Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 199. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 326  —  199. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.


    Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013 var lagt fram á Alþingi 26. nóvember sl. sem er óvenju seint. Að auki voru breytingartillögur meiri hlutans ekki kynntar í nefndinni fyrr en 6. desember sl. Minni hlutinn gagnrýnir þetta verklag.
    Frumvarp til lokafjárlaga hefur ekki enn verið lagt fram þó að samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins beri að leggja það fram um leið og fjárlagafrumvarpið.
    Í þessu frumvarpi til fjáraukalaga er að hluta til leitast við að hækka útgjöld ársins með fjáraukalögum þó að þau beri einkum að nota vegna ófyrirséðra útgjalda og ákvarðana vegna nýrra laga. Minni hlutinn bendir á að þetta er gert þrátt fyrir mikinn vilja Alþingis að beita fjáraukalögum rétt. Að mati minni hlutans hefði verið ástæða til að fjárlaganefnd kæmi sér saman um að leggja fram breytingartillögur sem taki til baka þær ákvarðanir sem ekki eru í anda fjáraukalaga.

Um breytingartillögur meiri hlutans.
    Meiri hlutinn hefur lagt fram breytingartillögur við frumvarpið sem lækka gjöld samtals um 1.907 m.kr. en hækkun tekna nemur á sama tíma 3.908 m.kr. á rekstrargrunni.
    Áhrif breytinganna á frumvarpið á rekstrargrunni koma fram í eftirfarandi töflu.

Í milljörðum kr. Fjárlög 2013 Fjáraukalagafrumvarp Breytingartillaga 2. umr. Samtals
Frumtekjur 558,6 -23,1 5,3 540,8
Frumgjöld 498,4 5,6 0,8 504,8
Frumjöfnuður 60,2 -28,7 4,5 36,0
Vaxtatekjur 20,8 -0,7 -1,4 18,6
Vaxtagjöld 84,7 -7,5 -2,7 74,4
Vaxtajöfnuður -63,9 6,9 1,3 -55,8
Heildartekjur 579,4 -23,7 3,9 559,5
Heildargjöld 583,1 -1,9 -1,9 579,3
Heildarjöfnuður -3,7 -21,8 5,8 -19,8

Tekjur.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs lækki um 23,7 milljarða kr. Þar af lækka skatttekjur um 13,5 milljarða kr. Aðrar rekstrartekjur lækka um 5,1 milljarð kr., áætluð sala eigna lækkar um 4 milljarða kr. og fjárframlög lækka um 1,1 milljarð kr. Við 2. umræðu er gert ráð fyrir að heildartekjur hækki um 3,9 milljarða kr. frá fyrrgreindri lækkun. Þar af hækka skattar á tekjur og hagnað um 3,4 milljarða kr., skattar á vöru og þjónustu um 1,4 milljarða kr., en vaxtatekjur lækka um 1,1 milljarð kr.
    Samkvæmt yfirliti frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafa tekjur skilað sér betur í ríkissjóð á seinni hluta ársins en horfur voru á fyrri hluta ársins, en upphaflegar tekjutölur í frumvarpinu eru miðaðar við hagspá frá því í júní sl. Tekjur eru þó enn undir áætlun miðað við fjárlög fyrir árið 2013. Ástæða þess er einkum sú að núverandi ríkisstjórn ákvað að lækka tekjur af veiðigjaldi umtalsvert. Virðisaukaskattur sem þeir greiða sem nýta hótel- og gistiþjónustu var einnig lækkaður og vegna þess að bið var á efndum stórra kosningaloforða hélt fólk að sér höndum í einkaneyslu og það hefur haft áhrif á tekjur af neyslusköttum. Vegna ákvarðana stjórnvalda um að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið berast ekki styrkir til ýmissa verkefna sem unnin voru samhliða umsóknarferlinu. Þá verða tafir á tekjum vegna sykurskatts á árinu 2013.

Veiðigjald.
    Fólkið í landinu á auðlindina og veitir með lögum einkaaðilum tímabundin sérleyfi til nýtingar hennar. Því á þjóðin rétt á hluta auðlindarentunnar en hefðbundinn arður af atvinnustarfsemi ætti að renna til sérleyfishafanna. Útgerðin hagnaðist umtalsvert á falli krónunnar en ríkissjóður og almenningur í landinu biðu af því umtalsvert tjón. Því er sérstaklega mikilvægt að veiðgjald sé innheimt og óþarfa afsláttur sé ekki gefinn til atvinnugreinar sem býr nú við sérlega gott rekstrarumhverfi.
    Ófyrirséð vandkvæði komu upp við framkvæmd laga um veiðigjöld er vörðuðu vinnslu upplýsinga vegna útreiknings sérstaks veiðigjalds. Einnig komu fram óæskileg áhrif sem gjaldaálagningin hefði haft á rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Samkvæmt tillögu minni hluta atvinnuveganefndar um breytingar á lögum um veiðigjöld hefðu breytingar á frímarki og afsláttarþrepi komið til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki, eins og eftirfarandi tafla sýnir fyrir fiskveiðiárið 2013/2014.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Lækkun tekna ríkissjóðs á árinu 2013 hefði samkvæmt tillögunni orðið um 250 m.kr. Með þeim afslætti sem útgerðarfyrirtæki fá að tillögu núverandi stjórnvalda lækka tekjur ríkissjóðs hins vegar á árinu 2013 um 3,2 milljarða kr. Sá tekjumissir hefur augljóslega áhrif á rekstur ríkissjóðs og forgangsröðun verkefna.

Virðisaukaskattur á hótel- og gistiþjónustu.
    Í fjárlögum fyrir árið 2013 var gert ráð fyrir að virðisaukaskattur af hótel- og gistiþjónustu hækkaði 1. september úr 7% í 14%. Þessa hækkun tók ný ríkisstjórn til baka og verður neysluskattur þessi, sem greiddur er að mestu af erlendum ferðamönnum, áfram í virðisaukaskattsþrepi með matvælum. Tekjulækkunin er 500 m.kr. á árinu 2013. Þar með er viðhaldið miklum mun á inn- og útskatti hótela- og gististaða þannig að ríkið greiðir talsverðar fjárhæðir á ári með starfsemi fyrirtækjanna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.     Ferðaþjónustan er í örum vexti og bent er á að meðaltekjur á hvern ferðamann á ári hafa farið ört lækkandi undanfarin ár samkvæmt heimildum frá Ferðamálastofu. Í skýrslu Ferðamálastofu Fjármögnun uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða, bls. 3, kemur fram að um 40% lækkun varð á milli áranna 2004 og 2009. Minni hluti fjárlaganefndar leggur á það áherslu að rekstrarumhverfi greinarinnar allrar verði endurskoðað, greinin vaxi án undanþága og meðgjafar, og starfi við stöðugt, eðlilegt rekstrarumhverfi eins og aðrar greinar sem ekki njóta sérstaks stuðnings úr ríkissjóði. Ferðaþjónustan í heild hefur vaxið mjög mikið undanfarin ár. Eðlilegt er að svo ört vaxandi grein skili auknum tekjum í ríkissjóð.

IPA-styrkir.
    Um mitt ár hafði Evrópusambandið veitt alls 2,3 milljarða kr. í IPA-styrki vegna aðildarumsóknar Íslands. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlög frá sambandinu lækki um 556 m.kr. frá því sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2013. Það hvernig stjórnvöld ákváðu að fresta aðildarviðræðunum hefur því valdið verulegu fjárhagslegu tjóni.

Samantekt.
    Ákvarðanir nýrrar ríkisstjórnar hafa beinlínis lækkað tekjur ríkissjóðs um 4,3 milljarða kr.

Gjöld.
    Gert er ráð fyrir að gjöld lækki um 3,8 milljarða kr. þar af um 1,9 milljarða kr. við 2. umræðu.

Frumvarpið 2. umr. Samtals
Æðsta stjórn ríkisins 499,2 499,2
Forsætisráðuneyti 1.744,0 1.744,0
Mennta- og menningarmálaráðuneyti -2.249,8 221,0 -2.028,8
Utanríkisráðuneyti -135,8 -46,7 -182,5
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti -2.865,1 114,5 -2.750,6
Innanríkisráðuneyti -85,0 389,3 304,3
Velferðarráðuneyti 8.525,7 38,9 8.564,6
Fjármála- og efnahagsráðuneyti 301,5 78,0 379,5
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti -114,0 -114,0
Vaxtagjöld ríkissjóðs -7.540,0 -2.702,0 -10.242,0
Samtals -1.919,3 -1.907,0 -3.826,3

Vaxtagjöld.
    Sá gjaldaliður sem lækkar mest er fjármagnkostnaður eða um 7,5 milljarða kr. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að 6,5 milljarðar kr. af þessari lækkun séu vegna þess að í fjárlögum hafi verið gert ráð fyrir að skilmálum skuldabréfs sem gefið var út til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabanka Íslands yrði breytt á árinu á þann veg að skuldabréfið yrði óverðtryggt í stað þess að vera verðtryggt, en ekki hafi orðið af því. Minni hlutinn bendir á að verðbólgureikningsskil eru aflögð hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum en hluti slíkra reikningsskila er enn stundaður hjá ríkinu. Mikilvægt er að reikningsskil ríkisins gefi sem réttasta mynd af rekstri ríkisins á hverjum tíma. Á meðan verðbólgureikningsskil eru enn viðhöfð í ríkisreikningi er hætta á því að freistingin verði sú að taka frekar verðtryggð lán þar sem með því virðist afkoma betri en hún raunverulega er. Minni hlutinn leggur á það áherslu að endurskoðun fjárreiðulaga fylgi bætt reikningsskil sem auki trúverðugleika ríkisfjármálanna og bæti heildarsýn á opinber fjármál til lengri og skemmri tíma.

Almennt um fjáraukalög.
    Hlutverk fjáraukalaga er skýrt skv. 44. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, en þar segir:
    „Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Heimilda fyrir fjárráðstöfunum af þessu tagi, sem grípa þarf til eftir samþykkt fjáraukalaga, skal leitað í lokafjárlögum, sbr. 45. gr.“
    Fjáraukalögum er því fyrst og fremst ætlað að bregðast við ófyrirsjáanlegum útgjöldum enda eiga allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir að koma fram í fjárlögum. Þetta kemur skýrt fram í lögum nr. 88/1997 og er áréttað í minnisblaði Ríkisendurskoðunar frá 6. desember 2013. Þrátt fyrir það eru ýmis útgjöld í frumvarpinu sem ekki geta talist ófyrirséð. Verða hér tiltekin nokkur dæmi.

Embætti forseta Íslands, 00-101.
    Gert er ráð fyrir 14 m.kr. fjárveitingu til forsetaembættisins vegna eftirfarandi þátta: Endurnýjunar á bílakosti og tölvubúnaði, opinberra heimsókna forsetans til annarra landa, heimsóknar Margrétar Danadrottingar vegna hátíðarhalda í tilefni af því að 350 ár voru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar, smíði á fálkaorðum sem fram fer á nokkurra ára fresti og viðhalds á gestahúsi við Laufásveg. Ekki er að sjá að neinn þessara liða sé ófyrirséður eða geti flokkast sem óvænt útgjöld.

Alþingi, 00-201.
    Gert er ráð fyrir 60 m.kr. framlagi vegna hallareksturs Alþingis á árinu 2013. Að mati minni hlutans er umhugsunarefni hvort bæta eigi hallarekstur Alþingis fremur en annarra stofnana.

Rannsóknarnefndir Alþingis, 00-291.
    Gert er ráð fyrir 321,2 m.kr. framlagi vegna kostnaðar við gerð rannsóknarskýrslna um Íbúðalánasjóð og fall sparisjóðanna. Ljóst er að allar áætlanir hafa brugðist og kostnaður við skýrslurnar er miklu hærri en lagt var upp með. Kostnaður vegna verksins hefur þegar verið greiddur án þess að Alþingi hafi samþykkt viðbótarfjárheimildir. Alþingi hefur nú þegar samþykkt rannsókn á einkavæðingu bankanna. Í ljósi reynslunnar er afar mikilvægt að þeirri rannsókn verði skapaður skýr rammi, bæði hvað varðar tíma og fjármagn.

Ríkisstjórn, 00-301.
    Gert er ráð fyrir 97 m.kr. framlagi vegna aukins kostnaðar við fjölgun ráðherra og aðstoðarmanna auk uppgjörs biðlauna og orlofsuppgjörs. Minni hlutinn telur eðlilegt að gert sé ráð fyrir aukinni fjárveitingu á fjárlögum á kosningaári til að mæta fyrirhuguðum útgjöldum. Mætti þá horfa til reynslu undanfarinna kosningaára.
    Á síðasta kjörtímabili var ráðuneytum fækkað úr tólf í átta og í framhaldinu settar reglur sem kveða á um að ráðherrar megi hafa fleiri en einn aðstoðarmann. Nú hefur ráðuneytum verið fjölgað úr átta í níu og aðstoðarmönnum fjölgað mikið en þeir eru nú sautján. Minni hlutinn gagnrýnir að stjórnvöld skuli á tímum niðurskurðar og hagræðingar ekki líta í eigin barm.

Ýmis verkefni, 01-190.
    Gert er ráð fyrir 40 m.kr. framlagi vegna kostnaðar við störf tveggja sérfræðingahópa. Ekkert kostnaðarmat fylgdi þingsályktun ríkisstjórnarinnar um aðgerðaáætlun til að taka á skuldavanda heimilanna. Í 30. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, segir: „Mæli nefnd með samþykkt lagafrumvarps eða þingsályktunartillögu skal hún láta prenta með áliti sínu áætlun um þann kostnað sem hún telur ný lög eða ályktun hafa í för með sér fyrir ríkissjóð.“ Minni hlutinn gagnrýnir að ríkisstjórnin gangi ekki á undan með góðu fordæmi hvað þessi mál varðar.

Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra- og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl., 01-305.
    Gert er ráð fyrir 165,5 m.kr. framlagi sem skipta skal á milli Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands. Ekki er dregið í efa að fjárþörf þessara stofnana er mikil en það á við um margar ríkisstofnanir. Ekki verður séð að hér sé um ófyrirséð útgjöld að ræða sem réttlæti aukaframlag. Undir þessum sama lið er einnig 15,5 m.kr. framlag í mjög óskilgreint verkefni sem snýr að væntanlegu frumvarpi um verndarsvæði í byggð og er gert ráð fyrir ráðningu sérfræðings og ráðgjafa til að sinna þessum verkefnum. Þessi vinna virðist ekki hafin og getur varla flokkast sem óvænt útgjöld.
    Mörg verkefni á sviði þjóðmenningar fluttust á miðju ári frá menntamálaráðuneyti yfir í forsætisráðuneyti og mun ástæðan vera áhugi forsætisráðherra á málaflokknum. Þá var Hagstofa Íslands einnig flutt til forsætisráðuneytis. Minni hlutinn gerir athugasemdir við að málaflokkar flytjist á milli ráðuneyta eftir áhugasviði einstakra ráðherra. Ekki virðist hafa farið fram neitt fagleg mat eða greining á því hvar þessum verkefnum væri best fyrirkomið.
     Þá er einnig gagnrýnivert að flutningur málaflokka milli ráðuneyta eigi sér stað á miðju ári en slíkt eykur óneitanlega flækjustigið og kallar á aukna vinnu. Eðlilegra er að verkefni flytjist á milli ráðuneyta um áramót þegar nýtt bókhaldsár byrjar.

Framhaldsskólar, 02-319.
    Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að 300 m.kr. verði sameinaðar á einn lið hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna áforma um styttingu náms til stúdentsprófs og starfsnámsprófa um eitt ár. Um er að ræða nýtt verkefni sem unnið verður á árinu 2014 og á því ekki að koma fram í fjáraukalögum. Eftir sem áður leggur meiri hlutinn þetta til. Ástæðan virðist vera sú að ef fjárhæðin er felld niður á árinu 2013 og sett þess í stað inn á liðinn á árinu 2014, eins og lög gera ráð fyrir, þá lækkar heildarjöfnuðurinn á árinu 2014, sem fyrir er afar lítill, úr 600 m.kr. í 300 m.kr. Minni hlutinn gerir athugasemdir við þessi vinnubrögð. Tillagan sker sérstaklega í augu vegna umræðu stjórnvalda um aukinn aga og gegnsæi í ríkisfjármálum.

Landspítali, 08-373.
    Starfsemi Landspítala í upphafi árs fór töluvert umfram það sem tíðkast í meðalári. Óvenjuskæðir faraldrar gengu yfir á sama tíma: inflúensa, nóró-sýkingar og RSV-sýkingar. Dagar sem hafa þurfti sjúklinga í einangrun voru ríflega tvöfalt fleiri en í meðalári. Starfsfólk spítalans veiktist einnig og voru veikindaforföll þess 30% tíðari en ársmeðaltal 2012. Kostnaður við aðgerðir sem spítalinn þurfti að grípa til er hóflega metinn á 125 m.kr. Fyrri ríkisstjórn samþykkti tillögu um að spítalinn þyrfti ekki að skera niður fyrir þessum óvænta kostnaði heldur fengist afgreidd tillaga um hann í fjáraukalögum. Samkvæmt frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans á ekki að standa við þá samþykkt fyrri ríkisstjórnar og mun spítalinn því skila viðbótarhalla sem upphæðinni nemur. Minni hluti fjárlaganefndar bendir á þann vanda sem stofnanir standa frammi fyrir þegar við stjórnarskipti er fallið frá fyrri samþykktum ríkisstjórnar sem varða rekstur þeirra og gerir breytingartillögu um 125 m.kr. framlag.

Heilbrigðisstofnanir.
    Gert er ráð fyrir að afkoma heilbrigðisstofnana versni um 1,9 milljarða kr. á árinu og verði neikvæð um 5,2 milljarða kr. í lok árs. Taflan sýnir að rekstrargrundvöllur þeirra er afleitur

Áætluð afkoma heilbrigðisstofnana 31. desember 2013, millj. kr.

Stofun Höfuðstóll
1. janúar 2013
Áætluð afkoma
2013
Samtals
Landspítali -2.964,5 -1.500,0 -4.464,5
Sjúkrahúsið á Akureyri 23,3 -70,0 -46,7
Heilbrigðisstofnun Vesturlands -20,5 0,0 -20,5
Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði 8,5 -3,0 5,5
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 3,5 -50,0 -46,5
Heilbrigðisstofnun Blönduósi 5,9 0,0 5,9
Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki -24,9 -35,0 -59,9
Heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð 12,6 0,0 12,6
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 8,4 0,0 8,4
Heilbrigðisstofnun Austurlands -131,6 -62,0 -193,6
Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum -66,4 -40,0 -106,4
Heilbrigðisstofnun Suðurlands -155,1 -84,0 -239,1
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja -50,4 -50,0 -100,4
-3.351,2 -1.894,0 -5.245,2
              
    Minni hlutinn lýsir áhyggjum af því að lagt sé af stað inn í næsta ár með mikinn uppsafnaðan halla og óviðunandi rekstrarstöðu hjá mörgum heilbrigðisstofnunum. Mjög margir liðir velferðarráðuneytisins fá viðbótarfjárheimild. Minni hlutinn bendir sérstaklega á þann vanda sem fylgir auknum útgjöldum til S-merktra lyfja. Enginn annar fjárlagaliður vex með viðlíka hraða og nauðsynlegt er að ná tökum á honum.
    Skoðanaskipti og samráð hafa á árinu verið á milli velferðarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um lækkun afsláttar á húsaleigu heilbrigðisstofnana. Hækkuð húsaleiga var samþykkt í fjárlögum fyrir árið 2013 en hins vegar var ekki gert ráð fyrir greiðslu hennar í fjárframlögum til stofnananna. Um er að ræða samtals 140 m.kr. Niðurstaðan var að fjármála- og efnahagsráðuneytið styddi fjáraukalagabeiðni velferðaráðuneytisins vegna þessa. Ekki er tillaga um slík framlög í frumvarpinu eða í tillögum meiri hlutans. Minni hluti fjárlaganefndar bendir á að heilbrigðisstofnanir gerðu ekki ráð fyrir að greiða húsaleiguna og munu því sennilega skila rekstrarhalla sem henni nemur. Þetta er enn eitt dæmið um vandræði sem stofnunum er stefnt í þegar ný stjórnvöld breyta ákvörðunum fyrri stjórnvalda seint á almanaksárinu. Minni hlutinn gerir breytingartillögu um 140. m.kr. viðbótarframlag á liðnum.

Jafnlaunaátak.
    Fyrri ríkisstjórn hafði á stefnuskránni að vinna gegn kynbundnum launamun og skipaði framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynja. Ákveðið var að hefja verkið með því að ráðast í jafnlaunaátak til að draga úr kynbundnum launamun á heilbrigðisstofnunum ríkisins. Gerðir voru stofnanasamningar sem tóku gildi 1. mars á þessu ári þar sem ekki þótti hægt að bíða fram til nýs fjárhagsárs og er útgjaldaaukning í fjáraukalögum vegna þessa 1.242 m.kr.

Ofbeldi gagnvart börnum.
    Fyrri ríkisstjórn skipaði í janúar 2013 samráðshóp þriggja ráðuneyta um samhæfða framkvæmd stjórnvalda til þess að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi, treysta burði réttarvörslukerfisins til þess að koma lögum yfir kynferðisbrotamenn og tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota og markvissar forvarnaraðgerðir. Aðgerðin miðaði að því að styrkja lögreglu, ákæruvald og Barnahús þegar í stað til að takast á við aukinn málafjölda auk þess að efla forvarna- og fræðslustarf, bæta meðferðarúrræði og styðja við bakið á félagasamtökum sem sinna slíkri þjónustu. Um er að ræða 79 m.kr. af fjárlagalið ófyrirséðra útgjalda. Þar sem fjárveitingin fer á marga staði í stjórnsýslunni er mikilvægt að verkefninu sé vel fylgt eftir af hálfu Alþingis.

Gjaldfrjálsar tannlækningar barna.
    Fyrri ríkisstjórn gerði samning um gjaldfrjálsar tannlækningar fyrir börn sem tók gildi 15. maí 2013. Samningurinn felur í sér að börn og ungmenni fá alla nauðsynlega almenna tannlæknaþjónustu og greiða aðeins fast komugjald. Þrátt fyrir að samþykktin væri gerð á árinu var gert ráð fyrir megninu af útgjöldunum í fjárlögum fyrir árið 2013 en endanleg útgjöld lágu ekki fyrir fyrr en samningurinn var undirritaður og því falla 45 m.kr. til í fjáraukalögunum.

Fjarskiptasjóður.
    Ekki er gert ráð fyrir að markaðar tekjur upp á 195 m.kr. vegna 4G-útboðs gangi til sjóðsins og mun það væntanlega hafa áhrif á áform Fjarskiptasjóðs um aðgerðir til að bæta netsamband út um land. Mjög mörg sveitarfélög hafa lýst áhyggjum sínum af skorti á netsambandi og slæmum áhrifum þess á búsetuskilyrði. Minni hlutinn bendir á að það er mikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina að fá betra netsamband og telur rétt að tekjurnar vegna útboðsins renni til slíkra verkefna eins og Fjarskiptasjóður hefur gert ráð fyrir. Minni hlutinn gerir breytingartillögu um 195 m.kr. framlag vegna þessa.

Fjárfestingaráætlun.
    Fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem unnin var í samstarfi við formann Bjartrar framtíðar er þyrnir í augum nýrra stjórnvalda. Þar eru flestir liðir skornir niður án röksemda annarra en þeirra að liðirnir tilheyri „svokallaðri fjárfestingaráætlun“ síðustu ríkisstjórnar. Markmiðið með því að hrinda fjárfestingaráætluninni í framkvæmd var að auka fjárfestingu og fjölga störfum, sem hefði jákvæð áhrif á hagvöxt og styrkti tekjugrunn ríkissjóðs. Þessi markmið virðast ekki hugnast núverandi stjórnvöldum enda eru verkefnin flest skorin niður. Þeirra á meðal eru framlög til að mæta auknum fjölda ferðamanna og byggja upp innviði á friðlýstum svæðum auk margra annarra mikilvægra verkefna.

Íbúðalánasjóður.
    Veikasti hlekkurinn í gríðarmiklum útistandandi ríkisábyrgðum er Íbúðalánasjóður, en ríkisábyrgðir vegna hans nema nálægt 940 milljörðum kr. Frá árinu 2010 hefur þurft að afskrifa í rekstrarreikningi ríkissjóðs um 40 milljarða kr. eiginfjárframlög til sjóðsins. Í ríkisreikningi fyrir árið 2012 er þannig gjaldfærður 7,1 milljarður kr. vegna niðurfærslu á bókfærðum eignarhluta ríkissjóðs í Íbúðalánasjóði. Ríkissjóður þurfti fyrr á þessu ári að styrkja eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um 13 milljarða kr. með nýju stofnfjárframlagi. Óljóst er hvort afskrifa þarf hluta þess framlags á árinu eða síðar ef eiginfjárstaðan rýrnar frekar frá því sem þegar er orðið. Slík afskrift myndi færast til gjalda og auka rekstrarhalla ríkissjóðs enn frekar á árinu 2013. Staða Íbúðalánasjóðs er mjög erfið og veruleg óvissa er um rekstrarhæfi hans í núverandi umhverfi vegna lágs vaxtastigs og samkeppni á bankamarkaði í skjóli gjaldeyrishafta. Verulegar líkur eru á að ríkissjóður verði fyrir enn frekara tapi vegna sjóðsins ef ekki verður gripið til viðeigandi ráðstafana til að gera sjóðinn rekstrarhæfan, nema svo ólíklega vilji til að vaxtastig hækki verulega en það mundi létta á vanda sjóðsins.
    Reiknaður vaxtamunur útlána og lántöku sjóðsins nægir ekki til þess að standa undir rekstrarkostnaði, vanskil eru mikil og uppgreiðsluvandinn er enn til staðar. Í því sambandi þarf einnig að horfa til þess hvað gerist þegar aðgerðir stjórnvalda til að lækka höfuðstól íbúðalána verða að veruleika. Þá gæti sjóðurinn staðið frammi fyrir enn hærri uppgreiðslum útlána en nú er raunin. Verði þessar aðstæður óbreyttar er talið að leggja þurfi Íbúðalánasjóði til um 4,5 milljarða kr. rekstrarframlag í ár og á næsta ári, eins og gert er ráð fyrir bæði í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2013 og frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014. Við það mundu bætast frekari eiginfjárframlög og afskriftir ef fjárhagsstaða sjóðsins versnar enn frekar, en stjórnvöld horfa til þess að veita þurfi 4,5 milljarða kr. árleg framlög allt til ársins 2017. Sem dæmi um umfang vandans má nefna að í endurskoðaðri áætlun sjóðsins fyrir árið 2013 frá því í september sl. er áætlað að tap sjóðsins verði um 4,1 milljarður kr. á árinu 2013, en rekstrarafkoma sjóðsins eftir fyrstu sex mánuði var neikvæð um tæplega 3 milljarða kr. Þetta er mun lakari afkoma en samkvæmt áætlun fjárlaga 2013 þar sem áætlað var að afgangur af rekstri sjóðsins yrði um 1,1 milljarður kr. Þá ber að geta þess að fjársýsluskattur er einnig lagður á Íbúðalánasjóð. Ríkisstjórnin þarf að leysa þennan erfiða rekstrarvanda og móta framtíðarstefnu fyrir sjóðinn.

Atvinnuleysistryggingasjóður.
    Ein af forsendum fjárlaga er spá Hagstofunnar um fjölda atvinnulausra. Velferðarráðuneytið metur það svo að sú spá nái ekki fram að ganga og atvinnuleysi verði meira en við var búist. Það krefst hærri útgjalda úr sjóðnum en áætlað var. Til að forðast framúrkeyrslu hefur verið fallið frá útgreiðslu desemberbóta til atvinnulausra um 240 m.kr. Minni hlutinn telur ótækt að atvinnuleitendur verði af þessari uppbót og leggur því fram breytingartillögu um hana.

Alþingi, 9. desember 2013.Oddný G. Harðardóttir,


frsm.


Bjarkey Gunnarsdóttir.


Brynhildur Pétursdóttir.