Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 186. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 322  —  186. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, og lögum nr. 80/2011, um breytingu á þeim lögum (rekstur heimila fyrir börn).


Frá meiri hluta velferðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Sigurbjörnsson og Einar Njálsson frá velferðarráðuneyti, Heiðu Björgu Pálmadóttur frá Barnaverndarstofu, Guðjón Bragason og Gyðu Hjartardóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Halldóru Gunnarsdóttur frá Reykjavíkurborg, Margréti Maríu Sigurðardóttur, umboðsmann barna, og Elísabetu Gísladóttur frá embætti umboðsmanns barna. Nefndinni hafa borist umsagnir frá Landspítala, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Reykjanesbæ og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að horfið verði frá þeirri breytingu sem var ákveðin með lögum nr. 80/2011 um tilfærslu á rekstri heimila skv. 84. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, frá sveitarfélögum til ríkisins. Í breytingunni fólst að tilteknar stofnanir sem Reykjavíkurborg rekur skv. 84. gr. barnaverndarlaga færðust yfir til ríkisins en borgin er eina sveitarfélagið sem hefur starfrækt slíkar stofnanir. Markmið breytinganna var að skerpa á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og gera með því barnaverndarstarfið markvissara sem og að tryggja að öll börn sætu við sama borð óháð búsetu. Breyting þessi var lögð til með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 80/2011, um breytingu á barnaverndarlögum, en með lögunum fór fram heildarendurskoðun barnaverndarlaga. Í áliti félags- og tryggingamálanefndar (þskj. 1425 á 139. löggjafarþingi) við meðferð málsins kom m.a. eftirfarandi fram: „Þá telur nefndin vert að benda á að ekki liggur fyrir samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um nánari framkvæmd við breytta verkaskiptingu og um þær fasteignir, lausafjármuni og starfsfólk sem við breytinguna færist frá sveitarfélögum til ríkisins. Í þessu sambandi bendir nefndin á að mikið var lagt í að ljúka samkomulagi vegna yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga og þeirra eigna og starfsfólks sem við hana fluttist frá ríki til sveitarfélaga. Hér er vissulega um mun smærra mál að ræða að umfangi og fjármunum en engu síður er mikilvægt að ljúka samkomulaginu.“
    Gildistaka tilfærslunnar var fyrirhuguð 1. janúar 2013 en á árinu 2012 varð ljóst að ekki var raunhæft að stefna að þeirri gildistöku og með lögum nr. 113/2012 var gildistöku tilfærslunnar frestað til 1. janúar 2014. Í áliti velferðarnefndar (þskj. 263 á 141. löggjafarþingi) kom fram að sömu athugasemdir hafi komið þá fram um undirbúning tilfærslunnar og ljóst að lítið hafi miðað. Á fundi nefndarinnar nú kom fram að undirbúningi hefði í engu þokað áfram af ástæðum sem raktar eru í greinargerð frumvarpsins en ber þar helst að nefna að ekki hefur tekist að útfæra kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga á ásættanlegan hátt en einnig ljóst að þær ábendingar sem fram komu í áðurnefndu áliti félags- og tryggingamálanefndar og aftur í áliti velferðarnefndar um að veita þyrfti aukið fé í málaflokkinn og uppbyggingu úrræða hefur ekki gengið eftir. Niðurstaða viðræðna velferðarráðuneytisins og sveitarfélaganna er því að hætta við tilfærsluna.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að ein ástæða þess að illa hafi gengið með málið sé sú að tilfærslan var ákveðin með lögum áður en samkomulag um nánari verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var gert. Fór svo að ekki reyndist unnt að ljúka við slíkt samkomulag. Þá er staða sveitarfélaga að nokkru leyti önnur nú en þegar vinna við endurskoðun barnaverndarlaganna hófst en rekja má þá vinnu allt til ársins 2007. Á höndum sveitarfélaganna eru nú málefni fatlaðs fólks og kom fram af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga að sveitarfélögin væru mörg hver betur fær um að sinna barnaverndarmálum nú en þá með hliðsjón af reynslu þeirra af yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks til sveitarfélaganna. Þá kom einnig fram að fjölkerfameðferð (MST), sem fer fram á heimilum barna eða í tengslum við þau, hefur dregið úr því að börn séu vistuð utan heimila. Með því móti má vinna með börnunum og fjölskyldum þeirra á eigin heimili og valda þannig sem minnstri röskun á högum barnanna. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun verður þó ávallt þörf á sérstökum vistunarúrræðum þar sem fjölkerfameðferð hentar ekki öllum börnum.
    Með vísan til mats ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og þess sem kom fram á fundi nefndarinnar telur meiri hlutinn einsýnt að ekki verði af tilfærslunni með þeim hætti að allir aðilar geti gengið sáttir frá borði.
    Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Elín Hirst og Unnur Brá Konráðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. desember 2013.Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form.


Björt Ólafsdóttir,


frsm.


Þórunn Egilsdóttir.Ásmundur Friðriksson.


Katrín Júlíusdóttir.


Páll Jóhann Pálsson.