Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 148. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 171  —  148. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992 (úthlutunarreglur).


Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Helgi Hrafn Gunnarsson,
Guðbjartur Hannesson, Páll Valur Björnsson.


1. gr.

    3. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn sjóðsins setur nánari úthlutunarreglur um útfærslu á lögum þessum, þ.m.t. fjárhæð og úthlutun námslána, sem og ákvæði um kröfur um lágmarksnámsframvindu. Reglurnar skulu lagðar fram til kynningar og staðfestar af ráðherra eigi síðar en 1. febrúar ár hvert.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Samkvæmt frumvarpinu er kveðið á um skyldu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að setja sérstakar úthlutunarreglur til nánari útfærslu á lögunum og þurfa þær að vera samþykktar af ráðherra. Kveðið er á um þá nýbreytni að tiltekin eru tímamörk fyrir hvenær reglurnar skulu kynntar.
    Frumvarpið er lagt fram til að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis (mál nr. 6109/ 2010). Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að breytingar á úthlutunarreglum þyrfti að kynna fyrir fram með skýrum og glöggum hætti og nægjanlegum fyrirvara þannig að þeir aðilar sem málið snerti hefðu raunhæft tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir og bregðast við breyttri framkvæmd.