Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 161. máls.

Þingskjal 192  —  161. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta
og annarra embætta og stofnana.

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt,
nr. 100/1952, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað orðsins „ráðuneytið“ í 2. mgr. 2. gr., 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, orðsins „ráðuneytisins“ tvívegis í 2. mgr. 2. gr. og 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, orðsins „ráðuneytinu“ í 3. gr., 4. gr., 5. tölul. 9. gr., C-lið 14. gr., og 1. mgr. 16. gr. og orðsins „ráðherra“ í 1. mgr. 7. gr., tvívegis í 2. mgr. 7. gr., 1. mgr. 10. gr., 1. mgr. 12. gr., 3. mgr. 12. gr., tvívegis í 1. mgr. 13. gr., 4. tölul. B-liðar 14. gr. og 1. mgr. 15. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Útlendingastofnun.

2. gr.

    2. gr. a laganna orðast svo:
    Barn, undir 12 ára aldri, sem ættleitt er af íslenskum ríkisborgara, öðlast íslenskt ríkisfang við ættleiðinguna ef:
     a.      ættleiðingarleyfi er gefið út hér á landi,
     b.      ættleiðingarleyfi er gefið út erlendis og íslensk stjórnvöld hafa viðurkennt að gildi hér á landi samkvæmt lögum um ættleiðingar.
    Ættleiði íslenskur ríkisborgari, sem búsettur er erlendis, barn undir 12 ára aldri, með erlendri ákvörðun, sem íslensk stjórnvöld viðurkenna, öðlast það íslenskt ríkisfang við staðfestingu Útlendingastofnunar að ósk ættleiðanda.

3. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Áður en umsókn um ríkisborgararétt er lögð fyrir Alþingi skal Útlendingastofnun fá um hana umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda. Enn fremur skal Útlendingastofnun gefa umsögn um umsóknina.

4. gr.

    Orðin „og Útlendingastofnunar“ í 1. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.


5. gr.

    2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Skilyrði 1. mgr. miðast við fasta búsetu hér á landi þegar umsókn er lögð fram og þegar ákvörðun er tekin. Enn fremur skal föst búseta vera samfelld og dvöl hér á landi lögleg síðustu ár áður en umsókn er lögð fram. Með fastri búsetu er átt við lögheimili samkvæmt lögum um lögheimili. Heimilt er að víkja frá þessum skilyrðum hafi dvöl umsækjanda hér verið rofin allt að einu ári vegna tímabundinnar atvinnu erlendis eða af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem vegna veikinda nákomins ættingja, en þó allt að þremur árum vegna náms erlendis. Sá tími, sem umsækjandi hefur átt hér lögheimili og dvöl, verður þó að vera að minnsta kosti jafnlangur þeim tíma sem hann verður að uppfylla skv. 1. mgr.

6. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Skjóta má ákvörðun um þetta efni til ráðuneytisins.

7. gr.

    Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Ákvarðanir Útlendingastofnunar samkvæmt lögum þessum eru kæranlegar til ráðuneytis.

II. KAFLI
Breyting á lögum um opinberar fjársafnanir, nr. 5/1977, með síðari breytingum.
8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 1. málsl. kemur: sýslumanns.
     b.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að ákveða að leyfisveiting verði á hendi eins sýslumanns.

9. gr.

    Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 2. mgr. 5. gr. og orðsins „ráðuneytið“ í 6. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: sýslumaður.

10. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist númeraröð annarra greina samkvæmt því:
    Ákvarðanir sýslumanns samkvæmt lögum þessum eru kæranlegar til ráðuneytis.

III. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.
11. gr.

    Við 60. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Úrskurður sýslumanns samkvæmt þessu ákvæði er endanlegur og verður ekki kærður til ráðherra.

12. gr.

    1. mgr. 78. gr. laganna orðast svo:
    Aðilum máls er heimilt að kæra úrskurð sýslumanns til ráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu hans, sbr. þó 4. mgr. 60. gr.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, með síðari breytingum.
13. gr.

    Í stað orðsins „Ráðherra“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: Forstjóri fangelsismálastofnunar.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 78. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Nefndin tekur rökstudda ákvörðun um afgreiðslu erinda sem til ráðherra er skotið vegna ákvörðunar fangelsismálastofnunar um samfélagsþjónustu og reynslulausn. Nefndin skal láta ráðherra í té rökstudda tillögu um afgreiðslu náðunarbeiðna.
     b.      Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Náðunarnefnd er heimilt að afla upplýsinga frá heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisstofnunum til staðfestingar á fyrirliggjandi vottorðum sem og að afla nýrra gagna um heilsufar náðunarbeiðanda eða kæranda ef beiðni um náðun eða kæra er byggð á heilsufarsástæðum. Nefndinni er einnig heimilt að krefjast þess að náðunarbeiðandi eða kærandi leggi fram gögn sem hann hefur sjálfur aflað um heilsufar sitt.
                  Málsmeðferð fyrir nefndinni er skrifleg en henni er heimilt að kalla náðunarbeiðanda til viðtals hjá nefndinni. Sama gildir ekki um kæranda.
                  Hver sem þekkir til dómþola vegna starfs síns eða ættartengsla getur sótt um náðun fyrir hönd dómþola. Sama gildir ekki um kæranda en um hann gilda almennar reglur stjórnsýslulaga um aðild.

V. KAFLI
Breyting á lögum um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., nr. 69/1963, með síðari breytingum.
15. gr.

    Í stað orðanna „almennra hegningarlaga“ í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: laga um fullnustu refsinga.

16. gr.

    Lokamálsliður 20. gr. laganna orðast svo: Ráðherra er heimilt að fela lögreglustjóra, Fangelsismálastofnun ríkisins eða öðrum aðila á landsvísu að ákveða hvort verða skuli við tilmælum skv. 1., 3., 7. og 13. gr., 2. mgr. 14. gr. og 19. gr.

17. gr.

    1. mgr. 22. gr. laganna orðast svo:
    Ákvörðun um að maður skuli taka út fangelsisrefsingu eða sæta umsjón hér á landi samkvæmt lögum þessum er endanleg og verður ekki kærð til ráðherra. Hægt er að bera lögmæti ákvörðunarinnar undir dómstóla og skal þá fara eftir reglum laga um meðferð sakamála.

18. gr.

    Síðari málsliður 26. gr. laganna orðast svo: Ráðherra er heimilt að fela lögreglustjóra, Fangelsismálastofnun ríkisins eða öðrum aðila á landsvísu að bera fram tilmæli eftir ákvæði 2., 5., 11., 17. og 19. gr.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um lögmenn, nr. 77/1998, með síðari breytingum.
19. gr.

    Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 8. gr., 2. mgr. og 1. og 2. málsl. 3. mgr. 9. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 10. gr., 1. og 2. málsl. 3. mgr. og 1. og 2. málsl. 4. mgr. 13. gr., 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 14. gr., 1. mgr. 15. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 2. málsl. 2. mgr. 16. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. og orðsins „ráðuneytisins“ í 6. mgr. 12. gr., 3. málsl. 1. mgr. 14. gr. og 1. og 2. mgr. 15. gr. og orðanna „Í ráðuneytinu“ í 2. mgr. 17. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: sýslumaður.

20. gr.

    Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að ákveða að þau verkefni sem sýslumönnum eru falin í lögum þessum verði á hendi eins sýslumanns. Ákvarðanir sýslumanns samkvæmt lögum þessum eru kæranlegar til ráðuneytis.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög,
nr. 108/1999, með síðari breytingum.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Ráðuneytið“ tvívegis kemur: Sýslumaður.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að ákveða að skráning trúfélaga og lífsskoðunarfélaga skv. 1. mgr. verði á hendi eins sýslumanns.
                  Ákvarðanir sýslumanns samkvæmt lögum þessum eru kæranlegar til ráðuneytis.

22. gr.

    Í stað orðsins „ráðuneytinu“ í 1. og 3. mgr. 4. gr., 1. og 2. mgr. 5. gr., 2. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. og orðsins „ráðuneytið“ í 2. mgr. 4. gr., 1. og 3. mgr. 6. gr. og 3. mgr., tvívegis í 4. mgr., 5. og 6. mgr. 7. gr. og orðsins „ráðherra“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: sýslumaður.

VIII. KAFLI
     Breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu,
nr. 36/1993, með síðari breytingum.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðuneytið“ í 1. mgr. kemur: sýslumaður.
     b.      Í stað orðanna „Ráðherra getur heimilað, samkvæmt nánari reglum er hann setur“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: Sýslumaður getur heimilað.
     c.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um nánari reglur um dreifingu ösku látins manns fer samkvæmt reglugerð settri með heimild í 1. mgr. 50. gr.
     d.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að ákveða að leyfi til dreifingar ösku látins manns skv. 4. mgr. verði á hendi eins sýslumanns.
                  Ákvarðanir sýslumanns samkvæmt þessari lagagrein eru kæranlegar til ráðuneytis.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „ráðuneytinu“ og „ráðuneytisins“ kemur, í viðeigandi beygingarfalli: sýslumaður.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að ákveða að ákvarðanir skv. 1. mgr. verði á hendi eins sýslumanns.
                  Ákvarðanir sýslumanns samkvæmt þessari lagagrein eru kæranlegar til ráðuneytis.

IX. KAFLI
Breyting á erfðalögum, nr. 8/1962, með síðari breytingum.
25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðuneytið“ í 1. mgr. og í stað orðsins „Ráðherra“ tvívegis í 2. mgr. kemur, í viðeigandi beygingarfalli: sýslumaður.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að ákveða að ákvarðanir skv. 1. og 2. mgr. verði á hendi eins sýslumanns.
                  Ákvörðun sýslumanns um kvaðabindingu arfs og niðurfellingu á kvöð á arfi er kæranleg til ráðuneytisins innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar sýslumanns.

X. KAFLI
Breyting á lögræðislögum, nr. 71/1997, með síðari breytingum.
26. gr.
    

    82. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Gerðabækur og málaskrá yfirlögráðenda.

    1. Yfirlögráðendur halda gerðabækur sem hafa að geyma ákvarðanir þeirra samkvæmt lögum þessum.
    2. Yfirlögráðendum ber að halda málaskrá yfir mál sín samkvæmt lögum þessum. Ráðuneytið getur heimilað að yfirlögráðendur haldi eina miðlæga málaskrá.
    3. Ráðuneytið getur falið yfirlögráðendum að halda skrár þær sem tilgreindar eru í 6. mgr. 14. gr., 3. mgr. 40. gr. og 2. mgr. 57. gr. sem hluta af málaskrá skv. 2. mgr.
    4. Ráðuneytinu er heimilt með reglugerð að setja nánari reglur um færslur yfirlögráðenda í gerðabækur og málaskrá og aðgang að skránni m.a. til handa ráðuneytinu og dómurum við rannsókn mála til sviptingar lögræðis.

27. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014. Þó öðlast 2.–4. mgr. 24. gr. gildi 1. apríl 2014.

28. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum:
                  a.      Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: sýslumanns.
                  b.      Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. kemur: Útlendingastofnunar.
     2.      Lög um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum: Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: sýslumanns.
     3.      Hjúskaparlög, nr. 31/1993, með síðari breytingum:
                  a.      Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 1. og 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: sýslumanns.
                  b.      2. mgr. 26. gr. laganna orðast svo:
                       Nú annast einstaklingur skv. 1.–3. mgr. 17. gr. hjónavígslu og gilda þá framangreindar reglur um þá vígslu, en heimilt er að öðru leyti að viðhafa þá helgisiði eða framgöngu er reglur eða venjur trúfélags eða lífsskoðunarfélags segja til um.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu og er það liður í áformum innanríkisráðherra um að bæta þjónustu og auka skilvirkni þannig að verkefnum sé sinnt af þeirri stofnun sem er best til þess fallin með tilliti til þekkingar og samlegðar verkefna. Greining á kjarnastarfsemi ráðuneytisins og verkefnum sem ráðuneytið sinnir lögum samkvæmt leiddi í ljós að betri samlegð og skilvirkni næst með flutningi verkefna til stofnana ráðuneytisins. Sérstaklega var miðað við að styrkja sýslumannsembættin með flutningi verkefna til þeirra. Lagt er til að eftirfarandi verkefni verði flutt eða framkvæmd þeirra breytt:
          Útlendingastofnun taki að sér hlutverk innanríkisráðherra við veitingu ríkisborgararéttar en kæruleið verði í boði til innanríkisráðuneytisins.
          Sýslumönnum verði falið að annast leyfisveitingar til opinberra fjársafnana.
          Sýslumönnum verði falið að skera endanlega úr um sérstök framlög vegna framfærslu barna.
          Náðunarnefnd verði sjálfstæð úrskurðarnefnd vegna samfélagsþjónustu og reynslulausnar.
          Fangelsismálastofnun verði falið vald til að ákveða að fullnusta refsidómum sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.
          Sýslumönnum verði falin umsýsla með málefnum lögmanna.
          Sýslumönnum verði falin skráning og eftirlit með trúfélögum og lífsskoðunarfélögum.
          Sýslumönnum verði falið að veita leyfi til dreifingar á ösku látinna manna.
          Sýslumönnum verði falið að taka ákvörðun um kvaðabindingu eða niðurfellingu á kvöð á arfi.
          Sýslumönnum verði falið að halda málaskrá yfir mál tengd lögræðislögum.
    Þessi flutningur verkefna miðar að því að auka samlegð og hraða málsmeðferð með því að fela stofnunum, sem ýmist hafa þekkingu á viðkomandi verkefnum eða sinna sambærilegum verkefnum, afgreiðslu þeirra. Ráðuneytið mun eftir sem áður fara með yfirstjórn þeirra málaflokka sem í frumvarpinu greinir.
    Vegna takmarkaðs málafjölda í sumum málaflokkum og til að tryggja samræmi í framkvæmd er nauðsynlegt að innanríkisráðherra geti falið einum sýslumanni að annast tiltekinn málaflokk. Er það fyrirkomulag því almennt lagt til í frumvarpinu.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir veigamikilli breytingu varðandi úrræði aðila máls til að fá stjórnvaldsákvörðun endurskoðaða. Almennt eru ákvarðanir lægra setts stjórnvalds kæranlegar til æðra stjórnvalds. Ákvarðanir sýslumanna í þeim málum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þeim verði falin verða því samkvæmt almennum reglum kæranlegar til innanríkisráðuneytisins. Til að taka af allan vafa um að ákvarðanirnar séu kæranlegar er í sumum lögum lagt til að mælt verða sérstaklega fyrir um kæruheimild til ráðuneytisins. Er þetta fyrirkomulag um tvö stjórnsýslustig í samræmi við þau meginviðhorf í stjórnsýslurétti að aðili stjórnsýslumáls geti fengið stjórnvaldsákvörðun endurskoðaða hjá öðru stjórnvaldi en því sem ákvörðunina tók. Eðli máls samkvæmt sæta þau mál sem ráðuneytið tekur nú ákvarðanir um ekki endurskoðun annars stjórnvalds. Flutningur verkefna til sýslumanna og kæruheimild til ráðuneytisins stuðlar þannig að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni. Um stjórnsýslukærur, svo sem um kærufrest o.fl., fer samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, nema lög kveði á um annað. Þá girðir slík kæruheimild ekki fyrir það að aðila máls er almennt heimilt að bera stjórnvaldsákvörðun undir dómstóla, án þess að kæruleið sé tæmd, nema lög mæli fyrir um annað.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Samkvæmt núgildandi lögum um íslenskan ríkisborgararétt getur Alþingi veitt ríkisborgararétt með lögum en algengast er að ráðherra veiti ríkisborgararétt samkvæmt umsókn ef umsækjandi uppfyllir öll skilyrði laganna um veitingu ríkisborgararéttar. Samkvæmt lögunum staðfestir ráðuneytið auk þess eða veitir ríkisborgararétt í þeim tilvikum þegar unnt er að óska eftir honum með beiðni eða einhvers konar tilkynningu sem vísar til þess að tilteknum skilyrðum laganna sé fullnægt að mati ráðuneytisins. Sem dæmi má nefna rétt barna sem eiga íslenskt foreldri eða ættleidd eru af íslenskum ríkisborgara, einstakling sem búið hefur hér frá unga aldri, norræna ríkisborgara og þá sem hafa áður verið íslenskir ríkisborgarar. Ráðherra veitir einnig lausn frá íslensku ríkisfangi sé þess óskað, og sker úr um hvort íslenskur ríkisborgari, sem fæddur er erlendis og aldrei hefur búið hér á landi, eigi rétt á að halda ríkisfangi sínu eftir 22 ára aldur.
    Við afgreiðslu hefðbundinnar umsóknar um ríkisborgararétt ber ráðuneytinu að afla umsagnar lögreglu og Útlendingastofnunar um umsækjanda. Þar sem mikil samlegðaráhrif eru með verkefnum ráðuneytisins og Útlendingastofnunar um málin er talið að flutningur á verkefnum er varða ríkisborgararétt til Útlendingastofnunar hafi í för með sér jákvæð áhrif í átt að styttri málsmeðferð. Fyrsta skrefið að flutningi ríkisborgaramála til Útlendingastofnunar hefur þegar verið stigið með samningi milli ráðuneytisins og Útlendingastofnunar um flutning á forvinnslu umsókna um ríkisborgararétt til stofnunarinnar 1. maí 2013. Er nú lagt til að Útlendingastofnun sjái ekki eingöngu um móttöku og undirbúning á afgreiðslu umsókna og mála heldur að afgreiðsla þeirra verði flutt frá ráðuneytinu til Útlendingastofnunar. Ákvarðanir stofnunarinnar verði síðan kæranlegar til ráðuneytisins.

Um 2. gr.

    Þegar 2. gr. a var lögfest árið 1998, sbr. lög nr. 62/1998, var komið á þeirri reglu að ættleitt barn undir 12 ára aldri nyti að öllu leyti sömu réttarstöðu og kynbarn íslensks foreldris. Eftir þessa breytingu var framkvæmdin sú að ráðuneytið, sem á þeim tíma var það stjórnvald sem veitti ættleiðingarleyfi, staðfesti veitingu íslensks ríkisfangs um leið og gengið var frá ættleiðingarleyfi hér á landi eða þegar ættleiðingarleyfi sem veitt var erlendis var staðfest. Frá 1. janúar 2007 hefur sýslumaður hins vegar verið það stjórnvald sem veitir ættleiðingarleyfi og séð hefur um staðfestingu á mestum hluta erlendra ættleiðinga, sbr. breytingu sem varð á verkefnum tengdum ættleiðingum með lögum nr. 143/2006, um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til sýslumannsembætta. Sem dæmi má nefna ættleiðingar frá Kína og Tékklandi þegar ættleiðandi er búsettur hér á landi. Ef barn er ættleitt erlendis þarf ættleiðandi samkvæmt núgildandi 2. mgr. 2. gr. a að tilkynna ráðuneytinu um ættleiðinguna og óska eftir viðurkenningu á henni til að barn öðlist íslenskt ríkisfang.
    Með hliðsjón af flutningi verkefna sem tengjast ættleiðingum til sýslumanns á ekki lengur við að ættleiðandi, sem búsettur er hér á landi, óski eftir staðfestingu á erlendri ættleiðingu hjá ráðuneytinu. Er því lögð til lítils háttar breyting á 2. gr. a laganna er varðar rétt barns, undir 12 ára aldri, sem ættleitt er af íslenskum ríkisborgara, til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Er lagt til að ákvæði 1. mgr. breytist í samræmi við flutning ættleiðingarmála til sýslumanns, en lögð er til breyting á framsetningu ákvæðisins. Breytingin snýr fyrst og fremst að orðalagi núgildandi 2. mgr. er varðar framkvæmdina við staðfestingu ríkisfangs þeirra barna sem ættleidd eru með erlendri ákvörðun sem íslensk stjórnvöld viðurkenna. Er lagt til að fellt verði niður ákvæði um að ættleiðandi þurfi að óska eftir staðfestingu ráðuneytisins á ættleiðingunni og ríkisborgararéttinum þar sem sýslumaður annast þau verkefni íslenskra stjórnvalda í dag að ákvarða hvort erlendar ættleiðingar séu viðurkenndar hér á landi. Í staðinn er lagt til að sama regla eigi við um börn, undir 12 ára aldri, sem ættleidd eru með ættleiðingarleyfi útgefnu hér á landi og erlendu ættleiðingarleyfi sem íslensk stjórnvöld viðurkenna að gildi hér á landi á grundvelli laga um ættleiðingar, nr. 130 31. desember 1999. Barn öðlist þannig í hvoru tveggja tilvika íslenskan ríkisborgararétt við ættleiðinguna. Þeim sem búsettur er hér á landi er óheimilt að ættleiða barn erlendis nema sýslumaður samþykki það með útgáfu forsamþykkis til ættleiðingarinnar.
    Um forsamþykki vegna ættleiðingar erlendis og gildi hennar á grundvelli slíks forsamþykkis er fjallað í 29. gr. og 2. mgr. 38. gr. ættleiðingarlaga. Þegar ættleiðing er veitt erlendis þarf ættleiðandi að óska eftir staðfestingu sýslumanns á réttaráhrifum hennar, sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðar um ættleiðingar, nr. 238/2005. Réttaráhrif hinnar erlendu ættleiðingar verða því virk þegar sýslumaður hefur metið ættleiðingargögn fullnægjandi, en í því felst m.a. réttur til íslensks ríkisfangs frá ættleiðingardegi. Sýslumaður staðfestir einnig ættleiðingar samkvæmt Haag-samningi frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa. Lagt er til að 2. gr. a verði breytt á þann veg að ákvæði um ríkisborgararétt á grundvelli framangreindra ættleiðinga verði í 1. mgr. sem taki til ættleiðinga sem leyfi er veitt til hér á landi og ættleiðinga sem leyfi er veitt til erlendis á grundvelli forsamþykkis frá sýslumanni, en það eru m.a. ættleiðingar frá Kína, Tékklandi og Tógó, þ.e. þeim löndum sem erlend börn hafa komið frá til Íslands á síðustu missirum. Síðan er lagt til að í 2. mgr. verði ákvæði óbreytt hvað varðar íslenskan ríkisborgara, búsettan erlendis, sem ættleiðir barn undir 12 ára aldri, að öðru leyti en því að óska ber eftir staðfestingu Útlendingastofnunar á ríkisfanginu í stað ráðuneytis, í samræmi við frumvarp þetta hvað varðar flutning á þessum verkefnum frá ráðuneytinu til Útlendingastofnunar. Eins og verið hefur gildi ríkisfangið frá og með þeim degi sem íslenskt stjórnvald, í dag Útlendingastofnun, hefur staðfest ríkisfangið. Í þessum tilvikum er fyrst og fremst verið að óska eftir íslensku ríkisfangi fyrir barn sem býr erlendis, og ættleitt hefur verið á grundvelli laga í viðkomandi heimalandi barns, en áður en ríkisfangið er staðfest þarf að kanna hvort íslensk stjórnvöld komi til með að viðurkenna ættleiðinguna. Í þeim tilvikum getur Útlendingastofnun leitað til sýslumanns sem fer með ættleiðingarmál. Ættleiðanda er í sjálfsvald sett, þegar barn er búsett erlendis, hvort hann yfirhöfuð óskar eftir íslensku ríkisfangi, því reikna má með að barnið hafi þá þegar erlent ríkisfang.

Um 3. og 4. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Lagt er til að bætt verði því ákvæði í 2. mgr. 8. gr. laganna að umsækjandi um ríkisborgararétt skuli hafa haft samfellda fasta búsetu hér á landi, samkvæmt skilyrðum sem sett eru í 1. mgr. þegar umsókn er lögð fram og einnig „þegar ákvörðun um ríkisborgararétt er tekin“. Breytingin er í samræmi við það hvernig lagaákvæðið hefur ávallt verið túlkað en er fyrst og fremst lögð til til áréttingar í því skyni að forðast misskilning sem upp gæti komið verði ákvæðið óbreytt, svo sem að umsækjandi geti lagt fram umsókn þegar hann er búsettur hér á landi en flutt síðan af landinu meðan umsókn er til afgreiðslu. Frumvarpið felur ekki í sér aðrar breytingar á 2. mgr. en lítils háttar umorðun þess.

Um 6. gr.

    Þar sem lagt er til í 1. gr. frumvarpsins að Útlendingastofnun skeri úr ágreiningi í stað ráðherra um það hvort maður hafi öðlast íslenskan ríkisborgararétt við setningu laganna um ríkisborgararétt eða fullnægi skilyrðum til að öðlast hann með því að lýsa ósk sinni þar um, er lögð til sú breyting að skjóta megi úrskurði Útlendingastofnunar um þessi mál til ráðuneytisins, en í núgildandi ákvæði segir að skjóta megi úrskurði ráðherra um þau mál til dómstóla. Sú kæruheimild girðir ekki fyrir það að aðila máls er almennt heimilt að bera stjórnvaldsákvörðun undir dómstóla, án þess að kæruleið sé tæmd, nema lög mæli fyrir um annað.

Um 7. gr.

    Ein af ástæðum þess að lagt er til að flytja málefni um ríkisborgararétt frá ráðuneytinu til Útlendingastofnunar er að stuðla að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni. Það fyrirkomulag sem hér er lagt til, um tvö stjórnsýslustig, er í samræmi við þau meginviðhorf í stjórnsýslurétti að aðili stjórnsýslumáls geti fengið stjórnvaldsákvörðun endurskoðaða hjá öðru stjórnvaldi en því sem ákvörðunina tók. Eðli máls samkvæmt sæta þau mál sem ráðuneytið tekur nú ákvarðanir um ekki endurskoðun annars stjórnvalds, en unnt er að óska eftir að Alþingi veiti ríkisborgararétt með lögum. Flutningur verkefna til Útlendingastofnunar og kæruheimild til ráðuneytisins stuðlar þannig að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni. Þá breytir slík kæruheimild engu um það að aðila máls er almennt heimilt að bera stjórnvaldsákvörðun undir dómstóla, án þess að kæruleið sé tæmd, nema lög mæli fyrir um annað.

Um 8. gr.

    Samkvæmt núgildandi lögum um opinberar fjársafnanir er fjársöfnun á götum eða í húsum háð leyfi ráðuneytisins. Aðrar fjársafnanir ber að tilkynna til viðkomandi lögreglustjóra. Ráðuneytið tilkynnir viðkomandi lögreglustjóra um þær fjársafnanir sem það veitir leyfi fyrir. Þá skal sá sem stendur fyrir söfnun senda viðkomandi lögreglustjóra reikningsyfirlit söfnunar ásamt tilkynningu um hvar og hvenær skuli birta reikningsyfirlitið.
    Ef fjársöfnun sem fram fer um land allt er ekki háð leyfi ráðuneytisins er hún oftast tilkynnt til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Ráðuneytið hefur hins vegar ekki haft upplýsingar um þær safnanir.
    Þar sem telja verður hagræði að því að upplýsingar um allar fjársafnanir séu á einum stað er lagt til að sýslumenn haldi utan um allar fjársafnanir og veiti þá leyfi fyrir þeim fjársöfnunum sem fram fara á götum eða í húsum í stað ráðuneytisins. Þannig er jafnframt hægt að koma í veg fyrir að fleiri en ein söfnun fari fram á sama tíma.

Um 9. gr.

    Um ákvæðið vísast til athugasemda með 6. gr.

Um 10. gr.

    Greinin mælir fyrir um að ákvarðanir sýslumanns séu kæranlegar til ráðuneytisins. Hér vísast til þess sem segir í almennum athugasemdum um stjórnsýslukærur.

Um 11. gr.

    Hér eru lagðar til þær breytingar að úrskurður sýslumanns skv. 60. gr. barnalaga verði endanlegur og ekki unnt að kæra til ráðherra.
    Samkvæmt 60. gr. barnalaga má úrskurða meðlagsskyldan aðila til greiðslu sérstakra framlaga með barni. Þannig má úrskurða hinn meðlagsskylda aðila til greiðslu framlaga vegna skírnar barns, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar. Önnur tilefni geta einnig orðið grundvöllur slíkra framlaga en þó aðeins ef þau eru sérstaks en ekki almenns eðlis, enda er reglubundnum meðlagsgreiðslum ætlað að standa straum af almennri framfærslu barns. Framlög sem innt eru af hendi samkvæmt þessari grein tilheyra þeim sem svarað hefur til útgjaldanna. Þau eru því ekki meðlag sem tilheyrir barni.
    Kröfu þarf að leggja fram innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda. Miðað er við að krafa vegna kostnaðar við fermingu þurfi að vera komin fram innan þriggja mánaða frá fermingardegi. Sérregla er um tannréttingar en ekki er talið skylt að setja fram kröfu um framlag vegna tannréttinga innan þriggja mánaða frá því að hver einstök greiðsla var innt af hendi, a.m.k. ekki ef um samfellda meðferð er að ræða. Eðlilegt getur verið að bíða með kröfu vegna slíkra aðgerða allt þar til innan þriggja mánaða frá því að meðferð lýkur. Lok meðferðar miðast við það tímamark er föst tæki (teinar) eru fjarlægð af tönnum samkvæmt staðfestingu réttingatannlæknis.
    Innanríkisráðuneytið gefur út leiðbeiningar til sýslumanna um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög. Samkvæmt leiðbeiningum ráðuneytisins, þeim síðustu frá 8. október 2012, þykja fjárhæðirnar hæfilega ákveðnar sem hér segir: 66.000–87.000 kr. vegna fermingar, 17.000–22.000 kr. vegna skírnar og 66.000–97.000 kr. vegna greftrunar.
    Ekki eru gefnar út leiðbeiningar um viðmiðunarfjárhæðir vegna annarra framlaga en sem hér eru talin.
    Hlutverk ráðuneytisins felst í endurskoðun á úrskurðum sýslumanna varðandi sérstakt framlag á grundvelli stjórnsýslukæru. Hér má sjá yfirlit yfir úrskurði í málum er varða sérstakt framlag frá 1. janúar 2006 til 20. september 2013:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Af þeim 19 málum sem borist hafa ráðuneytinu frá 1. janúar 2011 til 20. september 2013 eru 11 mál sem varða tannréttingar en 8 mál varða framlag vegna fermingar, gleraugnakaupa, linsukaupa eða útgjalda vegna veikinda barns. Flest málin eru því vegna útgjalda vegna tannréttinga en þar er iðulega um hærri fjárhæðir að ræða en þegar ágreiningur varðar gleraugnakaup eða fermingu. Af þessum 19 málum var úrskurður sýslumanns staðfestur í 12 tilvikum, í 5 tilvikum var úrskurði sýslumanns breytt og einu máli var vísað frá og einu máli er ólokið. Var meðalmálsmeðferðartími þessara mála 6,8 mánuðir.
    Í málum sem varða sérstakt framlag er unnt að færa rök fyrir því að oftast er um minni háttar fjárhagslega hagsmuni að ræða, að undanskildum þeim málum er varða tannréttingar. Þykir því ekki óvarlegt að leggja af kæruleið í þessum málum.

Um 12. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um breytingu á fyrirkomulagi við skipun forstöðumanns fangelsis. Í gildandi lögum um fullnustu refsinga er það svo að ráðherra skipar forstöðumenn fangelsa. Núgildandi fyrirkomulag er arfleifð frá gamalli tíð er hvert fangelsi var sjálfstæð stofnun með sér fjárlaganúmer. Þessu fyrirkomulagi var breytt árið 1995 þegar fjármunir til fangelsa voru fluttir yfir á fjárlagalið Fangelsismálastofnunar ríkisins. Þrátt fyrir þessar breytingar var skipunarvald ráðherra óbreytt. Þá kom fram gagnrýni á þetta fyrirkomulag í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá mars 2010 og þar var lagt til að bætt yrði úr þannig að skipunarvaldið færðist til forstjóra fangelsismálastofnunar. Því er lagt til að forstjóri fangelsismálastofnunar skipi forstöðumenn fangelsa. Ríkisendurskoðun bendir á að þannig verði til heildstæð stjórnsýslustofnun þar sem vald, umboð og ábyrgð fara saman. Einnig er það fyrirkomulag sem lagt er til hér í samræmi við framsetningu fjárlaga.

Um 14. gr.

    Með a-lið ákvæðisins er lögð til sú breyting á 78. gr. laga um fullnustu refsinga að náðunarnefnd taki bindandi ákvörðun um úrlausn kærumála um synjun á reynslulausn og synjun á samfélagsþjónustu en gefi áfram einungis rökstudda tillögu til ráðherra um úrlausn náðunarbeiðna. Um árabil var tilhögunin sú að tillögur nefndarinnar í kærumálum voru ekki sendar til umsagnar málsaðila áður en úrskurður var kveðinn upp í málunum enda var andmælaréttar gætt áður en náðunarnefnd skilaði tillögu til ráðuneytisins. Umboðsmaður Alþingis gagnrýndi þetta fyrirkomulag enda væri ráðherra ekki bundinn af tillögu nefndarinnar. Ráðuneytið breytti fyrirkomulagi sínu og í dag eru tillögur nefndarinnar í kærumálum sendar til umsagnar málsaðila. Þetta fyrirkomulag hefur lengt þann tíma sem tekur að afgreiða málin og þyngt stjórnsýslumeðferð þessara mála. Í málum sem þessum getur verið nauðsynlegt að hraða afgreiðslu eins og kostur er vegna eðlis þeirra og því er þessi tillaga lögð fram.
    Í b-lið er lagt til að þrjár nýjar málsgreinar bætist við 78. gr. og þær verði 3.–5. mgr. ákvæðisins.
    Lagt er til að náðunarnefnd geti aflað upplýsinga frá heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki til staðfestingar á læknisvottorðum og heilsu náðunarbeiðanda eða kæranda. Ljóst er að einstaklingar sækja oftast um náðun á grundvelli heilsufarsástæðna og því er mikilvægt að heilsufarsupplýsingar náðunarbeiðanda séu réttar, enda hefur borið á því að vottorð sem berast nefndinni séu sum hver orðin gömul. Nauðsynlegt er því að kveða á um rétt náðunarnefndar til að afla upplýsinga um heilsufar náðunarbeiðanda og eftir atvikum staðfestingu vottorða í lögum. Þá hafa margir fangar óskað eftir reynslulausn á grundvelli heilsufars og því nauðsynlegt að hafa heimildir til að staðfesta vottorð sem berast vegna þeirra.
    Þá er hnykkt á því að málsmeðferð fyrir nefndinni sé skrifleg. Borið hefur á því að málsaðilar vilji koma fyrir nefndina en því hefur verið hafnað. Það getur hins vegar verið nauðsynlegt í undantekningartilvikum að náðunarbeiðandi komi fyrir nefndina. Þannig verður heimilt að kalla þann sem biður um náðun fyrir nefndina en ekki þann sem kærir synjun á beiðni um samfélagsþjónustu eða reynslulausn.
    Loks er lagt til að þriðji aðili geti sótt um náðun fyrir dómþola. Þannig hefur það tíðkast undanfarin ár að heilbrigðisstarfsfólk eða nánir ættingjar sæki um náðun fyrir dómþola þar sem dómþoli, vegna ástands síns, er ekki fær um það sjálfur sökum alvarlegra veikinda. Rétt þykir að kveða á um þetta í lögum en hnykkja jafnframt á því að þetta gildi ekki um stjórnsýslukærur fyrir nefndinni. Þar verður þriðji aðili að hafa gilt umboð til að ganga erinda kæranda.

Um 15. gr.

    Við færslu ákvæða um reynslulausn úr almennum hegningarlögum í lög um fangelsi og fangavist, nú lög um fullnustu refsinga, hefur láðst að breyta lögum um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl. og er hér lagt til að bætt verði úr. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 16. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til sú breyting á 20. gr. laga um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, ofl., að ráðherra verði heimilt að fela Fangelsismálastofnun ríkisins að taka ákvörðun um hvort fullnusta eigi hér á landi dóma frá öðrum Norðurlöndum er varða fangelsisrefsingu, hvort hafa eigi umsjón með mönnum sem dæmdir eru í skilorðsbundið fangelsi, hlotið reynslulausn eða verið náðaðir.
    Lög um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., eru lög sem eru til nánast samhljóða á Norðurlöndunum. Lögin eru sérstök og gott dæmi um samstarf þessara ríkja. Samvinna ríkjanna á þessu sviði hefur gengið mjög vel og er sú tillaga sem lögð er hér fram gerð til að efla samvinnuna.
    Þessar ákvarðanir eru nú teknar af ráðherra en hagfelldara er að ákvarðanir sem þessar séu teknar hjá Fangelsismálastofnun ríkisins þar sem stofnunin raðar niður í fangelsin, ber ábyrgð á fullnustu refsinga og hefur bestu aðstöðuna til að meta þær beiðnir sem berast frá öðrum Norðurlöndum. Þá er þetta í samræmi við framkvæmd í Noregi og Danmörku þar sem ráðuneytin þar taka ekki lengur ákvarðanir samkvæmt lögum þessum.
    Árið 2006 samþykkti Alþingi breytingu á sama ákvæði sem fól það í sér að ráðherra varð heimilt að fela lögreglustjóra eða öðrum aðila á landsvísu að ákveða hvort verða skyldi við tilmælum skv. 1. gr. laganna, þ.e. er varðar fullnustu fésekta. Sama ár ákvað þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra að fela sýslumanninum á Blönduósi verkefnið. Sú tilhögun hefur gengið vonum framar.

Um 17. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til breyting á 1. mgr. 22. gr. laga um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, o.fl. Samkvæmt gildandi lögum er hægt að bera ákvörðun um að maður skuli taka út fangelsisrefsingu eða sæta umsjón hér á landi samkvæmt lögunum undir dómstóla. Með mögulegri færslu ákvarðanatöku til lægra setts stjórnvalds var ekki ætlunin að opna á kæruleið til ráðuneytisins enda mundi það þyngja ferlið og hafa neikvæð áhrif á það góða samstarf sem önnur Norðurlönd hafa átt við Ísland á þessu sviði. Hafa verður í huga að verið er að taka ákvörðun um að fullnusta refsingu hér á landi, þ.e. dæmda refsingu, t.d. þegar dómþoli hefur komið sér undan refsingu annars staðar á Norðurlöndum og flúið til Íslands svo dæmi sé tekið. Ekki verður við það unað að menn geti tafið ákvörðunartöku sem þessa að óþörfu og t.d. ferðast á milli landa til þess eins að komast hjá fullnustu. Því er eðlilegt að ákvörðun sé tekin á einu stjórnsýslustigi. Þó er heimilt, eins og gildir með allar ákvarðanir stjórnvalda um réttindi og skyldur borgaranna, að bera lögmæti ákvörðunarinnar undir dómstóla. Þrátt fyrir þá sjálfsögðu reglu var talið rétt að hnykkja á henni hér.

Um 18. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til sú breyting á 26. gr. laga um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl. að ráðherra verði heimilt að fela Fangelsismálastofnun ríkisins að taka ákvörðun um hvort bera eigi fram tilmæli til annarra Norðurlanda samkvæmt lögunum.
    Þessar ákvarðanir eru nú teknar í ráðuneytinu en hagfelldara er að ákvarðanir sem þessar séu teknar hjá Fangelsismálastofnun ríkisins enda ber stofnunin fram beiðnir sem þessar til ráðuneytisins og ekki nauðsynlegt að hafa ráðuneytið sem millilið. Þá er þetta í samræmi við framkvæmd í Noregi og Danmörku þar sem ráðuneytin þar taka ekki lengur ákvarðanir samkvæmt lögum þessum.
    Sambærileg breyting var gerð hvað varðar fésektir árið 2006 og hefur sú tilhögun gengið vel.
    Að öðru leyti vísast til athugasemda með 14. gr.

Um 19. gr.

    Í lögum um lögmenn eru ráðherra falin ýmis verkefni. Þannig tekur ráðuneytið við umsóknum um lögmannsleyfi bæði vegna málflutnings í Hæstarétti og í héraði og gefur út leyfi til þeirra sem uppfylla skilyrði laganna til að hafa leyfi. Ráðuneytið tekur til geymslu óvirk lögmannsleyfi þegar lögmenn leggja leyfi sín inn á meðan þeir stunda ekki lögmannsstörf og afhendir þeim aftur óski þeir þess að uppfylltum skilyrðum. Þá gefur ráðuneytið út vottorð um að héraðsdómslögmaður uppfylli skilyrði til að mega þreyta prófraun í Hæstarétti og fellir niður lögmannsréttindi við nánar tiltekin skilyrði. Þá heldur ráðuneytið skrá um lögmenn, auglýsir veitingu, afhendingu og niðurfellingu eða innlögn réttinda og veitir upplýsingar um nánari framkvæmd laganna.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að þessi verkefni ráðuneytisins verði færð til sýslumanna. Jafnframt verði ákvarðanir sýslumanns kæranlegar til ráðuneytisins. Þannig verði unnt að fá endurskoðun á ákvörðunum sýslumanns. Er það til þess fallið að auka réttaröryggi í þessum málaflokki.

Um 20. gr.

    Um ákvæðið vísast til athugasemda með 16. gr.

Um 21. gr.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sýslumaður í stað ráðuneytisins skrái trúfélög og lífsskoðunarfélög og athugi hvort skilyrði laganna um skráningu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga séu uppfyllt. Því er lögð til sú breyting að skjóta megi ákvörðun sýslumanns um þessi mál til ráðuneytisins. Sú kæruheimild breytir því ekki að aðila máls er almennt heimilt að bera stjórnvaldsákvörðun undir dómstóla, án þess að kæruleið sé tæmd, nema lög mæli fyrir um annað.

Um 22. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 23. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að sýslumaður geti heimilað dreifingu á ösku látins manns. Um nánari reglur um dreifingu ösku látins manns fer samkvæmt reglugerð settri með heimild í 1. mgr. 50. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu og er þá gert ráð fyrir að ráðuneytið geti sett reglur um hvernig slíkar ákvarðanir skuli teknar.

Um 24. gr.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að skjóta megi ákvörðun sýslumanns um þessi mál til ráðuneytisins. Sú kæruheimild breytir engu um það að aðila máls er almennt heimilt að bera stjórnvaldsákvörðun undir dómstóla, án þess að kæruleið sé tæmd, nema lög mæli fyrir um annað.

Um 25. gr.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sýslumanni verði falið að taka ákvarðanir sem varða kvöð á arfi og niðurfellingu á kvöð á arfi í stað ráðuneytisins og ráðherra. Einnig verði sýslumanni heimilt að fella niður kvaðir á arfi að nokkru leyti eða öllu, þegar erfingi hefur náð 21 árs aldri, ef sönnur eru færðar fyrir að ástæður kvaðar eru ekki lengur fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 50. gr. erfðalaga. Er það hvoru tveggja til þess að færa mál frá ráðuneytinu og til þess að bæta stjórnsýslumeðferð mála þannig að kostur sé á því að um það sé fjallað á tveimur stjórnsýslustigum í stað eins, líkt og verið hefur frá því erfðalög voru sett.
    Lagt er til að þessi verkefni ráðuneytisins verði færð til sýslumanna. Jafnframt verði ákvarðanir sýslumanns kæranlegar til ráðuneytisins. Þannig verði unnt að fá endurskoðun á ákvörðunum sýslumanns. Er það til þess fallið að auka réttaröryggi í þessum málaflokki.

Um 26. gr.

    Í lögræðislögunum eru ákvæði um að haldnar skuli skrár yfir lögræðissvipta menn (6. mgr. 14. gr.), lögræðissviptingar sem breytt er eða þær felldar niður (5. mgr. 15. gr.), ráðsmenn og skjólstæðinga þeirra (3. mgr. 40. gr.) og skipaða lögráðamenn (2. mgr. 57. gr.). Þá skulu yfirlögráðendur (sýslumenn) hver í sínu umdæmi halda gerðabækur sem hafa skulu að geyma ákvarðanir þeirra samkvæmt lögunum. Í því felst t.d. eftirlit með störfum skipaðra lögráðamanna og ráðsmanna (80.–82. gr.). Þá skulu vissar niðurstöður úrskurða dómara um fjárræðissviptingar birtar í Lögbirtingablaði.
    Í frumvarpinu er áfram lagt til að yfirlögráðendur haldi gerðabækur en til viðbótar þeim bókum komi til málaskrár sem þeir haldi. Jafnframt verði ráðuneytinu heimilt að koma á fót miðlægri málaskrá í rafrænu formi sem yfirlögráðendur halda. Í þá miðlægu skrá væri t.d. hægt að skrá ákvarðanir yfirlögráðenda og upplýsingar úr lögbundnum skrám og Lögbirtingablaði og annað sem yfirlögráðendur telja þörf á. Með reglugerð gæti ráðuneytið síðan ákveðið hversu víðtækur aðgangur yrði að þessari málaskrá, t.d. hvað varðar dómara.
    Ráðuneytið mun fela Þjóðskrá Íslands að gera þessa rafrænu málaskrá og leggja fyrir að skráin verði þannig úr garði gerð að auðvelt verði að bæta henni (kerfishlutanum) við nýtt starfskerfi sýslumanna sem ráðuneytið hyggst fela Þjóðskrá Íslands að gera á grunni þeirra kerfa sem til eru hjá sýslumönnum og Þjóðskrá Íslands hefur unnið að og þróað og stýrt (t.d. nauðungarsölu- og aðfararkerfi). Hönnun rafrænu málaskrárinnar yrði hagað þannig að viðeigandi upplýsingar yrðu skráðar af hlutaðeigandi yfirlögráðanda og vistaðar í miðlægum gagnagrunni í umsjón og á ábyrgð Þjóðskrár Íslands, sem síðan miðlaði gögnunum rafrænt til yfirlögráðenda og þeim gögnum til annarra sem fengið hefðu til þess leyfi samkvæmt reglugerð.
    Þar sem nokkurn tíma tekur að gera rafræna málaskrá vegna lögræðislaganna þykir rétt að 2.–4. mgr. 24. gr. (82. gr. lögræðislaga) taki gildi 1. apríl 2014. Aftur á móti er 1. mgr. óbreytt og tekur því gildi 1. janúar 2014.

Um 27. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 28. gr.

    Meðal þess sem frumvarp þetta leggur til er að Útlendingastofnun veiti og staðfesti ríkisborgararétt í stað ráðuneytisins, veiti lausn frá íslensku ríkisfangi og fari með tiltekin verkefni tengd íslenskum ríkisborgararétti sem verið hafa á verksviði ráðuneytisins. Verði frumvarpið að lögum mun almannaskráning vegna breytingar á ríkisfangi og fleiru í því sambandi byggjast á gögnum frá Útlendingastofnun í stað ráðuneytisins.
    Með lögum nr. 6/2013 var gerð breyting á lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999, þegar heimilt varð að skrá lífsskoðunarfélög að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í frumvarpi með þessari breytingu voru lagðar til breytingar á ýmsum lögum, þ.m.t. hjúskaparlögum, nr. 31/1993. Þar láðist að leggja til breytingu á 2. mgr. 26. gr. hjúskaparlaga. Hér er lagt til að úr því verði bætt og er málsgreinin umorðuð svo hún nái jafnt til skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.
    Aðrar breytingar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna
frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta
og annarra embætta og stofnana.

    Markmiðið með frumvarpi þessu er að bæta þjónustu og auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar. Frumvarpið stuðlar enn fremur að auknu réttaröryggi borgaranna þar sem sumar stjórnvaldsákvarðanir verða nú kæranlegar til hærra setts stjórnvalds. Í þessum tilgangi eru lagðar til breytingar í þá veru að verkefni verða flutt frá aðalskrifstofu innanríkisráðuneytisins til undirstofnana þess, sem oft búa yfir mikilli fagþekkingu og vinna nú þegar að tengdum verkefnum. Þá er einnig ætlunin að styrkja sýslumannsembættin með flutningi verkefna til þeirra samhliða því að dregið verði úr umfjöllun um svonefnd afgreiðslumál hjá aðalskrifstofunni og henni þar með gert betur kleift að sinna umfjöllun um veigameiri og stefnumarkandi mál.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þessar helstar: Útlendingastofnun taki að sér hlutverk innanríkisráðherra við veitingu ríkisborgararéttar, sýslumönnum verði falið að annast leyfisveitingar til opinberra fjársafnana, lögð verði af kæruheimild á ákvörðunum sýslumanna um sérstök framlög vegna framfærslu barna, náðunarnefnd verði sjálfstæð úrskurðarnefnd vegna samfélagsþjónustu og reynslulausnar, Fangelsismálastofnun verði veitt vald til að ákveða að fullnusta refsidóma sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, sýslumönnum verði falin umsýsla með málefnum lögmanna, forstjóra Fangelsismálastofnunar verði falið að skipa í stöður forstöðumanna fangelsa þegar þeir fara í leyfi, sýslumönnum verði falin skráning og eftirlit með trúfélögum og lífsskoðunarfélögum, sýslumönnum verði falið að veita leyfi til dreifingar á ösku látinna manna og einnig að taka ákvörðun um kvaðabindingu arfs eða niðurfellingu kvaðar á arfi. Framangreindum breytingum er ýmist ætlað að taka gildi 1. janúar eða 1. apríl 2014.
    Samhliða því að verkefni verði færð frá aðalskrifstofunni til undirstofnana ráðuneytisins er jafnframt áformað að auka sérhæfingu og verkaskiptingu á meðal þeirra. Þannig er gert ráð fyrir að ákveðnum sýslumannsembættum verði falin afgreiðsla mála í stað þess að sams konar mál séu afgreidd hjá mörgum embættum. Gera má ráð fyrir að það muni leiða til hagræðis með minni kostnaði fyrir ríkissjóð og hraðari afgreiðslu fyrir borgarana. Á móti kemur að í einhverjum tilvikum verður hægt að kæra ákvarðanir til hærra setts stjórnvalds. Slíkt er ekki mögulegt þar sem ákvarðanir eru teknar í ráðuneyti. Gera má ráð fyrir að það leiði til aukinna verkefna að hálfu ráðuneytisins en málafjöldi verður líkast til óverulegur og kostnaður ætti að rúmast innan fjárheimilda þess.
    Verði frumvarpið lögfest óbreytt verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Hins vegar mun koma til millifærslna fjárheimilda á milli stofnana. Þannig má gera ráð fyrir að eitt eða tvö stöðugildi flytji til Útlendingastofnunar vegna afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt. Önnur verkefni eru viðaminni og þótt þeim hafi verið sinnt um árabil liggur ekki fyrir af hálfu innanríkisráðuneytisins á þessu stigi hversu miklar fjárveitingar þarf að flytja á milli aðila vegna þeirra þar sem það muni ráðast þegar ráðuneytið hefur skoðað betur hvernig fella megi verkefnin inn í starfsemi viðkomandi stofnana. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014, sem nú er til afgreiðslu á Alþingi, eru engar tillögur um millifærslur fjárheimilda á milli viðkomandi stofnana.