Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 209. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 271  —  209. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum, nr. 40/2013, um endurnýjanlegt
eldsneyti í samgöngum á landi.

Frá atvinnuveganefnd.


1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Ákvæði 6. gr. koma til framkvæmda 1. október 2014.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Lög nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi tóku gildi 10. apríl 2013. Í 9. gr. laganna er kveðið á um að 3. og 4. gr., þar sem mælt er fyrir um skilyrði um lágmarksorkuhlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa, komi til framkvæmda 1. janúar 2014. Markmið laganna er að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum og skilvirkum hætti.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að gildistöku sektarákvæða í 6. gr. laganna verði frestað til 1. október 2014 eða níu mánuðum eftir að 3. og 4. gr. hafa komið til framkvæmda. Verði frumvarpið að lögum hefur Orkustofnun því ekki heimild til að beita sektum fram að þeim tíma. Nefndin telur eðlilegt að beita ekki sektum fyrst um sinn, þó svo að 3. og 4. gr. verði komnar til framkvæmda, enda geta komið upp ófyrirséð tæknileg vandamál eða tafir við að koma upp nýjum búnaði til íblöndunar eða dreifingar endurnýjanlegs eldsneytis. Einnig má benda á að fresturinn verði reynslutímabil fyrir Orkustofnun sem hefur eftirlit með framkvæmd laganna. Þar sem gildistöku laganna var flýtt við meðferð frumvarps til þeirra á 141. löggjafarþingi má segja að það sé sanngirnismál að beita ekki sektum í þennan tíma.
    Nefndin hefur fjallað um málið ásamt fulltrúum frá Atlantsolíu, Carbon recycling international, Lífdísil ehf., Mannvirkjastofnun, N1, Skeljungi og slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
    Fram komu sjónarmið um að fresta bæri gildistöku laganna þar sem tími til undirbúnings væri ekki nægur. Bent var á að upp hefðu komið mál á síðari stigum undirbúnings sem leiddu til þess að ekki væri unnt að uppfylla markmið laganna um 3,5% hlut eldsneytis í samgöngum. Nefndin telur ljóst að nokkrir seljendur hafi reynslu af sölu endurnýjanlegs eldsneytis en aðrir séu að stíga sín fyrstu skref á því sviði.
    Nefndin fékk upplýsingar frá atvinnuvegaráðuneyti um að ráðuneytið hefði haft samband við seljendur eldsneytis ásamt Samtökum iðnaðarins sem hefði aflað upplýsinga frá innlendum framleiðendum. Eldsneytissalar töldu sumir ekki ástæðu til að fresta gildistöku en aðrir tóku undir ósk um frestun. Innlendir framleiðendur hefðu hins vegar haft áhyggjur af frestun gildistöku þar sem aukinn kraftur og fjármagn hefði verið sett í undirbúning og því kæmi frestur þeim ekki til góða.
    Í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis um það frumvarp sem varð að lögunum kemur fram að áætlað heildartekjutap fyrir ríkissjóð þegar lögin verða komin að fullu til framkvæmda sé samtals um 1.150 millj. kr. Í nefndaráliti atvinnuveganefndar frá 14. mars 2013 (þskj. 1259 á 141. löggjafarþingi) kemur fram að þetta tekjutap sé að öllum líkindum ofmetið og það nánar útskýrt. Í þessu sambandi er rétt að benda á að með lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, var tekið upp kolefnisgjald á kolefni af jarðefnauppruna. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra segir að kolefnisgjaldið sé: „fyrsti liður í áætlun stjórnvalda um samræmingu í skattlagningu ökutækja og eldsneytis með það markmið að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum.“ Tekjur af kolefnisgjaldi árið 2013 eru áætlaðar um 3.200 millj. kr. og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 samtals 3.350 millj. kr. Þeim tekjum er því ætlað að styðja við orkuskipti í samgöngum.
    Nú þegar eru liðnir sjö mánuðir frá gildistöku laga nr. 40/2013 þó svo að 3. og 4. gr. komi ekki til framkvæmda fyrr en um áramót. Með hliðsjón af framangreindu og því að ljóst er að tvenns konar hagsmunir togast á í málinu leggur nefndin til að sektarákvæðum verði frestað eins og að framan er lýst. Það ætti ekki að draga úr þeim þunga sem er í orkuskiptum í samgöngum nú um stundir. Búast má við því að unnið verði af kappi að undirbúningi á öllum sviðum til að mæta hærra þrepi sölumarkmiðs 1. janúar 2015 en aðilar verða ekki sektaðir til 1. október 2014 nái þeir ekki að uppfylla sölumarkmið fram að þeim tíma.