Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 53. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 250  —  53. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Árna Þór Sigurðssyni
um innheimtu gjalda fyrir þjónustu heilbrigðisstofnana.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er fjárhæð óinnheimtra og óinnheimtanlegra gjalda fyrir þjónustu heilbrigðisstofnana árin 2011–2013, skipt á einstök ár, stofnanir og tegund gjalda?
     2.      Hversu háar fjárhæðir eru afskrifaðar ár hvert af álögðum gjöldum fyrir þjónustu heilbrigðisstofnana?
     3.      Hversu gamlar eru þessar kröfur að jafnaði þegar þær eru afskrifaðar?


    Við samningu svarsins var aðallega stuðst við upplýsingar frá heilbrigðisstofnunum og ORRA, bókhaldskerfi ríkisins. Tegundarlyklar bókhaldsins gefa ekki möguleika á að greina á milli tekna af sölu heilbrigðisþjónustu til sjúkratryggðra og ósjúkratryggðra einstaklinga, til fyrirtækja eða annarra stofnana. Af þessum sökum eru tekjur stofnana af sjúklingagjöldum áætlaðar, en gjöld fyrir þjónustu sem er veitt á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum eru almennt ákvörðuð í reglugerð nr. 1100/2012, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði við heilbrigðisþjónustu.
    Í eftirfarandi töflu má sjá áætlaðar tekjur stofnana af þjónustu við sjúklinga fyrir árin 2011 og 2012 og fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2013. Þar má einnig sjá stöðu á óinnheimtum kröfum, eftir aldri og áætlun um niðurfærslu þeirra samkvæmt upplýsingum frá stofnunum.
    Að jafnaði greiða um 80% sjúklinga gjöld sín á staðnum, 20% gjaldanna fara því alla jafna í innheimtu, svo sem í formi greiðsluseðla. Ekki fengust sambærilegar upplýsingar frá stofnunum um skiptingu tekna eftir tegundum, svo sem vegna komu á bráða- eða göngudeild, vegna rannsókna og röntgen og vegna komu á heilsugæslustöð svo að helstu tegundir séu nefndar. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala eru um 68% tekna vegna koma á slysa-, bráða- og göngudeildir, u.þ.b. 23% vegna koma í myndgreiningu (röntgen) og um 9% eru tekjur af rannsóknum. Samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilsugæslunni á Akureyri eru u.þ.b. 45% teknanna vegna komugjalda, 29% vegna læknisvottorða og um 17% vegna rannsókna.
    Algengt er að afskrifa kröfur sem eru orðnar þriggja til fjögurra ára gamlar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.