Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 94. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 219  —  94. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda,
nr. 62/2005, með síðari breytingum (talsmaður neytenda o.fl.).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og Björn Frey Björnsson frá innanríkisráðuneyti, Gísla Tryggvason, talsmann neytenda, Tryggva Axelsson, Matthildi Sveinsdóttur, Þórunni Önnu Árnadóttur og Helgu Sigmundsdóttur frá Neytendastofu, Hildigunni Hafsteinsdóttur og Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum og Ingibjörgu Halldórsdóttur og Björn Karlsson frá Mannvirkjastofnun. Umsagnir bárust frá Mannvirkjastofnun, Neytendasamtökunum, Neytendastofu, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum verslunar og þjónustu.
    Frumvarpið er liður í endurskipulagningu neytendamála sem byggist á tillögum starfshóps sem skipaður var haustið 2011. Hlutverk starfshópsins var að fara yfir skipan neytendamála, hlutverk ráðuneyta og stofnana auk þess að skoða hlutverk frjálsra félagasamtaka í neytendamálum. Ein tillaga starfshópsins var að leggja niður embætti talsmanns neytenda og styrkja neytendamál með öðrum hætti með því fjármagni sem varið er í embættið. Frumvarp þetta byggist á þessari tillögu, þ.e. að verkefni talsmanns neytenda verði sameinuð verkefnum Neytendastofu. Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæði um forstjóra Neytendastofu.
    Nefndin bendir á að megintilgangur frumvarpsins er að gera stjórnsýslu á sviði neytendamála skilvirkari og telur nefndin að með frumvarpinu megi ná fram hagræðingu í ríkisrekstri um leið og neytendavernd er styrkt. Telur nefndin að ávinningur felist í því að málefnin séu á hendi sömu stofnunar þar sem mikil sérþekking sé til staðar sem og að Neytendastofa búi yfir úrræðum og heimildum til að beita viðurlögum gagnvart þeim aðilum sem ekki virða réttindi neytenda. Um leið og nefndin fagnar því skrefi sem hér er tekið bendir hún á að nú stendur yfir heildarendurskoðun á málaflokknum í samræmi við tillögur starfshópsins.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu ábendingar um að markaðseftirlit með rafföngum væri bæði hjá Neytendastofu og Mannvirkjastofnun. Neytendastofa framkvæmir eftirlit með rafföngum sem eru ekki varanlega tengd mannvirkjum en eftirlit með rafmagnsöryggi almennt og markaðseftirlit með rafföngum er að öðru leyti hjá Mannvirkjastofnun. Nefndin ræddi þessi mál nokkuð og hefur hún hug á því að skoða þau sérstaklega í kjölfarið.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
         Unnur Brá Konráðsdóttir og Jóhanna María Sigmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. nóvember 2013.

Páll Valur Björnsson,
1. varaform.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Haraldur Einarsson.

Elsa Lára Arnardóttir.
Guðbjartur Hannesson.
Helgi Hrafn Gunnarsson.

Svandís Svavarsdóttir.