Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 152. máls.

Þingskjal 177  —  152. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum (reikningsskil vegna eignarhluta í veitu- og orkufyrirtækjum).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum orðast svo:
    Að ósk viðkomandi sveitarfélags er eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og ráðherra sveitarstjórnarmála skylt við útreikning á afkomu og fjárhagsstöðu þess skv. 64. gr. að undanskilja tekjur, útgjöld, eignir, skuldir og skuldbindingar sem hljótast af eignarhlutum þess í veitu- og orkufyrirtækjum í allt að tíu ár frá gildistöku laganna, enda verði það fyrir umtalsvert meiri útgjöldum og/eða beri umtalsvert meiri skuldir en annars væri vegna eignarhlutanna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er unnið í innanríkisráðuneytinu.
    Í ákvæði til bráðabirgða III í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, er kveðið á um að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og ráðherra sveitarstjórnarmála sé við útreikning á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga skylt að undanskilja útgjöld, skuldir og skuldbindingar þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir umtalsvert meiri útgjöldum og/eða bera umtalsvert meiri skuldir en annars væri vegna eignarhluta þeirra í veitu- og orkufyrirtækjum, í allt að tíu ár frá gildistöku laganna. Er þannig komið til móts við sveitarfélög sem ella væri sniðinn þröngur stakkur vegna skuldastöðu veitu- og orkufyrirtækja sem þau eiga eignarhluti í. Ákvæðið er hins vegar orðað með það fortakslausum hætti að ekki hefur verið talið heimilt að taka reikningsskil veitu- og orkufyrirtækja inn í útreikninga á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga þótt það yrði viðkomandi sveitarfélagi hagfellt, svo sem ef viðkomandi veitu- og orkufyrirtæki er fjárhagslega stöndugt. Því er hér lögð til sú breyting að það verði sveitarfélagi valkvætt hvort reikningsskil vegna eignarhluta í veitu- og orkufyrirtækjum verði undanskilin við mat á afkomu og fjárhagsstöðu þess, enda uppfylli það skilyrði ákvæðisins að öðru leyti.
    Orðalag ákvæðisins hefur jafnframt verið endurskoðað með það að markmiði að skýra betur efni þess og er nú sérstaklega tekið fram að séu útgjöld, skuldir og skuldbindingar undanskildar skuli jafnframt undanskilja þær tekjur og eignir sem af eignarhlutum hljótast.
    Frumvarpið felur ekki í sér rýmkun á þeim tíma sem beita má ákvæði til bráðabirgða III, sem er í allt að 10 ár frá gildistöku sveitarstjórnarlaga, 1. janúar 2012.
    Frumvarpið hefur verið unnið í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ljóst er að kostnaðaráhrif frumvarpsins á sveitarfélög verða lítil eða engin og því er ekki þörf á að kostnaðarmeta það skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum (reikningsskil vegna eignarhluta í veitu- og orkufyrirtækjum).

    Megintilgangurinn með frumvarpi þessu er að gera það valkvætt fyrir sveitarfélög hvort eignarhlutir í veitu- og orkufyrirtækja eru undanskildir í útreikningi á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga notast við í störfum sínum. Enn fremur eru í frumvarpinu gerðar breytingar á orðalagi ákvæðis sem lýtur að þessu sem eiga að skýra betur efni þess og tilgang en gildistíma ákvæðisins er haldið óbreyttum, þ.e. 10 ár frá gildistöku sveitarstjórnarlaga.
    Samkvæmt fjármálareglum í sveitarstjórnarlögum mega samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta þeirra í reikningsskilum á hverju þriggja ára tímabili ekki vera hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum sveitarfélagsins. Þá mega heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum þeirra. Fjármálareglurnar taka þannig til samstæðuuppgjörs A- og B-hluta í heild sem má telja eðlilegt viðmið út frá opinberum reikningsskilum þar sem miklar líkur eru á að A-hlutinn verði ávallt beint eða óbeint ábyrgur fyrir skuldum og skuldbindingum fyrirtækja eða verkefna í B-hluta og að þar með hafi fjárhagsstaða stofnana og fyrirtækja í B-hluta áhrif á skuldbindingar eða nettóeignastöðu í A-hluta sveitarfélagsins. Hætta væri á því að ef reglurnar giltu aðeins um A-hluta sveitarfélaga myndaðist hvati til að færa með einum eða öðrum hætti kostnað og skuldir yfir til B-hluta. Sérstök eftirlitsnefnd fylgist með reikningsskilum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga, þ.m.t. samræmi við framangreind viðmið, og getur nefndin fengið heimildir til að fylgja athugasemdum sínum eftir með úrræðum á borð við að senda tilmæli eða krefjast hækkunar á gjaldtöku sveitarfélaga. Í meðferð Alþingis á frumvarpi því sem síðar varð að sveitarstjórnarlögum var sett inn ákvæði til bráðabirgða við lögin, sem þessu frumvarpi er ætlað að útvíkka, um að eftirlitsnefndinni væri skylt að undanskilja veitu- og orkufyrirtæki í útreikningum sveitarfélaga þar sem eignarhlutur í þeim hefði veruleg áhrif á útgjöld og skuldastöðu sveitarfélagsins.
    Með frumvarpi þessu gefst sveitarfélögum svigrúm við mælingu á fjárhagslegri aðlögun þeirra í þeim tilvikum þegar það er þeim hagfellt að taka með í reikninginn stöðu veitu- og orkufyrirtækis, þ.e. ef það er fjárhagslega stöndugt.
    Frumvarpið snýr að eftirliti með aðlögun á fjármálum sveitarfélaga og verður ekki séð að lögfesting þess ætti að hafa bein áhrif á fjárhagsstöðu ríkissjóðs.