Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 200. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 251  —  200. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum (mannanafnanefnd, ættarnöfn).

Flm.: Óttarr Proppé, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall,
Páll Valur Björnsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      2. mgr. orðast svo:
             Telji prestur, forstöðumaður trúfélags eða Þjóðskrá að eiginnafn eða millinafn gangi gegn lögum þessum skal vísa málinu til ráðherra, sbr. þó 3. mgr. 6. gr. og 7. og 10. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      3. mgr. fellur brott.
     b.      Orðin „2. eða“ í 2. málsl. 5. mgr. falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Hver maður skal kenna sig til föður eða móður nema hann kjósi að bera ættarnafn, sbr. 5. mgr.
     b.      Í stað orðsins „mannanafnanefndar“ í 4. mgr. kemur: ráðherra.
     c.      7. mgr. fellur brott.


4. gr.

    5. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Það er skilyrði nafnbreytingar að hin nýju nöfn séu samþykkt af ráðherra, sbr. þó 3. mgr. 6. gr. og 7. og 10. gr.

5. gr.

    Orðin „að höfðu samráði við mannanafnanefnd“ í 20. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    VIII. kafli laganna, Mannanafnanefnd, 21.–23. gr., fellur brott ásamt fyrirsögn.

7. gr.

    Við 27. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Ráðherra er prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Þjóðskrá og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og sker úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn samkvæmt lögum þessum.
    Ráðherra sker úr öðrum álita- og ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun og fleira þess háttar.
    Ráðherra kveður upp úrskurði í málum sem til hans er vísað skv. 3. gr. og 4. mgr. 8. gr. Úrskurðir skulu kveðnir upp svo fljótt sem við verður komið og ekki síðar en innan fjögurra vikna frá því að mál berst til ráðuneytisins.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Nafn manns hefur verið talið einn mikilvægasti þáttur sjálfsmyndar hans og varðar fyrst og fremst einkahagi fólks og persónurétt þess en síður hagsmuni alls almennings. Réttur foreldra til að ráða nafni barns síns er mikill og óumdeildur en réttur löggjafans til afskipta af nafngjöfum er að sama skapi takmarkaður. Núgildandi lög um mannanöfn hafa sætt gagnrýni, þá sér í lagi hvað varðar mannanafnanefnd og úrskurði hennar. Dæmi eru um að nöfnum hafi verið hafnað þótt þau eigi sér langa sögu í íslensku samfélagi og tungu og hafi jafnvel tíðkast innan sömu fjölskyldu í margar kynslóðir.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að mannanafnanefnd verði lögð niður og öll ákvæði um hana felld brott úr lögum um mannanöfn, nr. 45/1996. Einnig er lagt til að þær kvaðir sem lög um mannanöfn fela í sér varðandi ættarnöfn verði felldar brott.
    Frumvarpið felur í sér að hlutverk mannanafnanefndar verði flutt til þess ráðherra sem fer með þennan málaflokk, sbr. 27. gr. laganna, og það verði hlutverk hans að skera úr álitamálum sem upp kunna að koma í sambandi við nafngiftir, nafnritun o.fl. Jafnframt verði mannanafnaskrá sem mannanafnanefnd hefur samið og gefið út lögð niður. Markmið frumvarpsins er m.a. að undirstrika þá meginreglu varðandi nöfn og nafngiftir fólks að almennt skuli gert ráð fyrir að nöfn séu leyfð og aðeins sérstakar aðstæður í undantekningartilfellum geti orðið til þess að ríkisvaldið komi í veg fyrir slíkt.
    Samkvæmt lögum um mannanöfn eru kenninöfn tvenns konar, föður- eða móðurnöfn og ættarnöfn. Ákvæði gildandi mannanafnalaga um kenninöfn mismuna þegnum landsins eftir ætt og uppruna en samkvæmt þeim er óheimilt að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi. Í 5. mgr. 8. gr. laganna segir að menn sem bera ættarnöfn við gildistöku laganna megi bera þau áfram, svo og niðjar þeirra í karllegg og kvenlegg. Hver maður sem ekki ber ættarnafn en á rétt til þess má breyta því í millinafn, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði hverjum manni að kenna sig til föður eða móður nema hann kjósi að bera ættarnafn. Einnig er lagt til að fellt verði brott það ákvæði að óheimilt sé að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi.