Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 117. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 263  —  117. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Magnússyni um afplánun.


     1.      Hversu hátt hlutfall þeirra fanga sem nú sitja í fangelsum eru að afplána skemmri refsingu en 12 mánuði óskilorðsbundið?
    Um 10% dómþola sem nú sitja í fangelsum ríkisins hafa 12 mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu eða minna.

     2.      Kemur til greina af hálfu ráðherra að beita sér fyrir lagabreytingum sem feli í sér auknar heimildir til handa Fangelsismálastofnun til að leyfa þeim sem hlotið hafa refsidóma að afplána þá undir rafrænu eftirliti í stað fangelsis, t.d. þeim sem dæmdir hafa verið til skemmri fangelsisvistar en 12 mánaða óskilorðsbundið?
    Samkvæmt gildandi lögum um fullnustu refsinga er heimilt, þegar maður hefur verið dæmdur í allt að níu mánaða óskilorðsbundið fangelsi, að fullnusta refsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klukkustundir og mest 360 klukkustundir, enda mæli almannahagsmunir ekki gegn því og önnur skilyrði eru uppfyllt. Til greina kemur að skoða hvaða aðrir kostir komi til greina við afplánun refsingu utan fangelsa, þ.m.t. afplánun undir rafrænu eftirliti.