Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 63. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 184  —  63. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni
um skuldabréfaútgáfu Ríkisútvarpsins ohf.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvert var tilefni skuldabréfaútgáfu sem getið er í sáttargerð Ríkisútvarpsins ohf. við Fjármálaeftirlitið 16. júlí sl.?
     2.      Er það meðal lögbundinna verkefna Ríkisútvarpsins ohf. að stunda skuldabréfaútgáfu?
     3.      Hverjir eru þeir fruminnherjar, tímabundnir innherjar og aðilar fjárhagslega tengdir innherjum sem getið er í sáttargerðinni og láðist að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um? Ef þeir eru lykilstarfsmenn Ríkisútvarpsins er þá hlutverk þeirra sem fruminnherjar, tímabundnir innherjar eða aðilar tengdir innherjum hluti af launakjörum viðkomandi og þá með hvaða hætti?
     4.      Hyggst ráðherra gera athugasemd við þá starfshætti stofnunarinnar sem leiddu til þess að hún þurfti að inna af hendi sektargreiðslu vegna þessa máls?


    Ríkisútvarpið hefur gert eftirfarandi sátt við Fjármálaeftirlitið (FME):
    „Sáttargerð vegna brots á 128. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.
    Hinn 16. júlí 2013 gerðu Fjármálaeftirlitið og Ríkisútvarpið ohf. með sér sátt vegna brots þess á 128. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti (vvl.). Með sáttinni gekkst Ríkisútvarpið ohf., sem útgefandi skuldabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi, við því að hafa brotið gegn 128. gr. vvl. með því að hafa ekki staðið skil á lista yfir aðila fjárhagslega tengda fruminnherjum á réttum tíma.
    Í 128. gr. vvl. er kveðið á um skyldu útgefenda til að senda Fjármálaeftirlitinu, í því formi sem eftirlitið ákveður, upplýsingar um fruminnherja, tímabundna innherja og aðila fjárhagslega tengda innherjum. Endurskoðaðan lista skal senda Fjármálaeftirlitinu eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti. Með vísan til framangreinds, atvika máls að öðru leyti, 142. gr. vvl. og reglna nr. 1245/2007 um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt, var málinu lokið með sátt að fjárhæð 300.000 krónur.“
    Starfsemi sjónvarpshluta Ríkisútvarpsins, sem að stærstum hluta var áður til húsa að Laugavegi 176 í Reykjavík, var á árinu 2000 öll flutt í Efstaleiti 1 þar sem önnur starfsemi stofnunarinnar var staðsett. Þegar húsnæði Ríkisútvarpsins við Efstaleiti var tekið í notkun 1987 var ráðgert að öll starfsemin flyttist þangað en af því varð ekki. Tæplega 30% húsnæðisins stóðu óinnréttuð og ónotuð í á annan áratug. Við stjórnsýsluendurskoðun á árinu 1988 taldi Ríkisendurskoðun mikilvægt að stofnunin sameinaðist í hinu nýja útvarpshúsi sem fyrst. Rökin fyrir flutningi allrar starfseminnar í Efstaleitið voru þau að til staðar væri ónotað húsnæði, að áframhaldandi staðsetning við Laugaveg kallaði á umtalsverðar lagfæringar á húsnæðinu þar ásamt endurnýjun á sjónvarpsbúnaði, og að ýmsir hagræðingarmöguleikar fylgdu því að hafa alla starfsemina á einum stað. Í áætlunum var gert ráð fyrir að heildarkostnaður við flutning sjónvarps í Efstaleiti yrði nálægt 1 milljarði kr. og væri bæði vegna innréttinga og tækjakaupa. Fjárfesting í húsnæði á árinu 2000 nam 681 millj. kr. og í áhöldum og tækjum 293 millj. kr. samkvæmt ársreikningi 2000. Á móti kom söluverð húsnæðisins við Laugaveg en fyrir eignina fengust 280 millj. kr. Til að fjármagna þessar framkvæmdir tók Ríkisútvarpið um 700 millj. kr. lán hjá Norræna fjárfestingabankanum og Íslandsbanka að undangengnu útboði þar sem leitað var hagstæðustu lánsfjármögnunar. Skuldabréfin hjá Íslandsbanka voru að upphæð 400 millj. kr. og voru 80 skuldabréf hvert að upphæð 5 millj. kr. skráð í Kauphöllinni í mars 1999. Önnur skuldabréfaskráning er tilkomin vegna uppgjörs Ríkisútvarpsins sem stofnunar við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) vegna óuppgerðra lífeyrisskuldbindinga sjóðsins við sjóðsfélaga. Eftir tryggingafræðilegt mat Talnakönnunar árið 1999 var ljóst að sjóðurinn gat ekki staðið undir skuldbindingum sínum vegna áfallinna lífeyrisskuldbindinga við sjóðsfélaga og í stað þess að ríkið stæði skil á þessu, en sjóðurinn var með ríkisábyrgð, ákvað ríkisvaldið að stofnanir, m.a. Ríkisútvarpið, stæðu skil á hluta þess sem upp á vantaði. LSR gerði kröfu um að notast yrði við skuldabréfaformið og því gaf Ríkisútvarpið út skuldabréf að upphæð 2.250 millj. kr. en það var útgefið í október 2000 og skráð á viðskiptamarkaði í desember 2002.
    Skráning framangreindra skuldabréfa er því tilkomin nokkru áður en rekstrarformi Ríkisútvarpsins var breytt í opinbert hlutafélag í apríl 2007.
    Ríkisútvarpið þarf, líkt og öll önnur fyrirtæki eða stofnanir, á lánafyrirgreiðslu að halda. Ríkisútvarpið leitar ávallt eftir hagstæðustu lánsfjármögnun. Þegar afla þurfti lánsfjár vegna flutninganna var útgáfa skuldabréfs metin sem hagstæðasta fjármögnunin en þegar gert var upp við LSR var það krafa sjóðsins að gefið yrði út skuldabréf og það var síðan skráð í Kauphöllinni. Skuldabréfin eða útgáfa þeirra tengjast því hvorki skuldabréfaviðskiptum Ríkisútvarpsins né launakjörum viðkomandi starfsmanna.
    Ríkisútvarpinu ber sem útgefanda framangreindra skuldabréfa, sem skráð eru í Kauphöllinni, að skila á sex mánaða fresti upplýsingum til Fjármálaeftirlitsins um fruminnherja og fjárhagslega tengda aðila í samræmi við lög nr. 108/2007. Með hugtakinu fruminnherji er skv. 1. tölul. 121. gr. laga nr. 108/2007 átt við aðila sem hefur að jafnaði aðgang að innherjaupplýsingum vegna aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti eða vegna annarra starfa á vegum útgefanda verðbréfa. Fruminnherjar hjá Ríkisútvarpinu eru m.a. stjórn og varastjórn félagsins, lykilstjórnendur úr hópi starfsmanna sem koma að rekstri þess, auk endurskoðenda félagsins. Fjárhagslega tengdir aðilar teljast sem dæmi maki og börn fruminnherja. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu láðist að skila lista yfir fjárhagslega aðila innan lögbundinna tímafresta samkvæmt lögum nr. 108/2007 og því kom til umræddrar sáttargerðar.
    Ríkisútvarpið er sjálfstætt opinbert hlutafélag sem starfar samkvæmt sérstökum lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, og hlutafélagalögum, nr. 2/1995. Félagið fellur því ekki undir yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra skv. 12. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, líkt og aðrar undirstofnanir mennta- og menningarmálaráðuneytis. Um eftirlit með reglulegri starfsemi félagsins fer samkvæmt framangreindum lögum og er það í höndum stjórnar þess sem tilnefnd er á Alþingi og kosin á hluthafafundi félagsins. Á árlegum aðalfundi Ríkisútvarpsins gerir stjórnin grein fyrir starfsemi félagsins og leggur fram endurskoðaða ársreikninga. Mennta- og menningarmálaráðherra er handhafi eignarhlutar ríkisins í Ríkisútvarpinu ohf. og fer með atkvæðisrétt ríkisins á aðalfundi.