafa val um á hvaða tungumáli innan Evrópska efnahagssvæðisins þeir vilja fá upplýsingar og gert er skylt að nota samræmt staðlað form til að falla frá samningi og einn samræmdur frestur, fjórtán dagar, gildir nú á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig eru ákvæði um bann við fyrirframgreiðslu af hálfu neytenda skýrð betur og styrkt.
    Nefndin bendir á að megintilgangur nýrra laga er að veita neytendum betri vernd og styrkja stöðu þeirra seljenda sem hafa sætt því sem kalla mætti ósanngjarna samkeppni frá aðilum sem ekki hafa hlítt gildandi reglum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jóhanna María Sigmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. nóvember 2013.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form., frsm.


Páll Valur Björnsson.


Líneik Anna Sævarsdóttir.



Elsa Lára Arnardóttir.


Guðbjartur Hannesson.


Helgi Hrafn Gunnarsson.



Svandís Svavarsdóttir.


Vilhjálmur Árnason.