Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 36. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 188  —  36. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um lengd námstíma í framhaldsskólum.


     1.      Hver er meðallengd námstíma í framhaldsskólum landsins, þ.e. tímans frá því að nemendur innritast og þar til þeir ljúka stúdentsprófi, sundurgreind eftir skólum?
    Þegar fjallað er um meðallengd námstíma í framhaldsskólum er mikilvægt að líta til þess að þar er boðið upp á ólíkar námsleiðir og námsferill nemenda er mismunandi eftir því á hvaða braut þeir innritast. Sem dæmi má nefna að þeir sem stunda starfsnám ljúka að jafnaði ekki stúdentsprófi þó svo að þeim gefist sá kostur með viðbótarnámi. Um fjórðungur þeirra sem nú innritast í framhaldsskóla hefur nám á almennri braut og námsferill þeirra er oft með öðrum hætti en þeirra sem innritast beint á bóknámsbrautir til stúdentsprófs eða á starfsnámsbrautir. Einnig er það svo að margir nemendur hverfa tímabundið frá námi og koma aftur inn í framhaldsskólana eftir nokkurt hlé.
    Til að reikna námslengd eftir brautum og skólum verður að rekja námsferil nemenda eftir kennitölum frá því að þeir innritast í framhaldsskóla þar til þeir ljúka námi með brautskráningu. Slíkar upplýsingar hafa ekki legið fyrir og ekki hefur áður verið reynt að grafast fyrir um námslengd með þessum hætti. Hagstofa Íslands hefur birt tölur um brautskráningar eftir fjögur ár og sex ár sem byggjast á því að rekja námsferil nemenda með kennitölu en þær upplýsingar eru ekki sundurgreindar eftir prófgráðum, einstökum námsbrautum eða skólum. Byggt á gögnum Hagstofunnar hefur OECD birt upplýsingar um Ísland í samanburði við önnur lönd og þar kemur fram að 44% þeirra sem innritast í framhaldsskóla hafa lokið námi sínu innan skilgreinds námstíma sem í flestum tilvikum er fjögur ár. Tveimur árum eftir skilgreindan námstíma, eða sex árum eftir að nám hefst, hafa 58% lokið námi.
    Til að svara fyrirspurn um meðallengd námstíma til stúdentsprófs var farin sú leið að afla gagna í Innu, upplýsingakerfi framhaldsskóla, um þann hóp nemenda sem innritaðist haustið 2007 og rekja námsferil hans til brautskráningar á árunum 2009–2013. Niðurstöðurnar eiga því aðeins við um þennan eina árgang og varasamt að alhæfa um námslengd almennt. Þá er ekki leiðrétt fyrir skráningarvillur og ósamræmi í skráningu milli skóla og því verður að taka þessum tölum með fyrirvara.
    Haustið 2007 innrituðust 4.161 samkvæmt skrám. Af þeim innrituðust 3.565 inn á bóknámsbrautir, eða 85,6%, en 596 á verknámsbrautir, eða 14,4%. Að loknum sex árum höfðu um 60% þessa innritunarárgangs útskrifast úr framhaldsskóla.
    Af þeim 3.565 sem innrituðust á bóknámsbrautir haustið 2007 höfðu 2.233 lokið námi með stúdentsprófi vorið 2013, eða 66,%. Meðallengd námstíma þessara nemenda var 4,2 ár. Námstími á verknámsbrautum er misjafn eftir eðli námsins en hjá þeim sem innrituðust á verknámsbrautir haustið 2007 höfðu 274 lokið prófi vorið 2013, eða 46%. Meðallengd námstíma verknámsnemenda var 4,5 ár. Um 40% af innritunarhópnum haustið 2007 höfðu ekki lokið framhaldsskólaprófi sex árum síðar.
    Yfirlit yfir meðallengd námstíma eftir einstökum skólum er að finna í eftirfarandi töflu. Einungis eru birtar tölur fyrir þá skóla sem eru með meira en 1% af brautskráningum árgangsins.

Brautskráningar innritunarárgangs 2007 sem innritaðist á bóknámsbrautir
og hafði útskrifast með stúdentspróf ekki seinna en vorið 2013.

Skóli Fjöldi
brautskráðra
stúdenta
Hlutfall af
brautskráningum
árgangsins
Meðalnámstími
Verzlunarskóli Íslands 290 13,00% 4
Menntaskólinn við Hamrahlíð 218 9,80% 4
Menntaskólinn í Reykjavík 169 7,60% 4,1
Menntaskólinn á Akureyri 148 6,60% 4,1
Menntaskólinn í Kópavogi 147 6,60% 4,4
Kvennaskólinn í Reykjavík 138 6,20% 4,1
Menntaskólinn við Sund 131 5,90% 4,1
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti 109 4,90% 4,9
Fjölbrautaskóli Suðurnesja 107 4,80% 4,1
Fjölbrautaskóli Suðurlands 92 4,10% 4
Verkmenntaskólinn á Akureyri 90 4,00% 4,6
Flensborgarskólinn í Hafnarfirði 77 3,40% 4,1
Borgarholtsskóli 74 3,30% 4,5
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ 67 3,00% 4,2
Fjölbrautaskóli Vesturlands 63 2,80% 3,9
Fjölbrautaskólinn við Ármúla 47 2,10% 4,9
Tækniskólinn 45 2,00% 5,2
Menntaskólinn á Egilsstöðum 38 1,70% 3,9
Menntaskólinn að Laugarvatni 31 1,40% 4,1
Menntaskólinn á Ísafirði 26 1,20% 4,1
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum 25 1,10% 3,6
Fjölbrautaskóli Snæfellinga 22 1,00% 4
Alls 2.233 4,2
Heimild: Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013.

     2.      Hver er meðallengd námstíma í þeim skólum sem þegar hafa innleitt nýtt kerfi samkvæmt lögum um framhaldsskóla frá 2008, þ.e. Kvennaskólanum í Reykjavík, Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og Menntaskólanum á Tröllaskaga?
    Umræddir skólar innrituðu nemendur á þriggja ára námsbrautir í fyrsta sinn haustið 2009. Ef sá árgangur er skoðaður sérstaklega kemur í ljós að af 153 nemendum sem innrituðust í Kvennaskólann í Reykjavík brautskráðust 107 eftir þrjú ár eða skemur eða 70%. Af 40 nemendum sem innrituðust í Menntaskóla Borgarfjarðar brautskráðust 23 eftir þrjú ár eða 57%.
    Erfiðara er að meta námslengd hjá Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og Menntaskólanum á Tröllaskaga þar sem fáir nýnemar úr grunnskóla innrituðust í þessa skóla haustið 2009, hluti nemenda stundar nám eftir námshlé og nokkur hreyfing er á nemendum bæði til og frá skólunum. Lengri tími þarf að líða áður en hægt verður að áætla námslengd í þessum tveimur skólum með nokkurri vissu.

     3.      Hver er meðallengd námstíma í skólum með áfangakerfi annars vegar og bekkjarskóla hins vegar?
    Meðallengd námstíma á bóknámsbrautum í bekkjarskólum er 4,1 ár. Meðallengd námstíma á bóknámsbrautum í áfangaskólum er 4,3 ár.
    Af innritunarárgangi 2007 sem innritaðist á bóknámsbrautir luku 2.233 stúdentsprófi, sem skiptist þannig að 907 luku prófi í bekkjarskólum eða 41% og 1.326 luku prófi í áfangaskólum eða 59%.
    Dreifingin á útskriftum á þessu sex ára tímabili er mjög misjöfn eftir bekkjarskólum og áfangaskólum. Í bekkjarskólum luku 92% námi á fjórum árum, 0,5% á skemmri tíma en fjórum árum og 7,5% á lengri tíma.
    Í áfangaskólum luku 34,1% námi á fjórum árum, 23% á skemmri tíma en fjórum árum og 42,7% á lengri tíma.
    Bekkjarskólar eru Verzlunarskóli Íslands, Menntaskólinn í Reykjavík, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Sund, Menntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn að Laugarvatni.