Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 165. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 294  —  165. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun,
með síðari breytingum (heimild til sameiningar).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hrafn Hlynsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Landsvirkjun, ríkisskattstjóra og Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja.
    Forsaga málsins er sú að frá því í apríl 2012 þegar Landsvirkjun varð meirihlutaeigandi í félaginu Þeistareykjum ehf. hefur félagið talist vera 100% dótturfélag Landsvirkjunar. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að megintilgangur Landsvirkjunar með kaupum á hlutum í Þeistareykjum hafi verið að tryggja þau réttindi sem félagið fer með og sameina það síðan öðrum rekstri og starfsemi Landsvirkjunar. Í 3. mgr. 9. gr. sameignarfélagssamnings Landsvirkjunar segir m.a. að ákvörðun um „sameiningu eða samruna félagsins við önnur félög eða fyrirtæki eða slit félagsins [sé] óheimil nema að fengnu samþykki Alþingis“. Nauðsynlegt var því að afla samþykkis og heimildar Alþingis fyrir samrunanum. Þá heimild veitti Alþingi með skýrum hætti með 4. gr. fjáraukalaga fyrir árið 2012 (nýr liður, 7.20, í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2012). Með ákvörðun dagsettri 14. febrúar 2013 hafnaði fyrirtækjaskrá fyrirhuguðum samruna Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. með vísan til þess að samruninn ætti sér ekki næga lagastoð. Að mati fyrirtækjaskrár hefur heimild sú sem veitt er í fjáraukalögum fyrir árið 2012 sín lagalegu takmörk þar sem lög um Landsvirkjun heimila ekki slíkan samruna auk þess sem önnur almenn lög heimila ekki samruna sameignarfélaga og einkahlutafélaga. Í ljósi þessa er leitað eftir skýrri viðbótarheimild frá Alþingi með þeim breytingum á lögum um Landsvirkjun sem hér eru til umfjöllunar.
    Nefndin telur ljóst af gögnum málsins og eftir umfjöllun nefndarinnar að umrædd sameining Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. byggist á hagræðingarsjónarmiðum sem séu til þess fallin að styrkja rekstur félaganna til framtíðar. Auk þess hefur Alþingi nú þegar samþykkt sameininguna í fjárlögum og fjáraukalögum þó að fyrirtækjaskrá telji það ekki fullnægjandi lagastoð fyrir sameiningunni eins og áður var rakið. Fram hefur komið að mikilvægt sé að greinin innihaldi skýra lagatilvísun. Í ljósi þessa leggur nefndin til breytingu sem er efnislega eins og áður en með skýrari lagatilvísun.
    Nefndin telur að með samþykkt frumvarpsins svo breyttu fáist skýr og ótvíræð lagaheimild fyrir samruna Þeistareykja ehf. og Landsvirkjunar sem öll rök mæla með.
    Pétur H. Blöndal gerir þann fyrirvara við málið að Landsvirkjun hafi losað aðra meðeigendur undan ábyrgðum með því að kaupa þá út og að Þeistareykir ehf. geti núna farið að framkvæma án takmarkaðrar ábyrgðar sem áður var í hlutafélagi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Heimilt er að sameina Þeistareyki ehf. og Landsvirkjun með þeim hætti að Landsvirkjun taki yfir allar eignir, skuldir, réttindi, skuldbindingar og rekstur Þeistareykja ehf. frá og með 1. júlí 2013.
    Ákvæði XIV. kafla laga um einkahlutafélög gilda um sameininguna að því marki sem við á. Þrátt fyrir skilyrði 51. og 54. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, gildir ákvæðið um sameiningu Þeistareykja ehf. og Landsvirkjunar þannig að samruninn hafi ekki í för með sér skattskyldu, hvorki fyrir Þeistareyki ehf. né Landsvirkjun.

    Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. desember 2013.


Frosti Sigurjónsson,


form.


Steingrímur J. Sigfússon, frsm.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.



Líneik Anna Sævarsdóttir.


Árni Páll Árnason.


Guðmundur Steingrímsson.



Willum Þór Þórsson.


Vilhjálmur Bjarnason.