Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 139. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 280  —  139. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir
gegn þeim, með síðari breytingum (viðaukar og reglugerðarheimild).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Friðriksson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands. Nefndinni barst umsögn um málið frá Bændasamtökum Íslands. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim sem miða að því að flytja ákvæði úr viðaukum við lögin í reglugerð sem ráðherra verður skylt að setja.
    Með lögum nr. 31/2001 voru lögfestir þrír viðaukar við lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Þetta eru viðauki 1A (tilkynningarskyldir sjúkdómar, A-sjúkdómar), viðauki 1B (tilkynningarskyldir sjúkdómar, B-sjúkdómar) og viðauki 2 (skráningarskyldir sjúkdómar, C-sjúkdómar).
    Með lögfestingu þessara viðauka var leitast við að laga sjúkdómaskrána að stöðlum Alþjóðadýrasjúkdómastofnunarinnar í París (OIE). Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að sjúkdómalisti OIE hafi tekið miklum breytingum frá því að lög nr. 31/2001 öðluðust gildi en viðaukunum hefur hvorki verið breytt né þeir uppfærðir.
    Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að viðaukarnir við lögin verði felldir brott. Þá er í b-lið 2. gr. frumvarpsins lagt til að ráðherra verði skylt að setja reglugerð um flokkun smitsjúkdóma. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að ráðherra skuli í reglugerðinni tilgreina hvaða sjúkdómar eru tilkynningarskyldir og hverjir eru skráningarskyldir. Þá skulu tilkynningarskyldir sjúkdómar flokkaðir í alvarlega sjúkdóma eða aðra sjúkdóma.
    Nauðsynlegt þykir að mæla fyrir um flokkun tilkynningarskyldra sjúkdóma vegna þess að í 17. og 18. gr. laganna er mælt fyrir um bætur úr ríkissjóði þegar alvarlegir tilkynningarskyldir sjúkdómar eru greindir.
    Verði frumvarpið að lögum verður unnt að bæta nýjum sjúkdómum á listann án þess að breyta þurfi lögum. Einnig mun ráðherra geta breytt og uppfært flokkun sjúkdóma eftir því sem við á.
    Nefndinni barst minnisblað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þar sem áréttað er að ákvæði frumvarpsins breyti hins vegar ekki heimildum ráðherra skv. 8. gr. laganna þar sem hann getur, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, fyrirskipað ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að útrýma eða hindra útbreiðslu smitsjúkdóma. Þá kom einnig fram í minnisblaðinu að frumvarpið breyti heldur ekki reglum laganna um greiðslu kostnaðar úr ríkissjóði skv. 17. og 18. gr. þeirra. Með öðrum orðum kvaðst ráðuneytið telja að þær breytingar sem frumvarpið mælir fyrir um mundu ekki veikja þær ráðstafanir sem kveðið væri á um í 17. og 18. gr. laganna.
    Haraldur Benediktsson og Björt Ólafsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 26. nóvember 2013.



Jón Gunnarsson,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Ásmundur Friðriksson.



Kristján L. Möller.


Páll Jóhann Pálsson.


Þorsteinn Sæmundsson.



Þórunn Egilsdóttir.