Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 132. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 284  —  132. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um breytingu á lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903,
lögum um sameignarfélög, nr. 50/2007, og lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003 (flutningur firmaskrár frá sýslumönnum til fyrirtækjaskrár).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu S. Guðmundsdóttir frá avinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Skúla Jónsson frá ríkisskattstjóra.
    Umsagnir bárust frá Samtökum verslunar og þjónustu, Alþýðusambandi Íslands, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum, nr. 42/1903, um firmu og prókúruumboð, nr. 59/2007, um sameignarfélög, og nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá. Markmið þessara breytinga er að firmaskrá færist til fyrirtækjaskrár frá sýslumönnum. Með því næst að nýta þá þekkingu og tölvukerfi sem eru nú þegar til hjá fyrirtækjaskrá til að halda utan um skráningu félaga og breytingar á þeim ásamt því að einfalda almennt skráningu mismunandi félagaforma. Eftirleiðis verða því firma eins manns, sameignarfélög og samlagsfélög skráð hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.
    Nefndin vekur athygli á því að á fundum með gestum og í umsögnum hagsmunaaðila hefur komið fram að breytingarnar séu til einföldunar og hagræðis á landsvísu og tryggi samræmi reglna um skráningu félaga. Auk þess bæti þær þjónustu við viðskiptalífið með einföldun á ferlinu og traustara utanumhaldi. Fram kemur í umsögnum að lögfesting frumvarpsins muni tryggja að skráning sameignarfélaga og samlagsfélaga verði í samræmi við skráningu annarra félagaforma í atvinnurekstri. Breytingin mun verða til þess að miðlun upplýsinga um þessi rekstrarform verður öruggari og nútímalegri en verið hefur. Í þessum breytingum felst sú einföldun að í stað þess að þurfa að fara á tvo staði við skráningu, eins og áður var þegar skrá þurfti félagið hjá sýslumönnum en sækja kennitölu til fyrirtækjaskrár, verður nú hægt að leita beint til fyrirtækjaskrár með hvoru tveggja.
    Fram kom í máli gesta að ákvæði frumvarpsins verði ekki til þess að skerða þjónustu við landsbyggðina eða fækka störfum. Ríkisskattstjóri er með starfsstöðvar um allt land, þar sem hægt er að skila gögnum, auk þess sem umrædd skráning er að mestu leyti rafræn. Í því samhengi kom fram að meiri hluti skráninga, eða um 75%, væri á höfuðborgarsvæðinu.
    Nefndin bendir á að í umsögn skrifstofu opinberra fjármála er áætlað að fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra þurfi að bæta við einum starfsmanni til að sinna þeim verkefnum sem flytjast til stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir óverulegum kostnaðarauka sem helgast af því að skráningarferlið verður eins og hjá öðrum félagaformum sem er ítarlegra og nákvæmara en verið hefur til þessa. Telur nefndin þann óverulega kostnaðarauka sem hlýst af flutningi verkefnisins réttlætanlegan í ljósi þess ávinnings og hagræðis sem með honum fæst fyrir atvinnulífið.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Willum Þór Þórsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. nóvember 2013.


Frosti Sigurjónsson,


form.


Steingrímur J. Sigfússon,


frsm.


Pétur H. Blöndal.Margrét Gauja Magnúsdóttir.


Elín Hirst.


Brynjar Níelsson.