Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 24. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 288  —  24. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2009,
um sjúkraskrár (aðgangsheimildir).


Frá minni hluta velferðarnefndar.



    Minni hluti velferðarnefndar lýsir sig ánægðan með vinnu nefndarinnar við afgreiðslu þessa frumvarps. Fjallað hefur verið um málið með það að leiðarljósi að fram komi sem flest sjónarmið og þau hafa verið vegin og metin í sameiningu með lausnamiðaðri nálgun. Óhjákvæmilega eru þó enn uppi skiptar skoðanir enda eru mál sem snerta sjúkraskrárupplýsingar sjúklinga viðkvæm í eðli sínu. Minni hlutinn getur ekki tekið undir með meiri hlutanum að öllu leyti þar sem ekki er hægt að fallast á samþykkt frumvarpsins svo til óbreytts.
    Í 2. gr. frumvarpsins og í 3. mgr. 14. gr. laga um sjúkraskrár er fjallað um aðgangstakmarkanir sjúklings að eigin sjúkraskrárupplýsingum. Minni hlutinn getur ekki fallist á að réttlætanlegt sé undir neinum kringumstæðum að synja sjúklingi eða umboðsmanni hans um aðgang að eigin sjúkraskrá. Í umsögnum nokkurra fagaðila er vikið að þessu. Þannig segir í umsögn talsmanns sjúklinga á LSH að út frá hugmyndafræði um sjúklingamiðaða þjónustu eigi sjúklingur jafnan aðgang að sjúkraskrárupplýsingum um sjálfan sig og í umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga kemur fram að slík forsjárhyggja sé ekki í takt við læknisfræði nútímans. Á fundum nefndarinnar kom einnig fram að það geti verið gott fyrir bataferli sjúklinga, sem þjást til að mynda af geðrænum veikindum, að fá að sjá sjúkraskrárupplýsingar um sig, að því gefnu að þær séu settar fram á faglegan hátt, þvert gegn því sem takmörkunarheimild frumvarpsins byggist á. Með vísan til þessa, svo og þess að sjúkraskrárupplýsingar eru mikilvægar persónuupplýsingar hvers sjúklings þar sem skráðar eru upplýsingar um læknismeðferð hans, telur minni hlutinn ekki ástæðu til að í lögum um sjúkraskrár sé heimild til að synja sjúklingi um aðgang að eigin sjúkraskrá. Minni hlutinn leggur því til að heimildin verði felld brott.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á kæruferli mála er varða aðgang að sjúkraskrám innan stjórnsýslunnar. Lagt er til að heimilt verði að kæra ákvarðanir umsjónaraðila sjúkraskráa til landlæknis sem taki síðan endanlega ákvörðun í málum innan stjórnsýslunnar. Þannig verði ekki lengur heimilt að kæra ákvarðanir landlæknis til ráðherra. Minni hlutinn getur að svo stöddu ekki tekið undir það að með þessu fyrirkomulagi sé réttaröryggi borgaranna aukið. Velferðarráðuneytið er æðra sett stjórnvald gagnvart landlækni og telur minni hlutinn ekki rétt að víkja frá meginreglu 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um almenna kæruheimild til æðra stjórnvalds. Rétt er að mál sem þessi hljóti endanlega úrlausn ráðherra og að í þeim málum séu því tvö kærustig. Þá bendir minni hlutinn einnig á, eins og kemur fram í umsögnum nokkurra umsagnaraðila, að með því að landlækni verði gert að taka endanlegar ákvarðanir í málum sem þessum innan stjórnsýslunnar er landlæknir settur í einkennilega stöðu sem á sér ekki hliðstæðu innan íslenskrar stjórnsýslu. Landlækni hafa verið falin ákveðin hlutverk innan heilbrigðiskerfisins sem talin eru upp í 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, en eitt þeirra hlutverka er skv. e-lið ákvæðisins að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Þannig hefur landlæknir víðtæka eftirlitsskyldu með heilbrigðisstarfsfólki á grundvelli laga um landlækni og lýðheilsu, laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, og á grundvelli laga um sjúkraskrár. Minni hlutinn tekur hér undir athugasemdir sem fram koma í umsögn Sigríðar Rutar Júlíusdóttur þess efnis að sjúkraskrár geta sýnt fram á athafnir eða athafnaleysi heilbrigðisstarfsmanna sem hefðu öllu jöfnu átt að leiða til aðgerða af hálfu embættisins en gerðu það ekki. Embætti landlæknis getur því verið í erfiðri stöðu við töku ákvarðana í málum er varða aðgang að sjúkraskrám. Er því ótækt að ekki verði hægt að kæra ákvarðanir landlæknis til velferðarráðuneytisins.
    Samkvæmt framansögðu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      1. gr. falli brott.
     2.      A-liður 2. gr. orðist svo: 3. mgr. fellur brott.
     3.      Efnismálsgrein 4. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Kæruheimild.

                  Heimilt er að bera synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um að veita nánum aðstandanda aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings eða synjun um að fá afhent afrit af henni undir embætti landlæknis. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum. Heimilt er að kæra ákvarðanir landlæknis til ráðherra.

Alþingi, 3. desember 2012.

Björt Ólafsdóttir.