Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 207. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 269  —  207. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um löggjöf og starfsskrá félagsmiðstöðva.


Flm.: Margrét Gauja Magnúsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Össur Skarphéðinsson,
Steinunn Þóra Árnadóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Páll Valur Björnsson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að undirbúa löggjöf um félagsmiðstöðvar og um starfsskrá þeirra. Vinnan verði unnin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, Samfés og aðra hagsmunaaðila eftir því sem við á hverju sinni. Ráðherra leggi fram frumvarp eigi síðar en á haustþingi 2014.

Greinargerð.

    Á Íslandi eru starfandi 115 félagsmiðstöðvar fyrir unglinga í öllum sveitarfélögum landsins. Félagsmiðstöðvar gegna mikilvægu hlutverki á viðkvæmum tímum í lífi unglinga og geta haft mikil áhrif á þroska þeirra með örvun félagsþroska og jákvæðra samskipta. Í félagsmiðstöðvum er unnin mikilvæg vinna með börnum og unglingum en þar fer fram mikil forvarnar- og tómstundastarfsemi sem öðlast hefur aukið vægi í rekstri sveitarfélaga síðustu árin og fagleg þróun í starfinu aukist hratt með tilkomu náms á háskólastigi í tómstunda- og félagsmálafræðum hér á landi. Flutningsmenn telja mikilvægt að unnið verði að löggjöf um félagsmiðstöðvar og starfsskrá þeirra svo koma megi á auknu skipulagi og festu í mikilvægu starfi félagsmiðstöðva.
    Um félagsmiðstöðvar gilda æskulýðslög, nr. 70/2007, eftir því sem við á en í 2. tölul. 2. gr. þeirra kemur fram að þau gildi um æskulýðsstarfsemi á vegum ríkis og sveitarfélaga og í skólum, að svo miklu leyti sem við á og önnur lög og aðrar reglur gilda ekki um. Þá segir í 3. gr. laganna að ríki og sveitarfélög í samstarfi við félög og félagasamtök á sviði æskulýðsmála skuli stuðla að því að ungt fólk eigi þess kost að starfa að æskulýðsmálum við sem fjölbreyttust skilyrði. Í 13. gr. laganna er almenn reglugerðarheimild fyrir ráðherra sem ekki hefur enn verið nýtt. Flutningsmenn leggja til að bætt verði kafla við lögin sem fjalli sérstaklega um félagsmiðstöðvar og starfsemi þeirra og þar verði m.a. ákvæði er geri ráðherra að setja félagsmiðstöðvum starfsskrá. Lagt er til að vinnan verði unnin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, en sveitarfélögin starfrækja félagsmiðstöðvar landsins, Samfés og eftir atvikum aðra hagsmunaaðila.
    Þá telja flutningsmenn einnig að skoða beri í þessu samhengi hvort tómstunda- og félagsmálafræðingur með háskólagráðu í þeim fræðum verði lögverndað starfsheiti. Nám í tómstunda- og félagsmálafræði hefur verið í boði við Háskóla Íslands frá 2003 og því tímabært að ráðherra taki til skoðunar hvort ekki sé rétt að um lögverndað starfsheiti verði að ræða og að þá verði vikið að réttindum og skyldum tómstunda- og félagsmálafræðinga sem starfa á félagsmiðstöðvum í áðurnefndum sérstökum kafla í æskulýðslögum, nr. 70/2007, um félagsmiðstöðvar.