Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 213. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 275  —  213. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna færslu eftirlits með rafföngum
til Mannvirkjastofnunar (forræði rafmagnsöryggismála).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


I. KAFLI

Breyting á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga,
nr. 146/1996, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Orðin „í mannvirkjum“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Mannvirkjastofnun annast markaðseftirlit með rafföngum.
     c.      3. mgr. fellur brott.

2. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Til að öðlast slík leyfi skal rafskoðunarstofa vera faggilt í samræmi við lög um faggildingu o.fl., nr. 24/2006.

3. gr.

    Orðin „eða Neytendastofa, sé um að ræða rafföng sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum“ í 2. mgr. 9. gr. laganna falla brott.

4. gr.

    2. málsl. 10. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      5. mgr. fellur brott.
     c.      2. málsl. 6. mgr. fellur brott.
     d.      Í stað orðsins „Brunamálastofnunar“ í 1. málsl. 7. mgr. kemur: Mannvirkjastofnunar.
     e.      8. mgr. fellur brott.
     f.      9. mgr. orðast svo:
                  Málskot skv. 7. gr. frestar ekki framkvæmd ákvörðunar. Verða ákvarðanir Mannvirkjastofnunar ekki bornar undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála liggur fyrir.
     g.      Orðin „áfrýjunarnefndar neytendamála eða“ í 1. málsl. 10. mgr. falla brott.

6. gr.

    Orðið „Neytendastofu“ í 1. málsl. og orðin „eða Neytendastofu“ í 2. málsl. 12. gr. laganna falla brott.

7. gr.

    Í stað orðsins „Brunamálastofnunar“ í 5. tölul. 13. gr. a, 5. tölul. 13. gr. b, 5. tölul. 1. mgr. 13. gr. c og 5. tölul. 1. mgr. 13. gr. d laganna kemur: Mannvirkjastofnunar.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      Orðin „og Neytendastofu“ í 1. málsl. og 8. tölul. falla brott.
     b.      Orðið „Neytendastofu“ í 1. málsl. 5. tölul. fellur brott og í stað orðanna „stofnanirnar láta“ í sama málslið kemur: stofnunin lætur.
     c.      Orðin „og skiptingu eftirlits raffanga á milli stofnananna“ í 2. málsl. 5. tölul. falla brott.
     d.      7. tölul. orðast svo: Mannvirkjastofnun er heimilt að láta prófa rafföng innlendra framleiðenda sem sett eru á markað í fyrsta sinn. Framleiðendur greiða Mannvirkjastofnun fyrir slíkar prófanir.

9. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Ef ekki er farið að ákvörðunum eða fyrirmælum Mannvirkjastofnunar samkvæmt lögum þessum getur hún ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðunin beinist gegn greiði dagsektir þar til farið verður að þeim.

10. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005,
með síðari breytingum.

11. gr.

    Í stað orðanna „mælifræði og markaðseftirlits með rafföngum í 1. gr. laganna kemur: og mælifræði.

12. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum um notkun raflagna og raffanga í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli, nr. 135/2007.

13. gr.

    Í stað orðsins „Neytendastofu“ í 1. og 2. gr. laganna kemur, í viðeigandi falli: Mannvirkjastofnun.

14. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2014.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sá hluti af markaðseftirliti raffanga, sem er undir eftirliti og forræði Neytendastofu, verði færður til Mannvirkjastofnunar þannig að forræði rafmagnsöryggismála verði hjá einni stofnun.
    Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga um mannvirki, nr. 160/2010, laga um brunavarnir, nr. 75/2000, og laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996. Sameiginlegt markmið þessarar löggjafar er að tryggja öryggi og hollustuhætti mannvirkja og vernda notendur þeirra. Löggjöfin tengist neytendamálum og neytendavernd, t.d. í tengslum við gæði íbúðarhúsnæðis. Einnig fellur undir löggjöfina ýmis tæknileg vara sem hefur bein áhrif á öryggi mannvirkja en getur einnig talist til neytendavöru. Vörur þessar lúta sameiginlegum evrópskum reglum og annast Mannvirkjastofnun markaðseftirlit með þeim á grundvelli framangreindrar löggjafar.
    Með lögum nr. 29/2009, um breytingu á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga frá Neytendastofu til Brunamálastofnunar, var forræði rafmagnsöryggismála flutt frá viðskiptaráðuneyti til umhverfisráðuneytis og dagleg umsjón málaflokksins flutt frá Neytendastofu til Brunamálastofnunar (nú Mannvirkjastofnunar). Þekking á rafmagnsöryggismálum, þ.m.t. á markaðseftirliti raffanga, fluttist til Mannvirkjastofnunar. Hins vegar var ákveðið að Neytendastofa hefði eftirlit með rafföngum sem ekki væru varanlega tengd mannvirkjum en eftirlit með rafmagnsöryggi almennt og markaðseftirlit með rafföngum að öðru leyti yrði hjá Mannvirkjastofnun. Aðskilnaður eftirlits með rafföngum eftir því hvort þau eru varanlega tengd mannvirkjum eða ekki á sér enga hliðstæðu í öðrum löndum og leiðir af sér mörg álitaefni og vafamál. Hafa þarf hugfast að hugtakið „varanlega tengd mannvirkjum“ er ekki afdráttarlaust hugtak og býður upp á ágreining. Sum tæki, m.a. heimilistæki, bjóða upp á val um fasttengingu eða lausa tengingu við raflögn húsa. Við þær aðstæður gæti eftirlit fallið undir báðar eða hvoruga stofnunina. Þar að auki er óhagkvæmt að skipta eftirliti með sama öryggisþætti milli tveggja stofnana. Reynslan hefur sýnt að aðskilnaður markaðseftirlits með rafföngum, að hluta til, frá öðrum rafmagnsöryggismálum hefur leitt til tvíverknaðar og óskilvirkara eftirlits. Þannig hefur eftirlit með rafföngum orðið kostnaðarsamara fyrir ríkið og meira íþyngjandi fyrir söluaðila.
    Tvær úttektir og skýrslur hafa verið gerðar á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála. Árið 2006 fól viðskiptaráðuneytið óháðum aðila, ParX, að gera úttekt á rafmagnsöryggismálum með tilliti til mögulegs hlutverks nýrrar stofnunar, þ.e. Mannvirkjastofnunar. Niðurstaða úttektarinnar var sú að sterk rök væru fyrir því að fela einni stofnun, Mannvirkjastofnun, umsjón málaflokksins. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birti skýrslu um stöðu neytendamála á Íslandi árið 2008. Þar var m.a. lagt til að verkefni sem mælifræðisvið og öryggissvið (rafmagnsöryggissvið) Neytendastofu önnuðust yrðu ekki á forræði stofnunar sem sinnti neytendamálum.
    Þar sem um er að ræða breytingu á starfsháttum og heimildum Neytendastofu verður að gefa stofnuninni svigrúm til að laga rekstur sinn að breyttu hlutverki og breyta verður fjárheimildum í samræmi við það. Sökum þessa mun frumvarpið, ef það verður að lögum, ekki taka gildi fyrr en 1. mars 2014.
    Frumvarpið felur í sér að öll rafmagnsöryggismál yrðu á einni hendi sem er sambærilegt
fyrirkomulagi annars staðar á Norðurlöndum, enda er málaflokkurinn ein samofin kerfisheild. Rafmagnsöryggi í landinu yrði betur tryggt, söluaðilum ekki íþyngt að óþörfu, kostnaður hins opinbera mundi lækka og sérfræðiþekking og reynsla nýttist betur. Jafnframt hefði slík breyting í för með sér einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu.