Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 205. máls.

Þingskjal 267  —  205. mál.Frumvarp til laga

um breytingar á tollalögum, nr. 88/2005, lögum um vörugjald, nr. 97/1987, lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur,
nr. 52/1989, með síðari breytingum (sektir, greiðslufrestur í tolli, sykurskattur og skilagjald vegna einnota drykkjarumbúða).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
1. gr.
    

    Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 1. og 3. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 185. gr. laganna kemur: 600.000 kr.

2. gr.
    

    Á milli orðanna „með“ og „tollfrjálsum“ í 12. tölul. 1. mgr. 195. gr. laganna kemur: afgreiðslugeymslum, tollvörugeymslum.

3. gr.
    

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 122. gr. laganna skal fyrirkomulag gjalddaga aðflutningsgjalda, hjá aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, vegna uppgjörstímabila á árinu 2014 vera sem hér segir:
     1.      Helmingi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 15. degi næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
     2.      Helmingi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 5. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

II. KAFLI
Breytingar á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, með síðari breytingum.
4. gr.

    Á eftir 2. mgr. 10. gr. laganna kemur ný málsgrein svohljóðandi:
    Innlendir framleiðendur og innflytjendur geta á gjalddaga hvers uppgjörstímabils fengið endurgreitt vörugjald af hráefni vöru sem seld er án vörugjalds til skráðra aðila skv. 5. gr. eða til framleiðenda skv. 1. mgr. Innlendur framleiðandi eða innflytjandi skal tilgreina í sérstakri skýrslu til tollstjóra hver var kaupandi vöru, tegund og magn vörunnar sem seld var og fjárhæð þess vörugjalds sem óskast endurgreitt.

5. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. laganna skal fyrirkomulag gjalddaga vörugjalds, hjá aðilum sem skráðir eru skv. 2. mgr. 4. gr., vegna uppgjörstímabila á árinu 2014 vera sem hér segir:
     1.      Helmingi af vörugjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 9. gr., skal skila eigi síðar en á 28. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
     2.      Helmingi af vörugjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 9. gr., skal skila eigi síðar en á 28. degi þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

III. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.
6. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði VII. kafla og 7. mgr. 20. gr. er á gjalddaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabila á árinu 2014, sbr. 1. mgr. 24. gr., heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils, þótt einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað, sbr. ákvæði til bráðabirgða XI í tollalögum, nr. 88/2005.

IV. KAFLI
Breytingar á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, með síðari breytingum.
7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Við 3. málsl. 1. mgr. bætist: að undanskildum þeim vörum sem seldar eru til tollfrjálsrar verslunar sbr. 3. mgr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þeir aðilar sem hafa fengið leyfi tollstjóra til að selja farþegum og áhöfnum millilandafara við komu til landsins vörur úr tollfrjálsri verslun, sbr. 2. mgr. 104. gr. tollalaga, nr. 88/2005, skulu leggja á og greiða gjald samkvæmt 1. mgr. eins og um væri að ræða sölu innan lands.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Markmið þessa frumvarps er að auðvelda framkvæmd tollalaga, laga um vörugjald og laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur og taka af öll tvímæli um atriði sem óskýr hafa verið í framkvæmd vegna orðalags þessara laga. Jafnframt er tvískipting greiðslu aðflutningsgjalda, vörugjalda og virðisaukaskatts í greiðslufresti framlengd út árið 2014.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Ábendingar hafa borist um hnökra á tollalögum, nr. 88/2005, og lögum um vörugjald, nr. 97/1987, frá tollstjóra og aðilum sem standa skil á vörugjaldi. Að auki hefur verið óvissa um innheimtu skilagjalds við sölu í tollfrjálsri verslun, m.a. í komufríhöfn á Keflavíkurflugvelli. Talið er nauðsynlegt að bregðast við þessum ábendingum.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Tillögur um breytingar á tollalögum sem lagðar eru til með frumvarpi þessu miða að því að einfalda starf embættis tollstjóra til hagræðingar fyrir embættið og viðskiptavini þess. Breytingar sem lagðar eru til á lögum um vörugjald eiga að bæta úr hnökrum við framkvæmd þeirra gagnvart innlendum framleiðendum. Með breytingum á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur er ætlunin að skilagjald verði lagt á og skilað af drykkjarvörum sem seldar eru í komuverslun á Keflavíkurflugvelli hvort heldur þær eru framleiddar hérlendis eða fluttar til landsins. Í dag er umbúðum úr komuverslun skilað til Endurvinnslunnar hf. þar sem skilagjaldið er endurgreitt án þess að það hafi verið greitt við sölu þeirra. Að lokum er í frumvarpinu að finna tillögur um ný bráðabirgðaákvæði við tollalög, lög um vörugjald og lög um virðisaukaskatt í þá veru að innflytjendur geti út árið 2014 skipt greiðslu á aðflutningsgjöldum sem eru í greiðslufresti á tvo gjalddaga í stað eins með sambærilegum hætti og á þessu ári.

IV. Nánar um einstaka liði frumvarpsins.
1. Tollalagabreytingar.
     Sektarheimildir. Í frumvarpinu er lagt til að hækkaðar verði sektarheimildir tollstjóra þegar um brot á tollalögum er að ræða. Samkvæmt núgildandi ákvæði er tollstjóra heimilt að ákveða sekt fyrir ólöglegan innflutning eða önnur brot gegn ákvæðum XXII. kafla tollalaga ef brot er skýlaust sannað og ætla má að það varði ekki hærri sekt en 300.000 kr. enda játist sökunautur undir þá ákvörðun og greiði sektina þegar í stað. Þá getur tollstjóri ákveðið eignaupptöku vegna sannaðs brots enda fari verðmæti þess sem gera á upptækt eigi fram úr 300.000 kr. Sektarheimildarupphæðin hefur staðið óbreytt frá árinu 2002 í þessum tollalögum og forvera þeirra og upptökuupphæðin að sama skapi síðan 1996. Brýnt er því orðið að hækka þessar fjárhæðir í takt við almennt verðlag, eigi ákvæðin að ná tilgangi sínum. Meginröksemd þess að hækka sektarfjárhæð tollstjóra er hins vegar sú að lágmarkssekt við broti á 1. mgr. 172. gr. tollalaga fer í flestum tilvikum langt yfir þau sektarmörk sem nú eru í gildi, þ.e. 300.000 kr. Í 1. mgr. 172. gr. segir að hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir rangar eða villandi upplýsingar um tegund magn eða verðmæti vöru eða vanrækir að leggja fram tilskilin gögn samkvæmt lögum þessum vegna innflutnings vöru skal sæta sektum sem að lágmarki nema tvöföldum en að hámarki tíföldum aðflutningsgjöldum af því tollverði sem dregið var undan álagningu aðflutningsgjalda. Í þeim tilvikum sem lágmarkssekt brots fer yfir 300.000 kr. hefur tollstjóri þurft að kæra málin til lögreglu jafnvel þó svo að sökunautur lýsi sig reiðubúinn að ljúka máli með sektargerð hjá tollstjóra. Þá er rétt að benda á að tollstjóra er aðeins heimilt að ljúka málum með sektargerð ef sökunautur játast undir þá ákvörðun og greiðir sektina þegar í stað. Sé sökunautur ekki sáttur við þau málalok hefur tollstjóri það úrræði að kæra málið til lögreglu. Þessi tillaga er því til hagræðingar til þess að unnt sé að ljúka málum án aðkomu lögreglu þegar málsaðilar eru sáttir við þau málalok og gangast við broti.
     Eftirlit með afgreiðslu- og tollvörugeymslum. Í frumvarpinu er einnig lagt til að heimilt verði að innheimta eftirlitsgjald vegna eftirlits með afgreiðslu- og tollvörugeymslum, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 69. gr. tollalaga, nr. 88/2005, með sama hætti og heimilt er að innheimta gjald vegna eftirlits með öðrum geymslum fyrir ótollafgreiddan varning, sbr. 3.–6. tölul. sömu málsgreinar. Stærstur hluti ótollafgreidds varnings sem fluttur er inn til landsins er geymdur í afgreiðslu- og tollvörugeymslum og er því afar mikilvægt að heimilt sé að innheimta eftirlitsgjald vegna eftirlits með sama hætti og gildir um eftirlit með forðageymslum, tollfrjálsum verslunum og umflutningsgeymslum.

2. Breytingar á lögum um vörugjöld, nr. 97/1987.
    Lagt er til að innlendir framleiðendur og innflytjendur fái sama möguleika á endurgreiðslu vegna vara sem seldar eru án vörugjalds til skráðra aðila skv. 5. gr. laga um vörugjald. Þeir meinbugir eru á núgildandi lögum að samkvæmt orðalagi 10. gr. er engin endurgjaldsheimild vegna innlendra framleiðenda, sem ekki hafa fengið sérstaka skráningu hjá tollstjóra skv. 5. gr. laganna, vegna sölu til skráðra aðila nema þeir flytji hráefni eða efnivöru sjálfir til landsins. Hefur þetta í einhverjum tilvikum leitt til þess að gjaldið er innheimt tvisvar sem er ekki markmið laganna. Þessari breytingartillögu er ætlað að koma í veg fyrir það.

3. Breytingar á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
    Sem fyrr segir er í frumvarpinu að finna tillögur um ný bráðabirgðaákvæði við tollalög, lög um vörugjald og lög um virðisaukaskatt í þá veru að innflytjendur geti út árið 2014 skipt greiðslu á aðflutningsgjöldum sem eru í greiðslufresti á tvo gjalddaga í stað eins með sambærilegum hætti og á þessu ári. Í greinargerð með sambærilegri breytingu á sömu lögum í lok síðasta árs kom fram að unnið yrði að endurskoðun á fyrirkomulagi greiðslufrests aðflutningsgjalda á þessu ári með það fyrir augum að koma á varanlegu fyrirkomulagi frá og með árinu 2014. Vinna við umrædda endurskoðun hefur hins vegar dregist og er því lagt til að núverandi fyrirkomulag verði framlengt um eitt ár samhliða því að áfram verði unnið að því að finna varanlegt fyrirkomulag.

4. Breytingar á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989.
    Í 1. gr. laganna eru ákvæði um álagningu og innheimtu skilagjalds af einnota umbúðum úr stáli, áli, gleri og plastefni. Gjaldið skal lagt á innflytjendur og framleiðendur þessara vara. Við skil á framangreindum umbúðum til endurvinnslustöðva fæst skilagjaldið endurgreitt og er því hvetjandi fyrir alla að safna umbúðunum og skila þeim til endurvinnslu.
    Endurvinnslan sér um umsýslu samkvæmt ákvæðum laganna, jafnt móttöku umbúðanna, förgun þeirra og greiðslu á skilagjaldinu. Fyrirtækið hefur bent á að skilagjald vegna drykkjarvara í einnota umbúðum sem seldar eru í komuverslun á Keflavíkurflugvelli hefur ekki skilað sér til félagsins á sama tíma og það greiðir skilagjald til almennings þegar þessum drykkjavörum er skilað til endurvinnslu. Af þessum sökum verður félagið fyrir tjóni enda misræmi í skilagjaldi sem félagið fær greitt og því sem það greiðir út. Með breytingu þeirri sem lögð er til í frumvarpinu verður þeim sem hafa leyfi til að selja farþegum og áhöfnum millilandafara við komu til landsins vörur úr tollfrjálsri verslun falið að leggja á og greiða skilagjald af gjaldskyldum vörum samkvæmt lögunum.

V. Samráð og áhrif frumvarpsins.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við embætti tollstjóra, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Endurvinnsluna hf. Fjárhagsleg áhrif af tillögum frumvarpsins eru talin óveruleg jafnt á tekjuhlið sem gjaldahlið ríkissjóðs. Rétt er þó að nefna að Endurvinnslan hf. reiknar með að tekjur af skilagjaldi frá komufríhöfn mundi nema 35 millj. kr. á ári. Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og efni þess gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að sektarheimild tollstjóra fyrir ólöglegan innflutning eða önnur brot gegn ákvæðum XXII. kafla tollalaga verði hækkuð úr 300.000 kr. í 600.000 kr. Þá er lagt til að verðmæti þess sem tollstjóri getur gert upptækt vegna brots sem hefur eignaupptöku í för með sér verði hækkað úr 300.000 kr. í 600.000 kr.

Um 2. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að heimilt verði að innheimta gjald fyrir þjónustu tollstjóra vegna eftirlits með afgreiðslugeymslum og tollvörugeymslum, með sama hætti og fyrir aðrar tegundir eftirlitsskyldra geymslna.

Um 3., 5. og 6. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda, vörugjalda og virðisaukaskatts í greiðslufresti vegna uppgjörstímabila á árinu 2014 verði dreift á tvo gjalddaga. Einnig er lagt til að þetta fyrirkomulag skerði ekki heimild til að færa til innskatts allan virðisaukaskatt viðkomandi tímabils þótt einungis hluti hans hafi verið greiddur, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Samhljóða breytingar hafa nokkrum sinnum áður verið lagðar til og var sambærileg breyting lögfest síðast með lögum nr. 21/2013. Frumvarpinu er ætlað að bregðast tímabundið við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækja.

Um 4. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að innlendir framleiðendur geti fengið endurgreidd vörugjöld af hráefni sem þeir selja til skráðra aðila skv. 5. gr. laga um vörugjald eða til framleiðanda skv. 1. mgr. 10. gr. sömu laga, enda leggi þeir á og skili vörugjaldi af sölu vörunnar til endanlegs neytanda hennar.

Um 7. gr.

    Nánari umfjöllun um ákvæðið má sjá í athugasemdum við einstaka liði frumvarpsins en með því er lagt til að þeir aðilar sem fengið hafa leyfi tollstjóra til að selja farþegum og áhöfnum millilandafara við komu landsins vörur úr tollfrjálsri verslun skuli leggja á og greiða skilagjald vegna sölu drykkjarvara í einnota umbúðum, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

Um 8. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.

Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á tollalögum, nr. 88/2005,
lögum um vörugjald, nr. 97/1987, lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988,
og lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða
fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, með síðari breytingum (sektir, greiðslufrestur
í tolli, sykurskattur og skilagjald vegna einnota drykkjarumbúða).

    Með frumvarpinu eru lagðar fram tillögur um breytingar á tollalögum í þeim tilgangi að einfalda starf embættis tollstjóra til hagræðingar fyrir embættið og viðskiptavini þess. Ábendingar hafa borist um hnökra á tollalögum, nr. 88/2005, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, frá tollstjóra og aðilum sem standa skil á vörugjaldi. Að auki hefur verið til staðar óvissa um innheimtu skilagjalds við sölu í tollfrjálsri verslun, meðal annars í komufríhöfn á Keflavíkurflugvelli.
    Í fyrsta lagi eru í frumvarpinu lagðar fram nokkrar tillögur um breytingar á tollalögum. Þær eiga annars vegar að hækka sektar- og upptökuheimildir tollstjóra svo að ljúka megi fleiri málum fyrir embættinu þegar málsaðilar eru sáttir við þau málalok, og hins vegar að veita embætti tollstjóra heimild til að innheimta eftirlitsgjald fyrir þjónustu tollstjóra vegna tolleftirlits með afgreiðslugeymslum og tollvörugeymslum. Í öðru lagi eru lagðar fram tillögur um breytingar á lögum um vörugjald sem eiga að bæta úr hnökrum við framkvæmd þeirra gagnvart innlendum framleiðendum. Í þriðja lagi eru lagðar fram breytingar á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Tilgangurinn með þeim breytingum er að skilagjald verði lagt á og því skilað af drykkjarvörum sem seldar eru í komuverslun á Keflavíkurflugvelli hvort heldur sem þær eru framleiddar hérlendis eða fluttar til landsins. Nú er umbúðum úr komuverslun skilað til Endurvinnslunnar hf. þar sem skilagjaldið er endurgreitt án þess að það hafi verið greitt við sölu þeirra. Að lokum er í frumvarpinu að finna tillögur um ný bráðabirgðaákvæði við tollalög, lög um vörugjald og lög um virðisaukaskatt í þá veru að innflytjendur geti út árið 2014 skipt greiðslu á aðflutningsgjöldum sem eru í greiðslufresti á tvo gjalddaga í stað eins gjalddaga með sambærilegum hætti og heimilað hefur verið á þessu ári.
    Samkvæmt áætlun frá Endurvinnslunni hf. er reiknað með að tekjur af skilagjaldi frá komufríhöfn muni nema 35 m.kr. á ári. Samkvæmt núgildandi lögum færast þær á tekjuhlið ríkissjóðs en jafnframt færist sama fjárhæð til gjalda sem framlag til fyrirtækisins. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er í heildina litið ekki gert ráð fyrir að það muni hafa í för með sér teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs.