Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 178. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 285  —  178. mál.
Leiðrétt orðalag.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um Orkuveitu Reykjavíkur.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásgeir Westergren, Birgi Björn Sigurjónsson, Björn Blöndal, Dag B. Eggertsson, Ebbu Schram, Eirík Hjálmarsson, Elínu Smáradóttur og Sóleyju Tómasdóttur frá Orkuveitu Reykjavíkur og eigendanefnd hennar. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá HS Orku – HS Veitum, Orkuveitu Reykjavíkur, Samorku og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um Orkuveitu Reykjavíkur. Ráðgert er að skipta rekstri fyrirtækisins upp í aðskilda þætti um næstu áramót til samræmis við 1. mgr. 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Gildistöku greinarinnar hefur nokkrum sinnum verið frestað með vísan til aðstæðna á fjármálamörkuðum. Fyrirtæki á þessum markaði skulu fyrir þennan tíma vera búin að aðgreina samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi sína í aðskilin fyrirtæki. Helsta nýmæli sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu er að fyrirtækið fái heimild til að eiga dótturfélög og framselja þeim tilgreind sérleyfi eða einkaleyfi. Gert er ráð fyrir því að móðurfélagið muni hýsa stoðsvið og að auðlindir verði hýstar í sameignarfyrirtækinu. Einnig er gert ráð fyrir því að stofnað verði opinbert hlutafélag sem verði eignarhaldsfélag tveggja opinberra hlutafélaga, annars vegar um sérleyfisstarfsemina (veitur) og hins vegar um samkeppnisstarfsemi (virkjanir og sala). Þriðja dótturfélagið hýsi skattfrjálsa starfsemi, vatns- og fráveitu.
    Í frumvarpinu eru ákvæði sem snúa að daglegum rekstri einfölduð frá gildandi lögum og er vísað til þess í 5. gr. frumvarpsins að um atriði eins og t.d. skipan stjórnar, aðalfund og stjórnarfundi verði nánar kveðið á um í sameignarsamningi eigenda eða samþykktum viðkomandi fyrirtækja.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nokkur ákvæði til bráðabirgða eru við frumvarpið sem er ætlað að tryggja að uppskipting fyrirtækisins muni ekki ein og sér hafa í för með sér skattalegar skuldbindingar sem ella hefðu ekki fallið til. Einnig er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir því að þeim félögum sem til verða við skiptinguna verði heimilt að nýta yfirfæranleg töp á rekstri milli ára svo fremi að önnur skilyrði laga um tekjuskatt séu uppfyllt. Þá er í ákvæði til bráðabirgða V gert ráð fyrir að þinglýsing eignarheimilda þeirra fasteigna sem færast yfir til hinna nýju rekstrarfélaga skuli ekki vera stimpilskyld á grundvelli laga um stimpilgjald.
    Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að erlendir lánardrottnar fyrirtækisins tækju vel í áform um uppskiptingu þess og væru jákvæðir gagnvart stöðu þess. Bent var á að horfur fyrirtækisins hvað reksturinn varðar byggðist á ákveðnum forsendum sem m.a. birtast í ákvæðum til bráðabirgða við frumvarp þetta. Einnig var vísað til þess að það skipti Orkuveitu Reykjavíkur miklu að hafa heimild til að nota bandaríkjadal sem starfrækslugjaldmiðil.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir ritar undir álit þetta með fyrirvara sem lýtur að því að raforkulög og tilskipun Evrópusambandsins sem þau byggjast á séu ekki í takt við íslenskan raunveruleika. Ekki hefði þurft að uppfylla tilskipunina á sínum tíma auk þess sem bókhaldslegan aðskilnað hefði mátt framkvæma án þess að ganga alla leið með því að skipta orkufyrirtækjum upp. Mikilvægt sé að aðgerðin sem felist í frumvarpi þessu hafi ekki áhrif á framtíð Orkuveitu Reykjavíkur, lánshæfi hennar og kjör hjá lánardrottnum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásmundur Friðriksson og Björt Ólafsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    


Alþingi, 29. nóvember 2013.



Jón Gunnarsson,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir,


með fyrirvara.


Haraldur Benediktsson.



Kristján L. Möller.


Páll Jóhann Pálsson.


Þorsteinn Sæmundsson.



Þórunn Egilsdóttir.