Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 126. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 234  —  126. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur um geðheilbrigðisþjónustu við börn á Norður- og Austurlandi.


     1.      Hvað felst í samningi sem var gerður um geðheilbrigðisþjónustu við börn á Norður- og Austurlandi í október sl.?
    Sérgreinalæknir, sem áður starfaði á barna- og unglingageðdeild FSA á Akureyri, hefur nýlega gerst aðili að rammasamningi milli SÍ og barnageðlækna um sérfræðiþjónustu í barnageðlækningum. Samningurinn tekur til þjónustu sérfræðinga í barnageðlækningum sem reka eigin stofur utan sjúkrahúsa. Um þjónustuna samkvæmt rammasamningi milli SÍ og barnageðlækna gildir gjaldskrá og þar er miðað við að verksali leggi til vinnu aðstoðarfólks auk allrar nauðsynlegrar aðstöðu. FSA og viðkomandi læknir hafa samið um tímabundna leigu á aðstöðu FSA til 31. maí 2014.
    Sálfræðingur, sem starfaði áður á barna- og unglingageðdeild FSA á Akureyri, hefur sótt um aðild að rammasamningi milli SÍ og sjálfstætt starfandi sálfræðinga um sálfræðiþjónustu við börn með alvarlegar geð-, hegðunar- og þroskaraskanir.
    Samningur læknisins og sálfræðingsins við FSA felur í sér leigu á aðstöðu, þremur herbergjum og aðgengi að sjúkraskrárkerfi og sameiginlegu rými sem aðstöðunni tengist. Þau hafa kosið að sjá sjálf fyrir læknaritaraþjónustu, símsvörun og tímabókunum. Samningurinn felur ekki í sér störf þeirra í þágu sjúkrahússins eða að sjúkrahúsið sjái um annað en viðhald sjúkraskrárkerfis og húsnæðis.

     2.      Hverjir eru samningsaðilar?
    Páll Tryggvason, barna- og unglingageðlæknir, og Sjúkratryggingar Íslands hafa samið um aðkomu hans að rammasamningi SÍ og barnageðlækna um sérfræðiþjónustu í barnageðlækningum. Auk þessa hafa Páll Tryggvason, barna- og unglingageðlæknir, og Eyrún Kristína Gunnarsdóttir sálfræðingur gert samning við Sjúkrahúsið á Akureyri um leigu á aðstöðu.

     3.      Er þjónustan sambærileg við það sem hún var fyrir uppsagnir barna- og unglingageðlæknis og sálfræðings í apríl sl., m.a. varðandi þjónustu sálfræðings og greiðslur fyrir þjónustuna?

    Barna- og unglingageðlæknir sagði upp stöðu sinni við FSA á Akureyri fyrr á árinu. Stöðugildið hefur verið auglýst laust til umsóknar en án árangurs til þessa.
    Á FSA er starfrækt sérstök barna- og unglingageðdeild með einu stöðugildi sálfræðings. Deildin er að mestu í formi göngudeildarþjónustu við börn og foreldra þeirra til greiningar, meðferðar og eftirlits.
    Á Sjúkrahúsið á Akureyri er ráðinn sálfræðingur til barnadeildar. Sá sálfræðingur annast greiningu og meðferð kvíðaröskunar og greiningu og meðferð þeirra sjúklinga sem eru í meðferð hjá barnalæknum vegna vefrænna sjúkdóma og sem samtímis eru með t.d. námsörðugleika, kvíða, félagsvanda, grun um einhverfu og fleira. Jafnframt tekur sá sálfræðingur þátt í mati á bráðatilvikum, t.d. eftir sjálfsvígstilraunir. Sálfræðingur tekur þátt í nauðsynlegri forvinnu vegna tilvísana á barna- og unglingageðdeild LSH.

     4.      Er þjónustan sambærileg við þá þjónustu sem er veitt á höfuðborgarsvæðinu?
    Á höfuðborgarsvæðinu eru staðsettar stofnanir sem þjóna landinu öllu, svo sem barna- og unglingageðdeild (BUGL), Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, Þroska- og hegðunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins auk þess sem barnageðlæknar og sálfræðingar starfa á svæðinu. Aðgengi að þjónustunni á höfuðborgarsvæðinu er því annað en í öðrum landshlutum.
    Þegar barna- og unglingageðlæknir og sálfræðingur sögðu upp störfum sínum við FSA á Akureyri raskaðist óhjákvæmilega þjónusta við þá skjólstæðinga sem hennar höfðu notið.
    Um kostnaðarhlutdeild sjúklings fer samkvæmt gildandi reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, nú reglugerð nr. 1100/2012.

     5.      Hvenær rennur samningurinn út, hvaða geðheilbrigðisþjónusta verður þá í boði fyrir börn og unglinga á Norður- og Austurlandi og hvernig verður henni háttað?
    Rammasamningur barna- og unglingageðlækna og Sjúkratrygginga Íslands gildir til 31. desember 2013. Húsaleigusamningur læknisins og sálfræðingsins við FSA rennur út í lok maí 2014 og gert er ráð fyrir að leigutakar hafi þá fundið sér annað húsnæði fyrir starfsemi þeirra.
    Um niðurstöður ógerðra samninga sem taka við af núgildandi samningum verður ekki sagt fyrir um að svo stöddu.