Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 100. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 200  —  100. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Margréti Gauju Magnúsdóttur
um meðhöndlun úrgangs.


     1.      Hvað kosta framkvæmdir sem tengjast nýjum kröfum í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs?
    Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs hefur að geyma stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum næstu 12 árin. Þau markmið sem lögð eru til í landsáætluninni þarf að setja fram í viðeigandi löggjöf og verður við þá vinnu lagt mat á kostnaðaráhrif af setningu markmiðanna. Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs var ekki kostnaðarmetin sérstaklega af þeim sökum.
    Samkvæmt lögum nr. 55/2003 skal ráðherra gefa út til tólf ára í senn almenna áætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir landið allt. Áætlunin skal taka mið af lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim og hafa að markmiði að draga markvisst úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurnýtingu. Í áætluninni skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála í landinu og aðgerðir eða stefnumörkun til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra gaf út landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir tímabilið 2013–2024 í apríl sl. Í áætluninni er að finna ítarlegt yfirlit yfir núverandi stöðu úrgangsmála á Íslandi, bæði hvað varðar magn einstakra úrgangsflokka og þróun mismunandi leiða í meðhöndlun úrgangs. Þar eru einnig sett fram tímasett markmið sem öll miða að því að bæta nýtingu auðlinda og lágmarka þau neikvæðu áhrif sem myndun og meðhöndlun úrgangs hefur á umhverfið og heilsu manna.
    Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013–2024 kemur í stað fyrri áætlunar, sem kom út árið 2004 og gilti fyrir tímabilið 2004–2016. Í núverandi áætlun er lögð áhersla á að ævinlega þurfi að skoða úrgangsmál í víðu samhengi, enda ræðst úrgangsmyndunin öðru fremur af neyslu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Þetta kallar á að beitt sé lífsferilshugsun í allri stefnumótun og ákvarðanatöku um úrgangsmál, jafnt á vettvangi ríkis og sveitarfélaga. Gerð er grein fyrir stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum, bæði á alþjóðlegum vettvangi, innan Evrópusambandsins, á norrænum vettvangi og innan lands. Stefna íslenskra stjórnvalda endurspeglast í áætluninni, en framkvæmd stefnunnar verður óhjákvæmilega að talsverðu leyti í höndum sveitarfélaganna. Meginmarkmiðin eru skilgreind í landsáætlun, en nánari útfærslum verður síðar lýst í svæðisáætlunum sem sveitarstjórnir koma sér upp einar sér eða sameiginlega fyrir stærri svæði.

     2.      Hefur ráðherra í hyggju að endurskoða áætlunina?
    Samkvæmt 4. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, skal meta landsáætlun um meðhöndlun úrgangs á a.m.k. sex ára fresti og endurskoða hana eftir þörfum. Þannig er gert ráð fyrir að ráðherra meti innihald og framgang landsáætlunar með reglubundnum hætti til að tryggja gildi þeirra upplýsinga sem fram koma í áætluninni og nothæfi hennar til stefnumótunar. Þá eru ákvæði í lögunum sem kveða á um að tryggja eigi almenningi aðgang að áætluninni og að hún skuli aðgengileg á heimasíðu Umhverfisstofnunar, sem á að tryggja aðgang allra að áætluninni. Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að ráðuneytið mun á næstu missirum meta landsáætlun um meðhöndlun úrgangs og taka í framhaldi af því afstöðu til þess hvort endurskoða þurfi áætlunina.