Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 177. máls.

Þingskjal 217  —  177. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (skilyrði til greiðslu örorkulífeyris og fjárfestingarheimildir).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
1. gr.

    Á eftir 5. mgr. 15. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er, að fengnu áliti trúnaðarlæknis lífeyrissjóðs, að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt gæti heilsufar hans.

2. gr.

    Við 36. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú greiðir launagreiðandi inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð, sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélags, með því að gefa út skuldabréf sem ekki eru skráð á skipulegum markaði og skal sjóðnum þá heimilt að eiga slík skuldabréf óháð takmörkunum þessarar greinar.

3. gr.

    Í stað ártalsins „2013“ í 2. málsl. ákvæðis til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 2014.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldu- tryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er lagt til að lífeyrissjóði verði veitt heimild til þess að skilyrða greiðslu örorkulífeyris við að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, enda liggi fyrir álit trúnaðarlæknis sjóðsins. Samsvarandi ákvæði er að finna í lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í öðru lagi er lagt til að mælt verði fyrir um að greiði launagreiðandi inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð, sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélags, með skuldabréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, verði sjóðnum heimilt að eiga slík skuldabréf óháð takmörkunum 36. gr. Í þriðja lagi er lagt til að heimild lífeyrissjóða til þess að eiga allt að 20% hlutafé í samlagshlutafélögum verði framlengd um eitt ár eða til 31. desember 2014.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ákvæðin í frumvarpinu voru áður í frumvörpum sem voru lögð fram á 141. löggjafarþingi (469. og 625. mál) og 142. löggjafarþingi (48. mál). Þau frumvörp voru unnin að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið og Landssamtök lífeyrissjóða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að heimilt verði að binda greiðslu örorkulífeyris því skilyrði að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, sem gæti bætt heilsufar hans, enda liggi fyrir álit trúnaðarlæknis sjóðsins í þá veru. Samsvarandi ákvæði er í 16. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Lagt er til að öðrum lífeyrissjóðum verði heimilt að byggja á slíkum sjónarmiðum og í því sambandi er sérstaklega litið til laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, þar sem m.a. er mælt fyrir um rétt þeirra sem þiggja örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum til starfsendurhæfingar á vegum starfsendurhæfingarsjóða.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að mælt verði fyrir um að greiði launagreiðendur inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð, sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélags, með útgáfu skuldabréfa sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, verði sjóðnum heimilt að eiga slík skuldabréf óháð takmörkunum 36. gr. Þau skuldabréf sem hér er vísað til teljast til hreinnar eignar í skilningi
7. mgr. 36. gr. laganna.
    Aðilar, sem tryggðu starfsmenn í sjóðum með bakábyrgð ríkis eða sveitarfélags, ábyrgjast í einhverjum mæli hver fyrir sinn hóp greiðslur úr þeim. Stjórnum sjóðanna hafa verið veittar heimildir ýmist í lögum eða samþykktum til þess að taka við skuldabréfum til greiðslu á skuldbindingum sem verða leiddar af þessari ábyrgð launagreiðenda. Það þykir rétt að veita þessum lífeyrissjóðum heimildir til þess að eiga slík skuldabréf óháð ákvæðum 36. gr. með vísan til þess að það er mikilvægt að launagreiðendur eigi þess kost að greiða skuld sína við lífeyrissjóð með skuldabréfi og að jafnræðis launagreiðenda sé gætt í því tilliti. Með sama hætti er það mikilvægt fyrir lífeyrissjóðinn að fá skuldbindinguna greidda með skilgreindu greiðsluflæði. Það ákvæði sem hér er lagt til hefur ekki áhrif á stöðu bakábyrgðaraðila.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að heimild til að lífeyrissjóður eigi allt að 20% af hlutafé í samlagshlutafélagi verði framlengd um eitt ár, til ársloka 2014. Heimildin kom inn í lögin með 13. gr. laga nr. 171/2008, sbr. 40. gr. laga nr. 130/2009. Lífeyrissjóðir hafa í talsverðum mæli fjárfest í samlagshlutafélögum undanfarin ár enda hentar það félagsform sjóðunum að mörgu leyti vel. Samlagshlutafélögin sjálf hafa síðan fjárfest í ýmsum eignum og þannig verið umgjörð um fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Samlagshlutafélagaformið hentar að ýmsu leyti síður fyrir félög með mjög marga eigendur en hlutafélagaformið. Færa má rök fyrir því að hið almenna 15% þak á eign í einstöku félagi sem veitt er undanþága frá með þessu ákvæði ætti ef til vill ekki að eiga við um fjárfestingar lífeyrissjóða í samlagshlutafélögum. Auðveldara er fyrir lífeyrissjóði að standa að samlagshlutafélagi ef hlutdeild hvers og eins má vera allt að 20% en ef hún má eingöngu vera 15% vegna þess að færri sjóðir þurfa að koma að hverju félagi. Hér er þó ekki lagt til að almennu reglunni verði breytt en að undanþáguákvæðið verði hins vegar framlengt í ljósi þess að unnið er að endurskoðun lagaákvæða um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í nefnd sem fjármála- og efnahagsráðherra sett á fót í upphafi árs.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (skilyrði til greiðslu örorkulífeyris og fjárfestingarheimildir).

    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi veitir frumvarpið lífeyrissjóði heimild til þess að skilyrða greiðslu örorkulífeyris við að sjóðfélagi fari í endurhæfingu. Í öðru lagi bætist ný málsgrein við 36. gr. laganna í þeim tilgangi að auðvelda launagreiðendum að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lífeyrissjóðum. Ákvæðið gerir launagreiðendum kleift að greiða inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð með því að gefa út skuldabréf sem ekki eru skráð á skipulegum markaði og skal lífeyrissjóðnum þá heimilt að eiga slík skuldabréf óháð takmörkunum greinarinnar. Í þriðja lagi er lagt til að heimild lífeyrissjóða til þess að eiga allt að 20% hlutafé í samlagshlutafélögum verði framlengd um eitt ár eða til 31. desember 2014.
    Erfitt er að segja fyrir um hvaða áhrif það mun hafa á afkomu ríkissjóðs að heimila lífeyrissjóðum að skilyrða greiðslu örorkulífeyris við að sjóðfélagi fari í endurhæfingu. En samkvæmt lögum nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, er m.a. mælt fyrir um rétt þeirra sem þiggja örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum til starfsendurhæfingar á vegum starfsendurhæfingarsjóða. Kostnaður gæti aukist vegna fjölgunar við starfsendurhæfingu en að sama skapi getur starfsendurhæfing borið árangur og dregið úr kostnaði vegna örorku. Starfsendurhæfingarsjóðir eru í dag fjármagnaðir af lífeyrissjóðum, ríkinu og atvinnugreiðanda og í árslok 2016 mun liggja fyrir greining á því hvaða árangri starfsendurhæfingarsjóðir hafa skilað yfir nokkurra ára bil í að draga úr örorkuhlutfalli. Breytingar sem koma fram í þessu frumvarpi geta liðkað fyrir samningum lífeyrissjóða við launagreiðendur sem vilja standa við skuldbindingar gagnvart lífeyrissjóðum og því haft þær afleiðingar að slíkar skuldbindingar innheimtist betur en ella. Einnig er mikilvægt fyrir lífeyrissjóði að hafa aukið svigrúm til fjárfestinga í samlagshlutafélögum í ljósi þess að gjaldeyrishöft eru við lýði og takmarkaðir fjárfestingarmöguleikar blasa við fyrir lífeyrissjóðina. Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér bein áhrif á fjárhag ríkissjóðs.