Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 80. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 215  —  80. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um kvartanir og athugasemdir við störf lögreglunnar.


     1.      Hvaða leiðir hefur fólk til þess að kvarta, gera athugasemdir eða eftir atvikum leita réttar síns telji það lögreglu hafa brotið á sér eða öðrum eða gegn lögum með störfum sínum?
    Samkvæmt 35. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, rannsakar ríkissaksóknari kærur á hendur lögreglu fyrir ætlað refsivert brot í starfi. Beina skal skriflegri kæru til ríkissaksóknara og fer hann með rannsókn málsins.
    Einstaklingur sem vill leggja fram kvörtun, gera athugasemdir eða leita réttar síns gagnvart lögreglu getur á næstu lögreglustöð látið taka af sér skýrslu sem lögreglan skráir og er hún þá send ríkissaksóknara í samræmi við framangreint. Kvörtunum eða athugasemdum vegna framgöngu og starfshátta lögreglu, þegar ekki er um refsiverða háttsemi að ræða, á að beina til viðkomandi lögreglustjóra eða ríkislögreglustjóra eftir atvikum.

     2.      Hvernig er haldið utan um og unnið með slíkar kvartanir og athugasemdir?
    Kærur á hendur lögreglumönnum eru sérstaklega skráðar og heldur embætti ríkissaksóknara utan um fjölda kæra skv. 35. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.
    Kvartanir og athugasemdir eru hins vegar af ýmsum toga og misjafnt hvernig þær berast til lögreglu, m.a. með tölvupósti, símtali eða með því að fólk mætir á lögreglustöð og kemur þeim þar á framfæri. Þá geta kvartanir og athugasemdir vegna lögreglu einnig borist innanríkisráðuneyti og ríkislögreglustjóra og er afgreiðsla þessara mála því á hendi margra.
    Í flestum tilvikum nægir fólki að fá skýringar á verklagi eða löggjöf sem lögreglan vinnur eftir. Hins vegar gildir bæði með kvartanir og athugasemdir að þær eru teknar til skoðunar og rætt við hlutaðeigandi og rýnt í umkvörtunarefnið. Telji lögreglustjóri tilefni til getur hann beitt ýmsum agaviðurlögum, svo sem skriflegri áminningu, skriflegri aðfinnslu, tiltali, tilfærslu í starfi o.s.frv.
    Þess má geta að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur sett á fót vinnuhóp innan embættisins sem ætlað er að semja verklagsreglur um feril og skráningu kvartana og athugasemda. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að vinna hópsins muni nýtast öðrum lögregluembættum.

     3.      Hversu margar kvartanir og athugasemdir við störf lögreglu hafa borist frá almennum borgurum frá árinu 2002? Óskað er eftir að svarið verði sundurgreint eftir árum, eðli atvika, úrvinnslu mála og niðurstöðu þeirra.
    Rétt er að ítreka að talsverður munur er á kvörtun og aðfinnslu annars vegar og kæru hins vegar. Um rannsókn þessara mála og afgreiðslu fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
    Málalok samkvæmt lögunum geta verið á fimm vegu, að kæru sé vísað frá, sbr. 4. mgr. 52. gr., að rannsókn máls sé hætt, sbr. sama ákvæði, að málið sé fellt niður að lokinni rannsókn ríkissaksóknara ef það sem fram hefur komið við rannsóknina telst ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis, sbr. 145. gr., að fallið sé frá saksókn, sbr. 146. gr., þrátt fyrir að ætla megi samkvæmt játningu kærða og öðrum gögnum að brot hafi verið framið og loks að gefin sé út ákæra.
    Hér má sjá fjölda mála á tímabilinu 1. janúar 2002 – 22. október 2013:

Kærur alls Máli lokið
án ákæru
Fjöldi
ákæra
Héraðsdómur sakfelling Héraðsdómur
sýkna
Hæstiréttur Óafgreitt
2002 31 30 1 0 1 0 0
2003 19 17 2 2 0 2 0
2004 26 23 3 0 0 0
2005 22 21 1 1 0 0 0
2006 17 17 0 0 0 0 0
2007 29 28 1 1 viðurl. 0 0 0
2008 26 25 1 1 0 0 0
2009 18 17 1 0 1 sakf. 0
2010 28 25 3 sekt 2 0 0
2011 28 26 2 1 1 sýkn 0
2012 30 30 0 0 0 0 0
2013 28 15 1 12
Samtals 302 274 16 12

    Þegar litið er til ársskýrslna ríkissaksóknara tengdust flest málin handtökum en einnig öðrum atvikum svo sem leit, umferðarlagabrotum, fjárdrætti o.fl.