Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 179. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 221  —  179. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á tollalögum og lögum um vörugjald (staðgengdarvörur kúamjólkur).

Flm.: Brynhildur Pétursdóttir, Björt Ólafsdóttir, Freyja Haraldsdóttir,
Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall.


I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. kafla tollskrár í A-lið viðauka I við lögin:
     a.      Tollur á vörum í eftirfarandi tollskrárnúmerum verður 0%: 2202.9031, 2202.9032, 2202. 9033, 2202.9034, 2202.9035, 2202.9036, 2202.9037, 2202.9039, 2202.9041, 2202.9042, 2202.9043, 2202.9044, 2202.9045, 2202.9046, 2202.9047, 2202.9049.
     b.      Fyrirsögn vöruliðarins 2202.9040 orðast svo: Drykkjarvörur úr hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.
2. gr.

    Af vörum í eftirtöldum tollskrárnúmerum í B-lið viðauka I við lögin verður magngjald 0 kr./l: 2202.9031, 2202.9032, 2202.9033, 2202.9034, 2202.9035, 2202.9036, 2202.9037, 2202.9039, 2202.9041, 2202.9042, 2202.9043, 2202.9044, 2202.9045, 2202.9046, 2202. 9047, 2202.9049.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014.

Greinargerð.

    Neysla mjólkurafurða hefur aukist að undanförnu. Útlit er fyrir að fyrirtæki í mjólkurvinnslu muni af þeim sökum kaupa um 3 milljónir lítra mjólkur umfram greiðslumark á líðandi ári. Ákveðinn hópur fólks getur hins vegar ekki neytt mjólkur vegna mjólkurofnæmis eða mjólkuróþols. Fyrir þennan hóp eru staðgengdarvörur mjólkur mikilvægur þáttur þess að viðhalda eðlilegum lífsgæðum. Hið sama gildir um þá sem kjósa að neyta ekki mjólkur af öðrum ástæðum.
    Helstu staðgengdarvörur mjólkur eru innflutt sojamjólk, hrísmjólk, möndlumjólk og haframjólk. Umtalsverður verðmunur er hins vegar á innlendri kúamjólk og staðgengdarvörum hennar. Einn lítri af hreinni sojamjólk kostar t.d. 369 kr. í einum af leiðandi stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu en einn lítri af nýmjólk kostar 128 kr. og einn lítri af léttmjólk 115 kr. Verð á staðgengdarvöru mjólkur virðist því vera allt að því þrefalt verð kúamjólkur.
    Samkvæmt upplýsingum sem Hagstofa Íslands hefur tekið saman má ætla að meðalfjölskylda eyði um 130.000 kr. í mjólkurvörur og egg á ári hverju. Telja verður líklegt að stór hluti þeirrar upphæðar sé tilkomin vegna kaupa á kúamjólk.
    Auðsætt er að mjólkurkaup koma mjög mismunandi niður á þeim sem neyta kúamjólkur og þeim sem neyta staðgengdarvara hennar. Verulegt tilefni er til þess að draga úr þessum mun enda er ekki réttlátt að refsa fjárhagslega þeim sem af einhverjum ástæðum kjósa að neyta ekki mjólkur. Af þessum sökum er hér lagt til að tollar og vörugjöld á sojamjólk, hrísmjólk, hnetumjólk, möndlumjólk og haframjólk verði felld niður.