Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 133. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 225  —  133. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Kristjáni L. Möller
um skiptingu tekna af hreindýraveiðileyfum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu miklar eru tekjur af seldum hreindýraveiðileyfum síðastliðin fimm ár, hvert fara þessar tekjur og hvernig er þeim skipt milli aðila? Svar óskast sundurliðað eftir árum.

    Undanfarin fimm ár hafa árlegar heildartekjur af sölu hreindýraveiðileyfa verið á bilinu 88 millj. kr. árið 2011 upp í rúmlega 106 millj. kr. árið 2008, sbr. eftirfarandi töflu. Samtals voru tekjur áranna 2008–2012 rúmlega 487 millj. kr. Tekjur af hreindýraveiði skiptast milli landeigenda þar sem hreindýrin ganga og Umhverfisstofnunar og Náttúrustofu Austurlands, sbr. töflu.

Skipting tekna
Ár Heildartekjur Arður og felligjöld til landeigenda / ábúenda Umhverfisstofnun Náttúrustofa Austurlands
2008 106.410.000 92.132.000 10.318.000 3.960.000
2009 96.965.000 82.655.500 10.352.500 3.957.000
2010 93.025.000 77.723.950 10.999.550 4.301.500
2011 88.765.000 74.250.500 9.009.000 5.505.500
2012 102.210.000 85.329.000 10.426.500 6.454.500

    Í reglugerð nr. 487/2003, með áorðnum breytingum, er kveðið á um framkvæmd hreindýraveiða, sölu veiðileyfa til hreindýraveiða, gjaldtöku og skiptingu tekna af sölunni. Samkvæmt reglugerðinni skiptist gjaldið í þrennt og á að standa undir hæfilegum arðgreiðslum, eftirliti og stjórn hreindýraveiða og rannsóknum og vöktun á hreindýrum. Ráðuneytið auglýsir árlega fjölda veiðileyfa og verð þeirra.
    Ákveðinn hluti af veiðileyfagjaldinu fer til Umhverfisstofnunar til þess að standa undir kostnaði við stjórnun og eftirlit með hreindýraveiðum. Undanfarin fimm ár hefur þessi fjárhæð verið á bilinu 9–11 millj. kr. árlega. Til Náttúrustofu Austurlands hafa á sama tímabili farið um 4–6,5 millj. kr. á ári til rannsókna og vöktunar. Árlegar arðgreiðslur til landeigenda og umráðamanna lands þar sem hreindýr ganga hafa numið frá um 75 millj. kr. upp í rúmar 92 millj. kr. á þessu tímabili. Um úthlutun arðs af hreindýraveiðum gildir reglugerð nr. 487/ 2003 en þar er kveðið á um að greiða skuli landeiganda svokallað felligjald af hverju dýri sem er fellt á hans landi og að eftirstöðvunum skuli ráðstafað þannig að fasteignamat lands og landstærð skuli leggja til grundvallar 40% af arðgreiðslunum og að um 60% skuli miða við ágang af völdum hreindýra. Umhverfisstofnun í samvinnu við Náttúrustofu Austurlands sér um að reikna út og greiða arð af hreindýraveiðum til landeigenda í samræmi við reglugerðina. Árlega fá um 900 aðilar greiddan arð af hreindýraveiðum.
    Þess ber að geta að fjöldi hreindýra sem leyfilegt er að veiða á ári er breytilegur og tekjur af hreindýraveiðum breytist því í samræmi við það og breytingar á taxta veiðileyfa.