Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 115. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 233  —  115. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Magnússyni
um bótasvik í almannatryggingakerfinu.


     1.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að stemma stigu við bótasvikum í almannatryggingakerfinu, m.a. með hliðsjón af ábendingum Ríkisendurskoðunar til velferðarráðuneytisins sem raktar eru í skýrslu til Alþingis frá því í febrúar sl.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins með bótagreiðslum koma m.a. fram ábendingar um að tryggja þurfi nauðsynlegt fjármagn til Tryggingastofnunar til að sinna öflugu eftirliti með bótagreiðslum og beita fyrirbyggjandi aðgerðum til að lágmarka hættu á bótasvikum og mistökum. Þessu hefur þegar verið fylgt eftir að því leyti að í frumvarpi til fjárlaga 2014 er lögð til veruleg hækkun framlaga til Tryggingastofnunar á næsta ári í þessu skyni. Þá kemur fram í framangreindri skýrslu Ríkisendurskoðunar að mikilvægt sé að skerpa á eftirlitshlutverki Tryggingastofnunar, svo sem að hún skuli hafa lögbundið eftirlit með bótagreiðslum og að styrkja þurfi lögbundnar heimildir hennar. Ráðherra tekur undir þessar ábendingar Ríkisendurskoðunar og hefur þegar brugðist við þeim með því að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra (sbr. þingskjal 162, 144. mál) þar sem tekið er á þessum atriðum.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir lagabreytingum sem styrki eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar og tryggi aðgengi hennar að upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að leggja mat á möguleg bótasvik?
    Í 2. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 86/2013 var m.a. kveðið á um eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar ríkisins. Í umsögnum bæði meiri og minni hluta velferðarnefndar Alþingis um frumvarpið kom m.a. fram að ljóst væri að Tryggingastofnun þyrfti á auknum eftirlitsheimildum að halda en nauðsynlegt væri að lagaákvæðin væru vel útfærð og tryggja þyrfti réttaröryggi fólks innan almannatryggingakerfisins. Nefndin samþykkti því ekki umrædd ákvæði frumvarpsins en beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að ákvæði er lutu að eftirliti Tryggingastofnunar yrðu endurskoðuð með hliðsjón af athugasemdum sem fram hefðu komið við meðferð frumvarpsins hjá nefndinni.
    Ráðherra hefur því að nýju lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra á yfirstandandi löggjafarþingi (sbr. þingskjal 162, 144. mál) þar sem gerð er tillaga um nýjan kafla í almannatryggingalögunum með ákvæðum um leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu og auknar eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar. Enn fremur er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að þeir aðilar, þ.m.t. önnur stjórnvöld, sem búa yfir upplýsingum sem geta haft áhrif á rétt til greiðslna samkvæmt almannatryggingalögum eða fjárhæðir þeirra, skuli láta Tryggingastofnun þær upplýsingar í té sem stofnunin þarfnast við framkvæmd laganna þannig að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Eru þessir aðilar tæmandi taldir í g-lið 2. gr. frumvarpsins. Þar er sérstaklega áréttað að upplýsingar þessar séu ekki umfram það sem nauðsynlegt er til að unnt sé að framfylgja ákvæðum laganna og að við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skuli stofnunin fylgja í einu og öllu skilyrðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

     3.      Kemur að mati ráðherra til greina að auka heimildir Tryggingastofnunar til að beita stjórnsýsluviðurlögum í bótasvikamálum?

    Í framangreindri skýrslu Ríkisendurskoðunar er einnig bent á að kanna þurfi hvort heimila eigi Tryggingastofnun ríkisins með lögum að ljúka sem flestum bótasvikamálum með stjórnsýsluviðurlögum. Ráðherra telur að rétt sé að heimila Tryggingastofnun að innheimta bætur, sem greiddar hafa verið á grundvelli vísvitandi rangrar upplýsingagjafar, með álagi. Í framangreindu frumvarpi er því lagt til í i-lið 2. gr. að komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar, eða að einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar, í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur, þá skuli viðkomandi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.
    Þessi heimild Tryggingastofnunar kemur á engan hátt í veg fyrir að stofnunin geti vísað þeim málum til lögreglu sem fela í sér alvarleg bótasvik og jafnvel varða við ákvæði almennra hegningarlaga. Hefur stofnunin reyndar nú þegar vísað nokkrum málum til lögreglu þar sem rökstuddur grunur leikur á að um alvarleg bótasvik sé að ræða.
    Það er að mati ráðherra brýnt að gera betur í þessum málum enda eiga bótasvik að vera ólíðandi í okkar þjóðfélagi þar sem þau geta grafið undan stoðum velferðarkerfisins. Þess vegna er það einnig til skoðunar í ráðuneytinu að efla eftirlit með bótasvikum víðar en í almannatryggingakerfinu, svo sem varðandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslur atvinnuleysisbóta.